Hart barist um knöttinn. Ólafur Stefánsson og einn leikmaður Slóvena í leik í Laugardalshöllinni.
Hart barist um knöttinn. Ólafur Stefánsson og einn leikmaður Slóvena í leik í Laugardalshöllinni.
"ÉG tel að Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari sé að taka hlutina fyrir í réttri röð og þeir vankantar sem eru á liðinu verði lagaðir áður en heimsmeistarakeppnin hefst í Portúgal," sagði Sigurður Gunnarsson, fyrrverandi landsliðsmaður í handknattleik og núverandi þjálfari karlaliðs Stjörnunnar, er hann var beðinn um að rýna í stöðu landsliðsins að loknum tveimur æfingaleikjum gegn Slóvenum.

Mér sýnist að leikur liðsins sé áþekkur því sem það sýndi á EM í Svíþjóð í upphafi sl. árs. Hraðinn er til staðar og sóknarleikur liðsins er oft á tíðum mjög skemmtilegur. Liðið er að leika 6/0 vörn en það sást í síðari leiknum gegn Slóvenum að menn verða að ganga af meiri krafti út í skytturnar. Varnarleikurinn á samt sem áður eftir að lagast með tilkomu Sigfúsar Sigurðssonar og ég tel þetta ekki vera áhyggjuefni.

Guðmundur telur að liðið þurfi að vera betur í stakk búið til að stöðva hraðar sóknir sem það fær á sig og ég get ekki annað séð en hann sé á réttri braut í þeim efnum."

"Sænskt" hugarfar

Sigurður sagði að ávallt væru gerðar miklar væntingar til liðsins fyrir stórmót en nú væri staðan önnur en fyrir EM. "Íslenska liðið er þekkt stærð sem enginn á eftir að vanmeta. Ég tel að liðið muni temja sér sænska hugsun fyrir HM. Þar mun hópurinn stefna að því að vera besta liðið, enda erum við ekki með bestu einstaklingana í okkar röðum. Ef það tekst þá er aldrei að vita hvað gerist. En að sama skapi er liðið einnig brothætt ef menn meiðast en ég ætla ekki að vera velta þeim hlutum fyrir mér að svo stöddu."

Aðspurður um innkomu Rolands Vals Eradze í íslenska liðið sagði Sigurður að hann ætti eftir að standa sig.

"Eradze hefur sannað sig hér í deildinni og er afar stöðugur markvörður. Það sást í fyrsta leiknum sem hann lék í Hafnarfirði að hann er glöggur á að hefja sóknarleik liðsins og ég tel að hann auki líkur liðsins á að skora úr hraðaupphlaupum.

Eradze mun standa sig

Sendingar hans minna mjög á sendingar þær sem Suik Hyung Lee beitti er hann lék hér á landi með FH. Hann getur "grýtt" knettinum langt með mikilli nákvæmni.

Það er einnig ljóst að skotin sem Eradze er að glíma við í landsleikjum eru fastari og markvissari en hann á að venjast úr deildinni hér heima. En ég tel að hann muni skila sínu í samvinnu við Guðmund Hrafnkelsson."

Nafn Julians Duranona hefur verið nefnt á undanförnum vikum þar sem hann lét mikið að sér kveða með liði Wetslar í tveimur leikjum í þýsku úrvalsdeildinni. Sigurður segir að vissulega sé Duranona áhugaverður kostur en ekki lykill að velgengni liðsins á HM.

"Maður yrði að sjá Duranona í leik áður en maður getur dæmt um hvort hann sé í landsliðsklassa í dag. En vissulega er hann áhugaverður kostur þar sem í íslenska liðinu eru ekki margar "hreinræktaðar" skyttur. Hins vegar má ekki einblína um of á Duranona, en hann gæti verið svarið við því ef Ólafur Stefánsson yrði tekin úr umferð. Dagur Sigurðsson lék vel í þessari stöðu á EM í Svíþjóð, Patrekur Jóhannesson getur einnig leikið þessa stöðu með prýði sem og Sigurður Bjarnason. Hann sýndi góða takta í öðrum leiknum gegn Slóvenum og getur þetta enn. Við erum blessunarlega með marga skapandi leikmenn fyrir utan, Ólaf, Patrek og Dag. Hraðaupphlaupin verða okkar beittasta vopn og ég tel að Guðmundur haldi áfram með þá leikaðferð sem gafst vel á EM."

Sigurður var varkár er hann var spurður um væntingar sínar til liðsins. "Það eru gömul sannindi og ný að íslenska þjóðin fer á flug þegar nær dregur stórmóti sem þessu. Ég veit hins vegar að landsliðshópurinn mun nálgast sín markmið varfærnislega en án þess að hika. Það er því best að láta verkin tala í þessum efnum," sagði Sigurður Gunnarsson.

Eftir Sigurð Elvar Þórólfsson