[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sameining Íslandsbanka og FBA (Fjárfestingarbanka atvinnulífsins) snemma árs árið 2000 átti sér ekki langan aðdraganda. Fáir tóku þátt í samningaviðræðunum og þær gengu ótrúlega hratt og vel fyrir sig.

Sameining Íslandsbanka og FBA (Fjárfestingarbanka atvinnulífsins) snemma árs árið 2000 átti sér ekki langan aðdraganda. Fáir tóku þátt í samningaviðræðunum og þær gengu ótrúlega hratt og vel fyrir sig. Nokkru eftir sameiningu voru veður válynd í bankaráði Íslandsbanka og andaði oft köldu, enda eftir miklu að slægjast að hafa undirtökin í fjármálastofnun eins og Íslandsbanka, en Orca-hópurinn var ótrúlega nálægt því markmiði sínu sl. vetur að ná ráðandi hlut í bankanum. Hér verður rakið hvað gerðist á bak við tjöldin við sameiningu bankanna og í bankanum að lokinni sameiningu.

Þegar Orca-viðskiptin áttu sér stað og Orca keypti hlut Scandinavian Holding (dótturfélags sparisjóðanna og Kaupþings) í FBA í ágúst 1999, var hvorki um mikið né náið samstarf að ræða á milli Bjarna Ármannssonar, bankastjóra FBA, og Orca-hópsins til að byrja með, en það breyttist þó fljótlega.

Ástæða þess var, eins og kom fram hér í Morgunblaðinu í gær, sú, að Bjarni hafði leitað eftir því við aðra fjárfesta að þeir keyptu hlut Kaupþings í FBA og taldi sig hafa gert þeim Sigurði Einarssyni, forstjóra Kaupþings, og Hreiðari Má Sigurðssyni, aðstoðarforstjóra Kaupþings, munnlegt tilboð í bréfin fyrir hönd þeirra Sigurðar Gísla Pálmasonar, Gunnars Björgvinssonar og Kára Stefánssonar, eins og kom fram í fyrstu greininni, en Orca-hópurinn hrifsaði þessi viðskipti til sín að frumkvæði Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, beint fyrir framan nefið á Bjarna Ármannssyni og fjárfestunum sem hann var að semja fyrir.

Síðan seldi ríkið 51% hlut sinn í FBA síðar um haustið 1999 og eignarhluti Orca-hópsins fór úr 28% í 40% og á Þorláksmessu í 45%.

Þótt þeir í Orca S.A. væru komnir með ráðandi hlut í FBA um áramótin 1999-2000, þá höfðu þeir fullan hug á því að renna styrkari stoðum undir FBA sem var bara fjárfestingarbanki en ekki viðskiptabanki, sem þeir með sín umsvif töldu sig þurfa á að halda.

Ágætis samstarf tókst fljótlega með Bjarna og Eyjólfi Sveinssyni, sem kjörinn var varaformaður í bankaráði FBA, en Eyjólfur var jafnframt í forsvari fyrir Orca-hópinn.

Kalt milli Orca og lífeyrissjóðanna

Á aðalfundi FBA hinn 23. febrúar árið 2000 stóðu fulltrúar Lífeyrissjóðs verslunarmanna og Lífeyrissjóðsins Framsýnar í eigendahópi FBA ekki að tillögu um skipan stjórnar FBA þar sem þeir sögðu að ekki hefði náðst samkomulag við fulltrúa Orca-hópsins um hvernig stjórnin yrði skipuð. Fulltrúar lífeyrissjóðanna töldu sig fyrir fundinn hafa náð samningi við Orca um hver yrði oddamaður í stjórn, en Orca hefði svo svikið þann samning og krafist þriggja manna í stjórn og þar með meirihluta. Töldu þeir reyndar að Orca-hópurinn væri að ganga á bak orða sinna frá því í nóvember um að fjórmenningarnir í Orca-hópnum færu einungis með atkvæði eigin bréfa og kæmu þannig fram sem einstaklingar en ekki hópur.

Á aðalfundinum kvaddi Víglundur Þorsteinsson, formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna, sér hljóðs og óskaði eftir sundurliðun á launum stjórnar og framkvæmdastjórnar FBA. Var upplýst á fundinum að hver meðlimur í framkvæmdastjórn hafði að meðaltali fengið um 17 milljónir króna í laun og árangurstengdar greiðslur á árinu 1999, en þessar háu upphæðir áttu eftir að valda nokkru uppnámi og voru talsvert umdeildar í þjóðfélaginu.

Hittust fyrst tveir einir á fundum

Þeir Valur Valsson, forstjóri Íslandsbanka, og Bjarni Ármannsson, forstjóri FBA, áttu með sér nokkra fundi snemma árs 2000, þar sem þeir ræddu þá möguleika sem kæmu til greina, með hugsanlega sameiningu bankanna í huga. Niðurstaða þeirra funda varð sú, að báðum leist vel á að kanna til þrautar, hvort grundvöllur væri fyrir sameiningu og ákváðu þeir í sameiningu að slá frekari fundahöldum á frest og hefja ekki formlegar viðræður fyrr en að loknum aðalfundum beggja bankanna.

Að afstöðnum aðalfundum bankanna kölluðu þeir Valur og Bjarni formenn og varaformenn bankaráðanna, þá Kristján Ragnarsson, formann, og Einar Sveinsson, varaformann, frá Íslandsbanka og Magnús Gunnarsson, formann, og Eyjólf Sveinsson, varaformann, frá FBA til liðs við sig í sameiningarviðræðunum og fóru fyrstu fundir sexmenninganna fram á heimili Vals Valssonar. Eftir að áform bankanna um sameiningu höfðu verið gerð opinber, fóru frekari sameiningarviðræður fram á skrifstofu Magnúsar Gunnarssonar í Kringlunni.

