Hafa ber í huga, þegar hugað er að versnandi skuldastöðu einstaklinga innan Orca-hópsins við Íslandsbanka, að árið 2000, allt frá 28. mars, var afar erfitt ár á fjármálamörkuðum.

Hafa ber í huga, þegar hugað er að versnandi skuldastöðu einstaklinga innan Orca-hópsins við Íslandsbanka, að árið 2000, allt frá 28. mars, var afar erfitt ár á fjármálamörkuðum. Eftir þann dag byrjaði Nasdaq-markaðurinn að síga, Íslandsbanki-FBA tapaði umtalsverðum fjárhæðum á kaupunum á deCODE og skuldabréf og hlutabréf sigu í verði. Orca-hópurinn hafði keypt megnið af sínum bréfum í FBA á lánum, að stórum hluta í erlendri mynt, þannig að skuldir hans jukust stórlega við þessa óheillavænlegu þróun eða að minnsta kosti um einn milljarð króna og á sama tíma fór gengi bankans lækkandi frá degi til dags. Við sameiningu bankanna í apríl 2000 fengu þeir í Orca-hópnum eins og aðrir eigendur FBA kauprétt á hluta af bréfum FBA í deCODE, sem bankinn hafði keypt fyrir 3 milljarða á genginu 15 dollarar, eins og fram kom í fyrstu grein, þannig að Orca-hópurinn tapaði um 400 milljónum króna bara á þeim kaupum. Að vísu seldi FBA þegar í stað um tveggja milljarða virði af bréfum sínum í deCODE á góðu gengi. Árið 2001 var sömuleiðis mjög erfitt á fjármálamörkuðum og á mánuðunum apríl, maí, júní 2001 versnaði skuldastaða þeirra í Orca svo verulega, vegna erlendra skulda, að þá brustu í raun og veru forsendur fyrir svo skuldsettum kaupum, eins og kaup hópsins höfðu verið í FBA einu og hálfu ári áður.

Í lok marsmánaðar 2001 tilkynnir Seðlabanki Íslands að hann sé hættur að miða við vikmörk krónunnar og að hún verði nú látin fljóta. Krónan seig um 10% á árinu 2000 og á árinu 2001 um önnur 15%, þannig að hún féll um fjórðung á innan við tveimur árum.

Þetta fall krónunnar kom geysilega þungt niður á hinum skuldsetta Orca-hópi, með svo mikinn hluta skulda sinna í erlendum myntum.