ÍSLENDINGAR eru miklir áhugamenn um Spánarferðir. Ekki að ósekju. Loftslagið er hlýtt og notalegt þar um slóðir og fólk upp til hópa viðmótsþýtt. Það er aftur á móti ekki auðhlaupið að því fyrir venjulegan Íslending að ræða við Spánverja.

ÍSLENDINGAR eru miklir áhugamenn um Spánarferðir. Ekki að ósekju. Loftslagið er hlýtt og notalegt þar um slóðir og fólk upp til hópa viðmótsþýtt. Það er aftur á móti ekki auðhlaupið að því fyrir venjulegan Íslending að ræða við Spánverja. Enskukunnátta þeirra er almennt af skornum skammti. Flestir hverjir tala ekki stakt orð í hinu alþjóðlega tungumáli, sem svo er kallað. Þess í stað baða þeir út öllum öngum og fara mikinn á móðurmálinu, jafnvel þótt þeim sé ljóst að viðmælandinn viti ekki hvort hann er að koma eða fara. Af þessu hljótast oft skondin atvik.

Víkverji hitti á dögunum mann sem hefur búið á Spáni í vetur. Spænskukunnátta hans var ekki upp á marga fiska þegar út var komið og rakst hann fyrir vikið á ýmsa veggi. Þannig var eitt af hans fyrstu verkum ytra að láta tengja Netið fyrir sig - eins og góðum Íslendingi sæmir. Fékk hann uppgefið númer hjá fyrirtæki sem veitir þjónustu af því tagi hjá upplýsingalínunni - á spænsku. Hófst svo símtalið. Konan á hinum enda línunnar talaði vitaskuld ekki orð í ensku og skellti fljótlega á Íslendinginn. Okkar maður gaf sig þó hvergi og hringdi aftur, núna vopnaður orðabók. Komst hann örlítið lengra að þessu sinni en á endanum fór allt á sama veg. Skellt var á. Íslendingurinn fékk þá spænskan kunningja sinn til liðs við sig og bað hann að hringja í konuna. Verður hann fljótlega undarlegur á svipinn og afsakar sig eitthvað í símann. "Heyrðu," segir spænski kunninginn - sem vel að merkja talaði ensku - svo hálfvandræðalegur að símtali loknu. "Það er ekki undarlegt að þú skyldir fá svona dræmar undirtektir þarna. Þetta var matvöruverslun!"

VÍKVERJA er líka ógleymanleg sagan af manninum sem var að greina kunningja sínum frá því þegar hann var staddur á fínum veitingastað á Spáni. "Matseðillinn var allur á spænsku og það talaði auðvitað ekki nokkur maður ensku þarna," sagði maðurinn. "Mig langaði í nautasteik og sá ekki annan kost í stöðunni en að baula. Hátt og snjallt. Það virkaði ágætlega."

Kunninginn hlýddi á sposkur á svip og sagði síðan: "Það var eins gott að þig langaði ekki í bjúgu!"

VÍKVERJA finnst árið aldrei almennilega hafið fyrr en búið er að leika þriðju umferðina í enska bikarnum í knattspyrnu fyrsta laugardag ársins. Í þessari elstu knattspyrnukeppni í heimi leiða Davíð og Golíat gjarnan saman hesta sína og oft má sá síðarnefndi lúta í gras. Lítið var raunar um óvænt úrslit að þessu sinni, nema hvað þriðjudeildarlið Shrewsbury Town kom bragði á úrvalsdeildarlið Everton á sínum ágæta velli, Gay Meadow. Þá var kátt á engi. Ekki dró það heldur úr dramatíkinni að knattspyrnustjóri Shrewsbury er enginn annar en Kevin Ratcliffe, sem um árabil var fyrirliði Everton og vann með félaginu tvo meistaratitla, 1985 og 1987. Þessi gamli miðvörður var líka hálfskömmustulegur í viðtali að leik loknum og viðurkenndi að tilfinningin væri blendin. Hann hefði fremur kosið að leggja annað úrvalsdeildarlið. En svona er fótboltinn.