Vildi draga úr áhrifum Orca

Eitt af því sem vakti fyrir Bjarna Ármannssyni hvað varðar sameiningarviðræður við Íslandsbanka, sem hann var ekki endilega að flíka við Orca-hópinn, var að draga úr afli Orca-hópsins og útvatna áhrif hans, þannig að eignarhlutur þeirra félaga yrði miklu minni í sameinuðum banka og þar af leiðandi yrðu áhrif hópsins að sama skapi minni.

Það var Íslandsbanka ekki síður keppikefli að fá FBA til sameiningar en það var FBA kappsmál að sameinast Íslandsbanka. Forsvarsmenn Íslandsbanka sáu auðvitað að FBA var helsti fjármögnunaraðili í íslenskum sjávarútvegi og iðnaði, þannig að það var hreint ekki eftir svo litlu að slægjast. Valur Valsson sá að sjálfsögðu mikil sóknarfæri í því fyrir Íslandsbanka að fá til sín sjóði atvinnuveganna.

Jafnframt var talið að mikil samlegðaráhrif yrðu af sameiningu bankanna og ýmsir hagræðingarkostir fyrir hendi.

Sameiningin gekk ótrúlega vel

Bjarni fékk Eyjólf Sveinsson til að starfa náið með sér að undirbúningi sameiningar bankanna með vitund og vilja þeirra Jóns Ásgeirs og Þorsteins Más og afskiptaleysi Jóns Ólafssonar.

Það var auðvitað meðvituð ráðstöfun af hálfu Bjarna að hafa Eyjólf Sveinsson svo mikið með í sameiningarviðræðunum því hann var á þessum tíma viðurkenndur forsvarsmaður Orca-hópsins, sem átti um 45% í FBA. Út frá því sjónarmiði að vinna sameiningarhugmyndinni stuðning Orca-hópsins var því vissulega hyggilegt að hafa Eyjólf náið með í ráðum og framan af var hans þátttaka í ferlinu því meira áberandi en þátttaka formannsins, Magnúsar Gunnarssonar. Enda hefði enginn meirihluti náðst fyrir sameiningu bankanna FBA-megin, ef Eyjólfur, Jón Ásgeir og Þorsteinn Már hefðu ekki verið henni hlynntir.

Jón Ólafsson mun ekki hafa verið ýkja spenntur fyrir þessari sameiningu, því hann var frá upphafi þeirrar skoðunar að Orca-hópurinn ætti að stefna að því að eignast ráðandi hlut í FBA og stefna svo að því að sameina bankann Kaupþingi, en það var upphaflegt markmið bæði Kaupþingsmanna og Orca-hópsins, sem rann svo út í sandinn, vegna þess að geysilegur munur var á þeim verðhugmyndum, sem menn gerðu sér um Kaupþing, eftir því hvort þeir voru Kaupþingsmegin eða FBA-megin, eins og skýrt var frá í fyrstu grein.

Jákvæð afstaða þeirra Jóns Ásgeirs og Þorsteins Más til hugmyndarinnar um sameiningu bankanna mun ekki síst hafa mótast af því, að þeir töldu sig þannig vera að standa betur vörð um geysimikla fjárfestingu sína og að fjárfestingin yrði verðmeiri eftir sameiningu bankanna. Það var Orca-hópnum einnig ákveðinn léttir, að FBA og Íslandsbanki skyldu renna saman í einn banka, því þannig voru þeir auðvitað orðnir stórir eigendur að viðskiptabanka, sem þeir gátu nýtt fyrir viðskipti eigin fyrirtækja einnig, þótt þeir færu ekki með ráðandi hlut í bankanum.

Vildu vera kjölfestufjárfestir

Töldu þeir að sameinaður banki gæti orðið mjög sterkur og að þeir gætu komið fram sem kjölfestufjárfestir í hinum nýja banka.

Eftir á að hyggja telja menn í Orca-hópnum að gerð hafi verið ákveðin mistök - reginmistök - sem hafi á ýmsan hátt staðið bankanum fyrir þrifum. Mistökin segja þeir hafa verið, að það skuli hafa verið ákveðið að hafa tvo aðalbankastjóra. Það sé einfaldlega meginregla í rekstri, að það sé einn karl í brúnni. Í huga Orca-hópsins var Bjarni Ármannsson framtíðarbankastjóri Íslandsbanka-FBA. Hann var þeirra maður og á hann hugðust þeir veðja. Innan Orca var það einnig rætt að kanna hvort Valur Valsson væri reiðubúinn til þess að semja um starfslok á einhverjum tilteknum tíma, en sú umræða fjaraði út.

Í Íslandsbanka sá Orca-hópurinn einnig ákveðið öryggi, banka með mjög sterka stöðu sem viðskiptabanki og afar traustvekjandi lánasamsetningu, þannig að hvor aðili um sig átti ekki í neinum erfiðleikum með að sjá kostina við samruna við hinn aðilann.

Það verður að teljast vel að verki staðið hjá þeim, sem stóðu fyrir sameiningarviðræðunum, að hafa getað leitt þær til jákvæðra lykta á jafnskömmum tíma og raun bar vitni.

Viðræður gengu hratt og vel og 30. mars árið 2000 var send tilkynning inn á Verðbréfaþing um að bankarnir hefðu náð saman um sameiningu.

Löng og ströng samningahelgi

Laugardagurinn 1. apríl og sunnudagurinn 2. apríl reyndust samningamönnum og forsvarsmönnum lífeyrissjóðanna langir og erfiðir samningadagar, því ítrekað komu samningsaðilar saman til þess að takast á um skiptahlutföllin. Á einhverju stigi töldu aðilar sig hafa náð samkomulagi um að skiptahlutföllin yrðu 50%-50%, en því var með öllu hafnað í Íslandsbanka. Krafa ákveðinna ráðamanna Íslandsbanka og fulltrúa lífeyrissjóðanna var upphaflega að eðlileg skipti væru 53% hlutur Íslandsbanka gegn 47% hlut FBA. Aðrir í Íslandsbanka voru ekki með jafneindregnar kröfur, en fljótlega í sameiningarviðræðunum varð ljóst, að Íslandsbanki myndi ekki sætta sig við að skiptahlutföllin yrðu jöfn. Þetta var á vissan hátt erfiður hjalli á leiðinni til samkomulags, því bæði félögin voru almenningshlutafélög á markaði og verðmat þeirra á markaði var afskaplega svipað, svo að það var ekki auðvelt að rökstyðja að mikill munur ætti að vera á eignarhlutföllum.

