Litlu mátti muna að illa færi þegar kviknaði í þvottavél skömmu eftir hádegi í gær. Hjónin Þorsteinn Jónasson og Ingibjörg Þórhallsdóttir standa í brunarústum þvottahússins á heimili sínu.
Litlu mátti muna að illa færi þegar kviknaði í þvottavél skömmu eftir hádegi í gær. Hjónin Þorsteinn Jónasson og Ingibjörg Þórhallsdóttir standa í brunarústum þvottahússins á heimili sínu.
LAUST fyrir klukkan eitt í gærdag kviknaði í íbúðarhúsi að Árskógum á Egilsstöðum. Húsið er einlyft timburhús og komu snör handtök húsráðenda og nágranna í veg fyrir stórbruna.

LAUST fyrir klukkan eitt í gærdag kviknaði í íbúðarhúsi að Árskógum á Egilsstöðum. Húsið er einlyft timburhús og komu snör handtök húsráðenda og nágranna í veg fyrir stórbruna.

Baldur Pálsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna á Héraði, sagði í samtali við Morgunblaðið að kviknað hefði í út frá þvottavél. "Það vildi þannig til að húsfreyjan, Ingibjörg Þórhallsdóttir, var heima og hafði sett í í þvottavélina. Allt í einu fór reykskynjarinn í gang hjá henni og hún botnaði hvorki upp né niður í hvar eldur gæti verið, þangað til hún kíkti fram í þvottahús og sá þá hvar eldur logaði á bak við þvottavélina og alveg upp undir loft."

Baldur segir að svo virðist sem kviknað hafi í út frá mótor þvottavélarinnar. Eldur hafi einnig verið farinn að loga í ýmsu dóti í kringum vélina og í hillum ofan við. Ingibjörg kallaði á nágranna sinn til hjálpar og kom hann á hlaupum með handslökkvitæki. Seinkaði það mjög útbreiðslu eldsins. Hún segist þó áður hafa verið búin að slá út rafmagninu, en ekki náð til slökkvitækis sem stóð í þvottahúsinu í miðju eldhafinu. Það hjálpaði einnig til að vatnsslanga brann í sundur og sprautaði vatni yfir gólfið.

Vel gekk að slökkva eldinn að fullu en skemmdir, einkum vegna reyks, eru verulegar. Reykur fór um allt húsið og tók drjúgan tíma að reykræsta það, einkum háaloft sem erfitt var að komast að.

Baldur segir að enn og aftur séu það reykskynjararnir sem vara við og bendir á mikilvægi þess að hafa þá sem flesta og í lagi.

Egilsstöðum. Morgunblaðið.