Stöðugt dregur úr reykingum meðal Íslendinga, samkvæmt niðurstöðum þriggja kannana, sem gerðar voru fyrir Tóbaksvarnanefnd og sagt var frá í Morgunblaðinu síðastliðinn laugardag.

Stöðugt dregur úr reykingum meðal Íslendinga, samkvæmt niðurstöðum þriggja kannana, sem gerðar voru fyrir Tóbaksvarnanefnd og sagt var frá í Morgunblaðinu síðastliðinn laugardag. Þannig sögðust 24% landsmanna á aldrinum 24 til 69 ára hafa reykt daglega á síðastliðnu ári, en þetta hlutfall var 26% árið áður og 40% árið 1985. Tæpur helmingur fullorðinna Íslendinga hefur aldrei reykt og fjórðungur er hættur, samkvæmt sömu könnunum.

Þessar niðurstöður eru ánægjuleg tíðindi og sýna fram á að góður árangur hefur náðst með því forvarnar- og fræðslustarfi, sem fjöldi félagasamtaka og stofnana hefur unnið. Fáir hafa núorðið sér til afsökunar að þeir hafi ekki fengið upplýsingar um skaðsemi tóbaks. Sú vitneskja er vísindalega staðfest og á allra vitorði. Sá fjórðungur þjóðarinnar, sem enn stundar þennan banvæna ósið, hlýtur að hugsa sinn gang.

Í ljósi þess í hversu miklum minnihluta reykingafólk er orðið vekur það nokkra furðu hversu hægt gengur að tryggja hinum mikla reyklausa meirihluta reyklaust andrúmsloft á opinberum stöðum. Fyrst og fremst á þetta við um veitinga- og kaffihús, þar sem andrúmsloft er gjarnan reykmettað og oft ekki nokkur leið að verja t.d. börn fyrir tóbaksreyk. Mikill minnihluti veitingastaða í landinu virðist hafa farið eftir þeim ákvæðum tóbaksvarnalaga, sem tóku gildi fyrir tæplega hálfu öðru ári, að meirihluti veitingarýmis eigi að vera reyklaus, tryggja skuli fullnægjandi loftræstingu ef leyft er að reykja á afmörkuðum svæðum og að tryggja skuli að aðgangur að reyklausu svæði liggi ekki um reykingasvæði. Sá aðlögunartími, sem kann að hafa þótt hæfilegur fyrir veitingamenn að gera ráðstafanir til að farið sé að lögum í húsakynnum þeirra, hlýtur brátt að vera á enda.

Það er ekki endalaust hægt að halda því fram að þeir, sem vilja njóta veitinga í reyklausu andrúmslofti, geti bara sneitt hjá veitingahúsum, þar sem er reykt. Einn eða tveir reykingamenn geta mengað heilan veitingasal og valdið öðrum óþægindum og skaða. Veitingahús, sem banna reykingar alfarið, geta menn talið á fingrum sér. Málið snýst ekki aðeins um rétt viðskiptavina veitingahúsanna, heldur einnig um rétt starfsfólksins, sem lögum samkvæmt ber að virða.

Rétt reykingafólks til að anda að sér sínum banvæna reyk ber að sjálfsögðu einnig að virða, en það er lágmarkskrafa að málum sé þannig fyrir komið að aðrir hljóti ekki óþægindi og heilsutjón af.