Fulltrúar lífeyrissjóðanna í eigendahópi beggja bankanna komu saman til fundar á sunnudeginum á heimili Guðmundar H. Garðarssonar, sem átti sæti í bankaráði Íslandsbanka fyrir hönd Lífeyrissjóðs verslunarmanna og þar var Þórarni V. Þórarinssyni, formanni Lífeyrissjóðsins Framsýnar, falið að hafa samband við Bjarna Ármannsson og tjá honum að það yrði ekki fallist á 50%-50% skiptahlutföll. Bjarni hafði svo samband við Þórarin á nýjan leik og bauð upp á 51% gegn 49%. Eftir nokkurt þóf og þref samþykktu fundarmenn þetta hlutfall. Þegar þetta var, hafði hin eiginlega samninganefnd, þ.e. bankastjórarnir, formenn og varaformenn bankaráðanna gengið frá öllum öðrum samningsatriðum og drög að samkomulagi á milli aðila höfðu þegar verið samþykkt í stjórnum bankanna. Ákvörðun hafði jafnframt verið tekin um að láta ágreininginn um skiptahlutföllin bíða lokalotu samninganna.

Á endanum varð niðurstaðan sú, að hlutföllin væru 51% gegn 49% Íslandsbanka í hag og var sú tilhögun samþykkt í bankaráðum beggja bankanna á sunnudagskvöldinu. Þá þótti orðið ljóst, að ef þessum hlutföllum væri hafnað, rynnu sameiningarviðræður einfaldlega út í sandinn. Fullyrt er, að ekkert hefði orðið af sameiningu bankanna, ef Íslandsbanki hefði ekki gefið eftir að þessu leyti, því fulltrúar FBA voru á þessu stigi reiðubúnir að slíta samningaviðræðunum fremur en gefa meira eftir. Þegar bankaráð Íslandsbanka kom síðan saman, þá lá þetta samkomulag fyrir og var svo samþykkt í ráðinu.

Að fenginni umsögn Fjármálaeftirlitsins heimilaði Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra samruna bankanna, í samræmi við lög um viðskiptabanka og sparisjóði. Orca-hópurinn var við samrunann virkur eigandi í Íslandsbanka-FBA, því samkvæmt 10. grein laga um viðskiptabanka og sparisjóði miðast virk eignaraðild við 10% eign, en Orca átti eins og áður segir 14,64%.

Orca-hópurinn telur sig hafa náð mjög góðum samningi við samruna bankanna og því hafi það ekki verið neitt tiltökumál fyrir hann að gefa eftir þessi tvö prósentustig og láta skiptahlutföllin vera 51% hjá Íslandsbanka og 49% hjá FBA.

Þriðjudaginn 4. apríl var svo undirritaður samningur milli bankanna um sameiningu og 15. maí var haldinn hluthafafundur og nýtt bankaráð kjörið.

Þeir sem voru kjörnir í bankaráð Íslandsbanka fyrir hönd Orca-hópsins voru Eyjólfur Sveinsson, sem var kjörinn varaformaður, Jón Ásgeir Jóhannesson og Finnbogi Jónsson (frændi Þorsteins Más Baldvinssonar og stjórnarformaður Samherja).

Vildu að ferlið gengi snurðulaust

Í samningaviðræðunum fyrir sameiningu bankanna var það afráðið að formaður og varaformaður bankaráðs ásamt bankastjórunum tveimur, þeim Val Valssyni og Bjarna Ármannssyni, tækju allar ákvarðanir sem máli skiptu sameiginlega í fjögurra manna hópi, a.m.k. á milli bankaráðsfunda, og að bæði formaður bankaráðsins og varaformaður væru viðræðuaðilinn gagnvart framkvæmdastjórn Íslandsbanka, ekki einvörðungu formaður ráðsins eins og ávallt hafði tíðkast. Þessi ákvörðun var tekin til þess að tryggja að sameiningin gengi snurðulaust og að ekki væri hætta á að fulltrúar stærsta eiganda FBA, þ.e. Orca-hópurinn, fylltust tortryggni í garð nýrra samstarfsaðila og meðeigenda að nýjum og sameinuðum banka.

Við sameininguna við Íslandsbanka eignaðist Orca-hópurinn tæplega 15% hlut í hinum sameinaða banka, í gegnum 100% dótturfélag sitt FBA Holding og um 5% að auki í gegnum eignarhald í félögum tengdum Orca, sem áttu í bankanum, og frá aðalfundinum í mars og fram til hluthafafundarins 15. maí hélt Orca-hópurinn áfram að kaupa bréf í hinum sameinaða banka, þannig að þegar fundurinn var haldinn, réð hann yfir 25% til 26% hlutafjár í bankanum.

Bankarnir eru sameinaðir vorið 2000 og hinn sameinaði banki, Íslandsbanki-FBA, byrjaði að starfa 2. júní árið 2000.

