[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er stutt bil á milli ævintýrabóka fyrir unglinga og fullorðna. Árni Matthíasson segir frá nýrri unglingasögu hryllingssagnahöfundarins Clives Barkers sem Disney-veldið hefur þegar tryggt sér kvikmyndaréttinn á.

SEGJA má með nokkrum rökum að hryllingssögur á við þær, sem þeir skrifa, meistarar óhugnaðarins, Stephen King, Clive Barker og Neil Gaiman, séu ævintýri fyrir fullorðna, framhald af Grimms-ævintýrum æskunnar og norskum þjóðsögum þar sem allt er upp fullt með þursa, drauga og mannætur. Það kemur því ekki á óvart að margir helstu hryllingssagnasmiðir eru fyrirtaks barnabókahöfundar eins og sannast til að mynda á nýlegum verkum þeirra síðastnefndu, Neils Gaimans og Clives Barkers.

Stutt er síðan mjög skemmtileg bók Gaimans, Coraline, kom út í kilju, en fram að því var hann helst þekktur fyrir Sandman og spennuhryllinginn American Gods. Coraline var aftur á móti skemmtileg dæmisaga um það að ekki vilji maður í raun allt það sem maður óskar sér. Söguhetjan er ung stúlka sem á erfitt með að sætta sig við að vera flutt á nýjar slóðir með foreldrum sínum. Hana langar til að lífið verði öðruvísi, en þegar það gengur eftir er það of dýru verði keypt og hún verður að taka á honum stóra sínum til að komast aftur í sitt gamla líf; skemmtilega hryllileg saga og spennandi sem endar vel eins og ævintýri eiga að gera.

Clive Barker hefur skrifað bók með álíka inntaki, The Thief of Always, þó framvinda og umbúnaður sé talsvert öðruvísi, en í henni segir frá drengnum Harvey Swick sem tekur fegins hendi því að mega gera allt sem hann vill í skemmtihúsi hr. Hoods. Hann kemst snemma að því að allt hefur sinn verðmiða og kostnaðurinn meiri en hann getur hugsað sér að borga þegar á reynir. Stutt og skemmtileg saga. Ný bók Barkers, Abarat, er aftur á móti allt annað en stutt, fyrsta bindi af fjórum er um 400 síður. Í henni er söguhetjan stúlka og sagan óhemju ævintýraleg.

Í kjúklingahöfuðborg heimsins

Sagan hefst þar sem Candy Quackenbush, sextán ára gömul, er að vinna að ritgerð um heimabæ sinn, kjúklingahöfuðborg heimsins, Chickentown USA, smábæ í Minnesota. Líf hennar er heldur hráslagalegt, lífið í bænum snýst allt um kjúklinga enda vinna allir við kjúklingarækt eða eitthvað henni tengt, og fólk með ímyndunarafl, líkt og Candy, er litið hornauga. Svo fer og að fyrir ritgerðina, sem er býsna ævintýraleg, er henni vísað til skólastjóra en í stað þess að fara þangað heldur hún út á sléttuna sem umkringir bæinn og áður en varir er hún komin í annan heim, Abarat, þar sem hún flækist í baráttu á milli nætur og dags.

Það má einfalda flækjuna og segja að bókin snúist um að nótt og dagur, hið illa og hið góða, berist á banaspjót og sigri hið illa sé allt glatað. Málið er aftur á móti ekki svo auðvelt. Að hætti Barkers hefur tákngervingur hins illa, Christopher Carrion, á sér fleiri hliðar en hreinræktaða vonsku, hann var eitt sinn ástfanginn og svikinn í tryggðum, að því honum finnst sjálfum, með þeim afleiðingum að hann hyggst hefna sín á heiminum. Þrátt fyrir ótrúlega kæruleysislega grimmd liggur við að lesandi hafi samúð neð aumingja karlinum á milli þess sem hann kímir að illvirkjum hans. Öllu ógeðfelldari er amma hans, sem saumar saman fólk og virðist illa geðbiluð. Hún á eflaust eftir að koma óþyrmilega við sögu síðar.

Annað illmenni, sem kemur við sögu í þessu fyrsta bindi, er tákngervingur framfara, virkjana, iðnþróunar, fjarskipta og tækni, semsagt alls þess sem leitast við að útrýma töfrum úr heiminum - sem leggur fjárgildi á allt og hagar málum samkvæmt því. Pixler er þó ekki alvondur, það sem hann gerir er vont en hann vill vel á sinn hátt. Svo er því farið með svo margt í þessum heimi, allar persónur hafa á sér margar hliðar, þ.e. allar persónur nema söguhetjan Candy Quackenbush. Hingað til að minnsta kosti, það eru þrjú bindi eftir.

Bókin keypt óskrifuð

Clive Barker, sem er tæplega sextugur, fæddur í Bretlandi en hefur búið í Bandaríkjunum í mörg ár, hefur átt mikilli velgengni að fagna síðan hann sló í gegn sem höfundur Hellraiser, en sú saga og síðar kvikmynd kom fótunum undir hann í Hollywood. Síðan hafa margar bækur komið frá honum, náð metsölu og verið kvikmyndaðar með góðum árangri. Þegar síðan spurðist hvernig sögu hann væri með í smíðum tóku útgefendur heldur en ekki við sér, sáu fyrir sér nýtt Harry Potter-æði.

Disney var hlutskarpast í slagnum sem í hönd fór og náði að festa sér bækur Barkers um Candy Quackenbush og ævintýri hennar í Abarat fyrir um átta hundruð milljónir króna, fjögur hundruð milljónir strax og fjögur hundruð til þegar fyrsta kvikmyndin yrði tilbúin, en á spýtunni hangir nefnilega kvikmyndarétturinn og fleira. Að sögn þeirra Disney-manna sjá þeir fyrir sér fjórar kvikmyndir hið minnsta, sjónvarpsþáttaröð, rússíbana og hryllingshús í skemmtigörðum, tölvuleiki, leikföng, fatnað og ýmislegt smádót svo fátt eitt sé talið. Að sögn keyptu menn bókina án þess að hafa lesið staf í henni, enda Barker þá ekki byrjaður að skrifa. Hann kveikti í mönnum með því að segja þeim söguna og sýna myndskreytingar, en hann málaði 250 olíumálverk með persónum sögunnar sem skreyta bókina.

Fyrsta bókin, sem heitir einfaldlega Abarat, kom svo út 1. október síðastliðinn, en ætlunin er að ný bók komi svo út á níu mánaða fresti.

Abarat eftir Clive Barker fæst í Máli og menningu og Pennanum-Eymundsson. Hún er 389 síður og 25 síðna viðauki innbundin.