ÍSRAELSK stjórnvöld meinuðu í gær sendinefnd palestínsku heimastjórnarinnar að sækja ráðstefnu í Lundúnum um friðarhorfur fyrir botni Miðjarðarhafs. Þau ákváðu ennfremur að loka þremur palestínskum háskólum.

ÍSRAELSK stjórnvöld meinuðu í gær sendinefnd palestínsku heimastjórnarinnar að sækja ráðstefnu í Lundúnum um friðarhorfur fyrir botni Miðjarðarhafs. Þau ákváðu ennfremur að loka þremur palestínskum háskólum. Þessar ráðstafanir Ísraelsstjórnar voru meðal viðbragða hennar við skæðu sjálfsmorðssprengjutilræði sem framið var í Tel Aviv í fyrradag. Voru þessi viðbrögð álitin mildileg með tilliti til þess að tilræði af stærðargráðu þess sem framið var á sunnudag - þar sem 22 fórust og yfir 100 særðust - hafa áður jafnan kallað á víðtækar hefndaraðgerðir af hálfu Ísraelshers.

En úrval ríkisstjórnar Ariels Sharons af hefndarkostum er orðið takmarkað - einkum með tilliti til þess að þingkosningar fara fram í Ísrael eftir þrjár vikur og Bandaríkjastjórn er mjög í mun að sem minnst sé um ofbeldi á svæðinu, nú er hún er að undirbúa hugsanlega hernaðaríhlutun í Írak.

Píslarvottasveit Al Aqsa, herskár klofningshópur frá skæruliðasveitum tengdum Fatah-hreyfingu Yassers Arafats, leiðtoga Palestínumanna, lýsti yfir ábyrgð á tilræðunum. Talsmenn Fatah og heimastjórnar Palestínumanna fordæmdu þau. Úr röðum ísraelskra stjórnarliða komu hins vegar strax fram nýjar ásakanir um að Arafat hvetti sjálfur til slíkra árása á óbreytta ísraelska borgara. Gera bæri Arafat útlægan frá heimastjórnarsvæðunum.

Talsmaður Píslarvottasveitar Al Aqsa upplýsti að hún nyti fjárstuðnings frá Íran og myndi halda árásum áfram.

Jerúsalem. AP.