Það var ákveðin óánægja hjá einhverjum eigendum með skiptahlutföllin Íslandsbankamegin, aðallega munu slíkar raddir hafa heyrst frá fulltrúum lífeyrissjóðanna, en þeir fóru þó ekki hátt með þá óánægju sína. Samkvæmt skiptasamningnum fékk FBA 0,76905 hluti í nýja félaginu fyrir hvern sinn hlut í FBA og hluthafar í Íslandsbanka fengu 1,32416 hluti í nýja félaginu fyrir hvern sinn hlut í Íslandsbanka. Markaðsverðmæti bankanna í apríl 2000 var talið 67 milljarðar króna og heildarhlutafé hins sameinaða banka var 10 milljarðar króna. Hlutafé bankans í dag er 9,5 milljarðar króna, því það hefur verið fært niður um 500 milljónir króna og nú í byrjun árs 2003 verður það fært niður um aðrar 400 milljónir króna og verður því 9,1 milljarður króna. Markaðsvirði bankans er í dag ekki nema um 48,2 milljarðar króna, þannig að verðgildi hans hefur á tveimur og hálfu ári rýrnað um tæpa 19 milljarða króna, eða um 28%. Í þessu sambandi er rétt að geta þess, að í aprílmánuði árið 2000, þegar ákvörðun var tekin um að sameina bankana, náði hlutabréfavísitalan hámarki.

Orca-hópurinn aldrei leystur upp

Stærsti einstaki hluthafinn í Íslandsbanka-FBA var FBA Holding, 100% eignarhaldsfélag Orca S.A., með 14,64% hlut í hinum sameinaða banka. Við sameininguna hafði verið gert ráð fyrir að eignarhlutnum sem var í eigu Orca-hópsins yrði skipt á milli þeirra fjögurra hópa fjárfesta sem upphaflega mynduðu Orca-hópinn og hver um sig ætti þannig 3-4% og stærstu hluthafar hins sameinaða banka yrðu tveir lífeyrissjóðir, Lífeyrissjóður verslunarmanna og Lífeyrissjóðurinn Framsýn, hvor með um 7% eignarhlut.

Formlega var Orca-hópurinn þó aldrei leystur upp, vegna þess að skilmálar Scandinavian Holding, dótturfyrirtækis Kaupþings, sparisjóðanna og sparisjóðabankans fyrir tæplega 3,25 milljarða króna lánveitingu til Orca, þegar félagið keypti stóran hlut í FBA af Kaupþingi og sparisjóðunum í ágúst 1999, heimiluðu ekki að félagið yrði leyst upp, eins og greint var frá í fyrstu grein.

Fljótlega eftir sameiningu kom á daginn að Orca-hópurinn hélt áfram að kaupa bréf í Íslandsbanka og töldu margir að hópurinn stefndi að auknum áhrifum í hinum sameinaða banka, með það að markmiði að ná yfirráðum í bankanum.

Var ákveðnum forsvarsmönnum bankans og hluthöfum bent á þetta og þeir varaðir við, en hvorki var aðhafst né þessar viðvaranir teknar alvarlega, enda fá eða engin ráð tiltæk, til þess að koma í veg fyrir að menn keyptu hlutabréf í Íslandsbanka á markaði. Aðrir voru rólegir í tíðinni, einfaldlega vegna þess að þeir höfðu fyrir því ákveðna sannfæringu, að Orca-hópnum tækist ekki að eignast ráðandi hlut í bankanum.

Á mánuðunum frá sameiningunni við Íslandsbanka og fram til áramóta 2000-2001 og raunar fram eftir ári 2001 vinnur Bjarni náið með Orca-hópnum, með það fyrir augum að Orca-hópurinn í Íslandsbanka myndi bakland hans í bankanum og hann sé framtíðarbankastjóri bankans. Hann reyndi eftir megni að aðstoða einstaklinga innan Orca-hópsins á þessu tímabili, vera þeim innan handar og semja við þá fyrir hönd bankans, þegar á þurfti að halda, en þó með þeim hætti að þeir fengju enga þá fyrirgreiðslu sem talist gæti óeðlileg.

Starfshættir Íslandsbanka eru m.a. þeir, að bankaráð fær jafnan yfirlit yfir 30 stærstu skuldara bankans og þá 10 sem eru í mestum vanskilum. Félög, sem einstaklingar innan Orca-hópsins áttu í eða tengdust, voru yfirleitt á þessum listum þegar kom fram á vorið 2001 og mikið af starfsorku Bjarna Ármannssonar fór í það, ekki svo löngu eftir að hann tók við sem annar forstjóri Íslandsbanka, að semja við einstaklinga innan Orca og félög, sem tengdust þeim, um framlengingu á lánum, auknar tryggingar, endurfjármögnun og þess háttar, til þess að koma vanskilum í skil og var þetta gert með vitund og vilja annarra í Íslandsbanka.

Bjarna, sem fyrrverandi forstjóra FBA og samstarfsmanni Orca-hópsins, var auðvitað umhugað um að Orca-hópurinn stæði sig í hinum nýja banka og hann hafði áhyggjur af því, hversu daglegt brauð það var, að þessir menn stæðu ekki í skilum. Sumarið 2001 og fram eftir hausti eru þessi vandamál að koma stöðugt meira upp á yfirborðið, þannig að í hreint óefni stefnir. Hér var um að ræða ýmis félög tengd þeim feðgum Sveini R. Eyjólfssyni og Eyjólfi Sveinssyni, en einnig voru félög eins og Baugur, Gaumur (eignarhaldsfélag Bónusfjölskyldunnar) og Fjárfar (fjárfestingarfélag í eigu Bónusfeðga og fleiri) ítrekað í vanskilum, en þau voru allt annars eðlis, því vanskilin hjá þessum félögum vörðu yfirleitt í mjög skamma hríð, áður en lánum var á nýjan leik komið í skil. Slík skammtímavanskil munu alvanaleg í viðskiptalífinu.

Mest voru samt sem áður vandræðin með vanskil FBA-Holding (dótturfélags Orca S.A.) í Íslandsbanka vegna fjármögnunar á hluta af bréfunum sem upphaflega voru keypt af Kaupþingi í FBA haustið 1999, en þegar kom fram í september 2001, þá var ljóst að eins milljarðs króna lán FBA-Holding í Íslandsbanka var í vanskilum. Þegar sú staða var komin upp, var ljóst að áhættunefnd bankans og æðstu stjórnendur gátu ekki lengur látið eins og ekkert hefði í skorist.

