Donnie Darko **** Frábærlega smíðuð fantasía um líf, dauða og örlög hvers og eins, þar sem rýnt er í ráðandi hugarfar hins bandaríska borgaralega veruleika. Tónlist notuð markvisst til tíðarandasköpunar og leikarar frábærir.

Donnie Darko

**** Frábærlega smíðuð fantasía um líf, dauða og örlög hvers og eins, þar sem rýnt er í ráðandi hugarfar hins bandaríska borgaralega veruleika. Tónlist notuð markvisst til tíðarandasköpunar og leikarar frábærir.

Lotta flytur að heiman

**½ Þessi sænska gæðabarnamynd er vel gerð og dæmi um vönduð vinnubrögð í vinnslu á sjónvarpsefni fyrir börn. Hluti af stærri seríu um prakkararófuna Lottu úr bókum Astrid Lindgren.

Móri / Wendigo

**½ Lítil og lúmsk draugamynd með Blair Witch-blæ. Virkar vel en er engin snilld.

Aðdragandi stríðsins / Paths To War

*** Vönduð sjónvarpsmynd um aðdragandann að Víetnam-stríðinu og þá einkum þátt Lyndons B. Johnsons forseta í býsna sannfærandi túlkun Bretans Michaels Gambons.

Stormur í aðsigi / Gathering Storm

***½ Djörf og jarðbundin sjónvarpsmynd um stórmennið Churchill. Albert Finney óaðfinnanlegur í hlutverki hans.

James Dean

*** Fín sjónvarpsmynd um sárkvalda goðsögn, James Dean, sem túlkaður er af stakri snilld af hinum unga og efnilega James Franco. Næsti Dean? Nei, trúlega ekki nógu kvalinn.

Loforðið / The Hard Word

**½ Svolítið reffilegur ástralskur krimmi með hinum mjög svo dæmigerða ruddalega ástralska húmor. Guy Pierce góður.

Smoochy skal deyja / Death to Smoochy

**½ Lofandi hugmynd, fínt leikaralið en útkoman þó rétt yfir meðallagi góð mynd, skondin, á stundum beitt en hamagangurinn þó full mikill. Sökin er Robins Williams - ekki í fyrsta sinn.