MEÐ sameiningu Hollustuverndar ríkisins, Náttúruverndar ríkisins og embættis veiðistjóra um áramótin í Umhverfisstofnun varð til veiðistjórnunarsvið stofnunarinnar sem tók við hlutverki veiðistjóra.

MEÐ sameiningu Hollustuverndar ríkisins, Náttúruverndar ríkisins og embættis veiðistjóra um áramótin í Umhverfisstofnun varð til veiðistjórnunarsvið stofnunarinnar sem tók við hlutverki veiðistjóra. Um 17 þúsund skotveiðimenn fá um þessar mundir sendar veiðiskýrslur vegna veiðinnar á síðasta ári.

Í frétt frá veiðistjórnunarsviði segir að tvær nýjungar hafi verið teknar upp á skilavef veiðistjórnunarsviðsins. Þegar skotveiðimenn skili veiðiskýrslu geti þeir um leið sótt um leyfi til hreindýraveiða. Einnig séu veiðimenn beðnir að tilgreina fjölda veiðidaga á hverri veiddri dýrategund. Segir að mikilvægt sé að fá uppgefinn fjölda veiðidaga til að sjá sóknarþunga að baki veiðinni þar sem út frá honum megi meta álag á veiðistofna.

Þá kemur fram að færst hafi í vöxt að veiðimenn skili skýrslum með rafrænum hætti. Skiluðu 11.087 veiðimenn skýrslu í fyrra og voru 65% í rafrænu formi. "Nú fá 9.245 veiðimenn af 16.888 lykilorð til netskila sent með tölvupósti í stað skýrsluforms í bréfi og eru það viss þáttaskil þar sem þetta er í fyrsta sinn sem fleiri fá veiðiskýrslu með tölvupósti en með hefðbundnum pósti," segir m.a. í fréttatilkynningu.