Ekkert samráð við Kára Stefánsson

Um vorið 2001 hafði Hannes Smárason, aðstoðarforstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, keypt tæplega 5% hlut í Íslandsbanka, með það beinlínis að markmiði að starfa með Orca-hópnum og ná undirtökum í bankanum í samvinnu við þá. Hannes hafði áður kynnst Jóni Ásgeiri og starfað talsvert með honum, m.a. við uppbyggingu Smáralindar. Þessi kaup Hannesar fóru ekki hátt til að byrja með, því hlutur hans, 4,554%, var skráður á Kaupthing Luxembourg S.A.

Hannes gerði að vísu þau reginmistök að kaupa þessi bréf í Íslandsbanka án þess að hafa um það sérstakt samráð við Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, jafnframt því sem hann samdi við Bjarna Ármannsson, annan forstjóra Íslandsbanka, um fjármögnun á þessum kaupum með þeim hætti, að Hannes fékk lán í bankanum gegn veði í eignum erlendra eignarhaldsfélaga í eigu hans og Kára Stefánssonar og fleiri aðila. Þessir fjármögnunarsamningar þeirra Hannesar og Bjarna voru einnig gerðir án vitundar eða samþykkis Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar.

Þessi gjörningur þeirra Bjarna og Hannesar hafði viss eftirmál, sem þó fóru aldrei hátt og þrátt fyrir mikið uppnám og óánægju með það hvernig að málum hafði verið staðið, voru mál leyst í kyrrþey.

Þeir Hannes Smárason, Jón Ásgeir Jóhannesson og Bjarni Ármannsson tóku upp allnáið samstarf sín á milli, eftir að Hannes hafði keypt sig inn í Íslandsbanka fyrir hálfu öðru ári. Hannes Smárason gerði sér á þessum tíma ekki grein fyrir því, hvað það gat verið pólitískt eldfimt fyrir Kára Stefánsson og Íslenska erfðagreiningu, að hann efndi til samstarfs við Orca-hópinn innan Íslandsbanka, jafnvel með það að markmiði að ná undirtökunum í bankanum.

Hannes var fremur að hugsa um hversu mikilvægt það væri að vera í góðu samstarfi við Bjarna Ármannsson, sem hafði unnið mikið að málefnum tengdum Íslenskri erfðagreiningu allar götur frá árinu 1997, fyrst fyrir hönd FBA og síðar fyrir hönd Íslandsbanka.

Andrúmið í Orca-hópnum að kólna

Jón Ólafsson kom ekki mikið við sögu Orca-hópsins á þessum tíma enda mikið erlendis. Það voru aldrei neinir kærleikar með honum og Eyjólfi Sveinssyni og lítið sem ekkert samstarf. Raunar mun Jón Ólafsson ítrekað hafa gagnrýnt það hvernig Eyjólfur Sveinsson hélt á málefnum Orca fyrir hönd hópsins og að minnsta kosti í tvígang var Jón kominn á fremsta hlunn með að segja skilið við Orca, einkum vegna óánægju sinnar með störf Eyjólfs.

Nú var hins vegar farið að gegna sama máli með Jón Ásgeir, hvað varðar afstöðuna til Jóns Ólafssonar, að því er virðist, einkum vegna þess að mennirnir virðast ekki hafa átt skap saman, báðir sagðir skapstórir, stjórnsamir, jafnvel yfirgangssamir og ekki þekktir fyrir að gefa eftir eða láta í minni pokann. Þorsteinn Már var ekki þátttakandi í prímadonnuleik þeirra Jónanna þótt hann sé sagður jafnskapstór og þeir, enda löngum staddur norður á Akureyri að stjórna einu stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins, Samherja.

Á aðalfundi Íslandsbanka-FBA árið 2001 gerðist fátt markvert annað en það, að Jón Ólafsson kom inn í bankaráðið, en Finnbogi Jónsson fór úr ráðinu og kunni meirihlutinn í bankaráðinu Orca-hópnum litlar þakkir fyrir þessa breytingu. Jón Ólafsson mun hins vegar hafa sótt það fast að fá sæti í bankaráðinu og gat knúið fram þá niðurstöðu í skjóli eignarhlutar síns með stuðningi Þorsteins Más Baldvinssonar.

Þeir Eyjólfur Sveinsson og Jón Ásgeir Jóhannesson gerðu sér fulla grein fyrir því þegar þarna var komið sögu, að það myndi valda miklu fjaðrafoki að Jón Ólafsson tæki sæti í bankaráði Íslandsbanka og lögðust því gegn því. Kváðust meira að segja vera reiðubúnir að láta reyna á það í kosningu á aðalfundinum, hvort hann næði kjöri. En Þorsteinn Már Baldvinsson tók af skarið og ákvað að styðja Jón Ólafsson og því var ekki kosið á milli manna á fundinum.

Reyndu að fá Jón Ólafsson til að selja

Fljótlega eftir það, eða strax um vorið 2001, eru þeir Bjarni Ármannsson, Hannes Smárason, Jón Ásgeir Jóhannesson og Þorsteinn Már Baldvinsson búnir að skynja svo harða pólitíska og viðskiptapólitíska andúð á veru Jóns Ólafssonar í bankaráði Íslandsbanka og eignarhlut hans í bankanum, að þeir telja það orðið deginum ljósara, að Orca-hópurinn verði að losna við Jón Ólafsson úr sínum röðum, því ella muni ekkert geta orðið af fyrirhugaðri yfirtöku þeirra á Íslandsbanka. Hófust því árangurslitlar tilraunir í þá veru að fá Jón Ólafsson til þess að selja sinn hlut í bankanum.

