Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri Seltjarnarness, og Bubbi Morthens bæjarlistamaður kampakátir fyrir utan Félagsheimilið en þar heldur sá síðarnefndi tónleika á fimmtudagskvöldið.
Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri Seltjarnarness, og Bubbi Morthens bæjarlistamaður kampakátir fyrir utan Félagsheimilið en þar heldur sá síðarnefndi tónleika á fimmtudagskvöldið.
MENNINGARLÍF Seltirninga hefur fengið öfluga vítamínsprautu því nú hafa bæjaryfirvöld aftur tekið við rekstri félagsheimilis bæjarins.

MENNINGARLÍF Seltirninga hefur fengið öfluga vítamínsprautu því nú hafa bæjaryfirvöld aftur tekið við rekstri félagsheimilis bæjarins. Undanfarin sjö ár hafa utanaðkomandi aðilar séð um rekstur heimilisins en nú um áramót losnuðu samningar og breytinga er því að vænta á nýtingu hússins. Það er bæjarlistamaðurinn Bubbi Morthens sem ríður á vaðið á fimmtudagskvöldið með tónleikum í félagsheimilinu í tilefni þess að bærinn hefur endurheimt húsið.

"Það hefur komið skýrt fram síðustu misseri, sérstaklega í kosningabaráttunni, mikill áhugi á að nýta félagsheimilið í þágu Seltirninga með ýmsum hætti," segir Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri. "Með því að taka við rekstrinum viljum við stuðla að því að félögin sem í bænum starfa og aðrir aðilar geti nýtt sér húsnæðið, t.d. til fundarhalda, menningarstarfsemi eða fyrir veislur."

Að sögn Jónmundar liggur ekki endanlega fyrir með hvaða hætti félagsheimilið verður nýtt. "Við ætlum samt sem áður að taka forskot á sæluna og efna til tónleika með bæjarlistamanninum okkar, Bubba Morthens, næstkomandi fimmtudag og gera það að táknrænum viðburði í tilefni þess að við höfum aftur tekið við félagsheimilinu."

Jónmundur telur ekki ástæðu til þess að svo stöddu að fara út í breytingar eða endurbætur á félagsheimilinu. Þeir sem ráku húsið sáu um ákveðnar endurbætur á því meðan á leigutíma stóð.

"Það á eftir að koma í ljós þegar það skýrist betur hvernig við viljum nýta húsið. Það verður þá kannski með örlítið öðrum hætti en áður og gæti krafist einhverra breytinga."

Tónleikar Bubba hefjast kl. 20 á fimmtudagskvöldið.

"Það er mjög spennandi að fá að opna félagsheimilið. Vonandi verður þetta til þess að lyfta upp menningarbragnum hjá okkur, við megum vel við því að efla hann," segir Jónmundur að lokum.