Vanskil félaga sem tengjast Orca

Um vorið 2001 eru þau áform Orca-hópsins að auka eignarhlut sinn í Íslandsbanka með það að markmiði að eignast ráðandi hlut í bankanum orðin mjög áberandi og gagnsæ, að margra mati. Þá fara viðvörunarljós að kvikna víða um kerfið, en á sama tíma eru vanskil einstaklinga innan Orca-hópsins, félaga og fyrirtækja sem þeim tengjast, að koma æ meir upp á yfirborðið og héldu áfram að gera fram eftir sumri 2001.

Orca-hópurinn gætti þess jafnan að halda 3,25 milljarða láninu frá Scandinavian Holding, dótturfélagi Kaupþings, frá haustinu 1999 í skilum, því skilmálar þeirrar lánveitingar voru með þeim hætti, að ef um vanskil væri að ræða, gat Scandinavian Holding tekið bréfin í Íslandsbanka til sín. Hins vegar voru önnur lán Orca vegna kaupanna á bréfum Kaupþings í FBA, sem tekin höfðu verið í Kaupþingi og í nokkrum sparisjóðum, í umtalsverðum vanskilum. Stór hluti þeirra lána hafði, þegar þetta var, verið fluttur yfir í Íslandsbanka, eða samtals um einn milljarður króna.

Í samningnum á milli Orca og Scandinavian Holding um 3,25 milljarða króna lánið, við upphaflega fjármögnun kaupanna í FBA, var ákvæði um að verðmæti hlutabréfanna í FBA (sem við sameiningu bankanna urðu hlutabréf í Íslandsbanka-FBA) yrði að vera svo og svo miklu meira en verðmæti lánsins. Ef verðmæti bréfanna færi niður fyrir verðmæti lánsins, þá gat Kaupþing tekið bréfin af Orca. Á þeim tíma sem liðinn var frá sameiningu bankanna, frá vorinu 2000 fram á haust 2001, hafði krónan hrapað, lánið hækkað og verðmæti bréfanna í bankanum lækkað. Þannig að þótt stóra lánið væri ekki í vanskilum, þá voru ónógar tryggingar fyrir hendi og staða Orca því í raun og veru komin í uppnám. Þar að auki var FBA-Holding-lánið í Íslandsbanka, upp á liðlega einn milljarð króna, í vanskilum. Af þessum sökum gerðist það í september 2001 að Íslandsbanki varð að setja bankaráðsmönnum í Orca-hópnum stólinn fyrir dyrnar, krefjast þess að þeir bættu veð sín, kæmu með frekari tryggingar, kæmu vanskilum í skil og efldu eiginfjárstöðu. Ótækt þótti að bankaráðsmenn væru í hópi stærstu vanskilamanna bankans.

Reyndu þeir í Orca að semja við Íslandsbanka um endurfjármögnun FBA-Holding-lánsins og að einhverju leyti Scandinavian-Holding-lánsins og að þeir fengju það flutt í Íslandsbanka, að minnsta kosti að einhverju leyti, en ekki var talinn vera grundvöllur fyrir slíkum samningum í Íslandsbanka og þessari málaleitan Orca-hópsins var synjað. Þeir Jón Ásgeir Jóhannesson, Jón Ólafsson og Þorsteinn Már Baldvinsson gátu allir uppfyllt þau skilyrði sem þeim voru sett og bætt tryggingar sínar, en Eyjólfur Sveinsson gat það ekki.

Raunar hafði hið sama gerst árinu á undan hvað varðaði stöðu Orca gagnvart Scandinavian Holding, því haustið 2000 átti Hreiðar Már Sigurðsson, aðstoðarforstjóri Kaupþings og framkvæmdastjóri Scandinavian Holding, langan og erfiðan fund með Eyjólfi Sveinssyni, þar sem farið var yfir stöðuna hvað varðaði samskipti Orca við Kaupþing í Lúxemborg, sem Eyjólfur var ábyrgur fyrir. Hreiðar Már lagði á þessum fundi hart að Eyjólfi að semja við Kaupþing í Lúxemborg um endurfjármögnun á hluta af Scandinavian Holding-láninu og að koma samskiptum Orca við lánardrottna í lag, án nokkurs sýnilegs árangurs.

Staða mála fór síst batnandi á því ári sem leið frá því að sá fundur átti sér stað, þar til bankaráð Íslandsbanka og raunar Fjármálaeftirlitið í kjölfarið létu til skarar skríða ári síðar, undir formerkjunum: Hingað og ekki lengra!

Það var um haustið 2001 sem ljóst varð að Eyjólfur hafði ekki getað staðið við neinar skuldbindingar sínar og var kominn í geysileg vanskil. Hann hafði í félagi við aðra fengið fyrirgreiðslu í Íslandsbanka til þess að fjárfesta í ýmsum félögum. Til dæmis tapaði hann miklum fjármunum á því sem hann og fjárfestar í félagi við hann fjárfestu í deCode og niðurstaðan var oftast sú, að þar sem hann hafði fjárfest í félagi við aðra, þá var hann sá sem ekki gat staðið við sínar skuldbindingar. Félög tengd öðrum einstaklingum í Orca-hópnum voru einnig komin með ákveðin vanskil þegar þetta var, eins og áður segir.

Ástandinu, sem skapaðist í bankaráðinu eftir að þessi vanskil og skortur á tryggingum voru orðin ljós, er lýst sem afar vandræðalegu, ekki síst fyrir fulltrúa Orca-hópsins í bankaráði, sem ýmist hver á fætur öðrum eða allir saman þurftu að víkja af fundum, þegar verið var að fjalla um vanskil þeirra eða félaga sem voru þeim tengd.

Þegar Eyjólfur Sveinsson byrjaði að lenda í vandræðum og vanskilum með mál þeirra feðga innan bankans, þá var það notað gegn öllum Orca-hópnum í bankaráðinu og Íslandsbanka, ekki bara Eyjólfi, fullyrða þeir í Orca-hópnum, en hinu gagnstæða er haldið fram af öðrum í bankaráði Íslandsbanka og í bankanum sjálfum - á þeim vettvangi er fullyrt að eðlilegir viðskiptahættir hafi ávallt verið hafðir að leiðarljósi í bankaráðinu og bankanum.

Orca-menn hika ekki við að segja, að andrúmsloftið innan bankaráðsins og innan Íslandsbanka hafi verið með þeim hætti í þeirra garð, að það hafi beinlínis bitnað á fyrirtækjum þeirra. Segja að óskum um lánveitingar, fyrirgreiðslu og þjónustu hafi ýmist ekki verið svarað eða svörin dregin svo á langinn, að það hafi komið sér illa fyrir fyrirtæki þeirra og félög og jafnvel skaðað þau.

Þessu vísa þeir í Íslandsbanka og meirihluta bankaráðs Íslandsbanka algjörlega á bug. Benda þeir á að Eyjólfur Sveinsson hafi fengið fyrirgreiðslu í bankanum langt umfram það sem eðlilegt hafi getað talist og allt of lengi, telja þeir, eftir á að hyggja. Auk þess hafi Eyjólfur verið sameigandi þeirra í Orca-hópnum og því hafi í ákveðnum tilvikum verið óhjákvæmilegt að ákveðnar reglur og ákvarðanir næðu til allra í Orca, ekki bara til Eyjólfs, samanber afgreiðslu bankaráðsins á vanskilum FBA-Holding, dótturfélags Orca.

"Vatnaskilafundur" í bankaráði

Hinn 20. september 2001 var haldinn fundur í bankaráði Íslandsbanka, sem gjarnan hefur verið nefndur "vatnaskilafundurinn", vegna þess að á þeim fundi var vanskilamönnum í hópi bankaráðsmanna settur stóllinn fyrir dyrnar. Bjarni Ármannsson, annar forstjóri Íslandsbanka, sagði í raun skilið við Orca-hópinn á þessum fundi og gekk til liðs við meirihlutann í bankaráði, þótt þeir í Orca gerðu sér ekki fulla grein fyrir því fyrr en í lok janúar 2002, eins og skýrt verður frekar í næstu grein.

Vanskil bankaráðsmanna voru farin að valda verulegum titringi innan Íslandsbanka þegar þetta var og meirihluti bankaráðsins taldi óhjákvæmilegt að stöðva vanskilamennina. Það er ekkert í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði sem segir að bankaráðsmenn megi ekki vera vanskilamenn, en meirihluti bankaráðs Íslandsbanka taldi einfaldlega að trúverðugleiki bankans gæti verið í húfi, ef það spyrðist að bankaráðsmenn Íslandsbanka gætu ekki staðið í skilum við bankann og væru þar að auki með stór lán í vanskilum annars staðar.

Fulltrúum Orca í bankaráði var gerð grein fyrir því á þessum fundi, að það væri ótækt að bankaráðsmenn í Íslandsbanka væru í hópi stærstu vanskilamanna og að þeir yrðu að bæta þær tryggingar sem þeir hefðu sett fyrir lántökum sínum.

Í kjölfar þessa fundar, þegar Fjármálaeftirlitinu bárust fundargerðir af bankaráðsfundum Íslandsbanka haustið 2001, þar sem vanskil einstakra bankaráðsmanna og félaga sem þeim tengdust voru tíunduð, fylgdi Fjármálaeftirlitið því eftir, með því að senda bankaráði Íslandsbanka beiðni um að bankinn gerði Fjármálaeftirlitinu ársfjórðungslega grein fyrir vanskilum bankaráðsmanna persónulega eða vanskilum fyrirtækja og félaga á þeirra vegum við bankann. Þegar Fjármálaeftirlitið greip til ofangreindra eftirlitsaðgerða, hafði bankaráð Íslandsbanka þegar brugðist við með því að krefja einstaklinga í bankaráðinu um auknar ábyrgðir og tryggingar og að þeir kæmu vanskilum í skil.

10. grein laga um viðskiptabanka og sparisjóði tók umtalsverðum breytingum árið 2001, þar sem eftirlitsskylda Fjármálaeftirlitsins var hert til muna og sömuleiðis upplýsingaskylda þeirra sem ætluðu að eignast virkan hlut í viðskiptabanka eða sparisjóði, auk þess sem nú þarf sá eða þeir sem ætla að eignast virkan hlut í viðskiptabanka eða sparisjóði að fá fyrirfram samþykki Fjármálaeftirlitsins fyrir því að hann eða þeir megi eignast hlutinn, en samkvæmt ákvæðinu eins og það var í lögunum frá 1996, þá nægði að senda Fjármálaeftirlitinu (þá Bankaeftirlitinu) tilkynningu um áform um að gerast virkur eigandi að viðskiptabanka eða sparisjóði.

Í framhaldi af þeim upplýsingum sem Fjármálaeftirlitinu bárust um vanskil og stöðu trygginga á móti fjárfestingum ákveðinna bankaráðsmanna í Íslandsbanka og fyrirtækja sem þeim tengdust, í tengslum við þær upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið bjó yfir um vanskil FBA Holding, dótturfélags Orca, í Íslandsbanka, hófst sérstök athugun á því innan Fjármálaeftirlitsins hvort þessir einstaklingar teldust hafa fjárhagslega burði til þess að sitja í bankaráði og teldust til þess hæfir. Sú athugun Fjármálaeftirlitsins byggðist á því að Orca-hópurinn var virkur eigandi að Íslandsbanka, með yfir 10% eignarhlut, samanber 10. grein laga um viðskiptabanka og sparisjóði.

Kuldalegt andrúm ríkti á milli fulltrúa Orca-hópsins og annarra bankaráðsmanna í Íslandsbanka eftir vatnaskilafundinn í september 2001 og töldu þeir Þorsteinn Már, Jón Ásgeir og Eyjólfur að þeir væru einangraðir sem bankaráðsmenn og ekkert samráð væri haft við þá um ákvarðanir sem skiptu máli fyrir bankann. Voru þeir mjög ósáttir við það, í ljósi stærðar eignar sinnar.

Á bankaráðsfundi hinn 1. desember 2001 lagði Jón Ásgeir til dæmis fram spurningar um hver ávöxtun Íslandsbanka hefði orðið af fjárfestingum í Íslandssíma, Talentu-hátækni, Basisbank og First Privat. Hann fékk svör frá Íslandsbanka, þar sem fram kom að heildartap Íslandsbanka vegna þátttöku í útboði Íslandssíma til 31. október 2001 hefði numið 184 milljónum króna. Eignarhluti að nafnvirði næmi 39 milljónum króna og gengistap til 31. október 2001 næmi 237 milljónum króna. Svörin um Talentu-hátækni voru á þá leið að Íslandsbanki hefði frá ársbyrjun 2000 til októberloka 2001 tapað 457 milljónum króna af eignarhlut sínum. Hvað varðar Basisbank var svarið að bókfærður 20% eignarhluti í Basisbank hefði numið 302 milljónum króna 31. október 2001 og á árinu 2000 hefði eignarhlutinn verið niðurfærður um 395 milljónir króna. Loks svaraði Íslandsbanki því til að á árinu 2001 hefði bankinn afskrifað 175 milljónir króna í eign sinni í First Privat.

Við svo búið lagði Jón Ásgeir fram minnisblað í bankaráði Íslandsbanka, hinn 7. desember, þar sem segir m.a.: "Niðurstaða: Þrátt fyrir að rekstur Íslandsbanka hafi gengið vel á seinasta ári er ekki hægt að horfa fram hjá því að miklir fjármunir töpuðust í ofangreindum málum. Líklegt er að draga megi þá ályktun að eignarhluti okkar í Basisbank sé lítils virði. Sé það tekið með í reikninginn þá hefur bankinn tapað 1.291 milljón á ofangreindum málum á seinasta ári. Ef gengið er út frá því að bankinn sé metinn á v/h 12 (v/h er sama og markaðsvirði deilt með hagnaði ársins - innskot blm.) þá má leiða líkur að því að markaðsvirði hans væri 10 milljörðum hærra en það er í dag. Þá er líklegt að við eigum eftir að endurmeta hlut Íslandsbanka í Ölgerðinni hf. Líklegt er að um ofmat sé að ræða í bókum félagsins. Það gæti verið að lágmarki 150 milljónir.

Ég legg til að bankaráð samþykki eftirfarandi: Öll hlutafjárútboð sem Íslandsbanki sölutryggir skulu borin upp til samþykktar á bankaráðsfundi.

Fjárfestingar í óskráðum bréfum umfram 200 milljónir króna skulu bornar upp til samþykktar á bankaráðsfundi.

Erlendar fjárfestingar verða undantekningarlaust samþykktar af bankaráði." Bókun Jóns Ásgeirs fékk enga formlega afgreiðslu í bankaráðinu og heldur fálegar viðtökur.

Eyjólfur Sveinsson knúinn til að selja

Þegar kemur fram á haustið 2001, er orðið deginum ljósara að Eyjólfi muni ekki takast að koma neinu skikki á sín mál og að hann og fjárfestar á hans vegum verði að hverfa úr Íslandsbanka.

Um þetta voru þeir í Íslandsbanka og þeir Jón Ásgeir Jóhannesson og Þorsteinn Már Baldvinsson sammála. Tveir fundir voru haldnir um málið með þessum aðilum síðla árs 2001, til þess að ganga frá því hvernig að því yrði staðið að kaupa Eyjólf og félaga út. Þeir Jón Ásgeir og Þorsteinn Már þurftu á samráði og samvinnu við Íslandsbanka að halda í þessum efnum, því raunar voru vanskil Eyjólfs Sveinssonar og þeirra fjárfesta sem höfðu komið að kaupunum með honum í upphafi með slíkum hætti, að Íslandsbanka var í raun stætt á því að leysa til sín bréf FBA Holding, en ákvörðun var tekin í bankanum um að fara samningaleiðina við þá Jón Ásgeir og Þorstein Má.

Þetta kostaði mikil og hörð átök við Eyjólf, sem lyktaði á þann veg að Eyjólfur Sveinsson var neyddur til þess að selja sinn hlut og félaga sinna í Íslandsbanka hinn 31. desember 2001, þeim Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Þorsteini Má Baldvinssyni. Hinn 4. janúar 2002 sagði Eyjólfur sig úr bankaráðinu, því einungis á þann hátt komst hann hjá því að sérstök skýrsla um fjármál hans og félaga sem honum tengdust væri útbúin í Íslandsbanka og send Fjármálaeftirlitinu.

Þeir Jón Ásgeir og Þorsteinn Már keyptu 4,12% hlut Eyjólfs Sveinssonar og félaga í Íslandsbanka á genginu 4,3. Nafnverð hlutar Eyjólfs var 412 milljónir króna, sem jafngildir því að hann hafi fengið 1.770 milljónir króna fyrir sinn hlut.

Þar með var formlega byrjað að kvarnast úr Orca-hópnum, þótt samvinnu hópsins sem slíks hafi að meira eða minna leyti verið lokið löngu fyrr og hún aldrei verið markviss né náin nema milli þeirra Jóns Ásgeirs og Þorsteins Más, en þeirra samstarf hélt og gekk vel fram til 20. ágúst sl. þegar þeir seldu allt sitt í Íslandsbanka og Straumi.

Talaði Jón Ólafsson upp verðið?

Raunar var Jón Ólafsson fyrir áramótin 2001-2002 farinn að hugleiða að selja sinn hlut í Íslandsbanka, annaðhvort allan hlutinn eða verulegan. Hann vissi sem var, að hann var enginn aufúsugestur í Íslandsbanka, sem eigandi og bankaráðsmaður. Hann beið hins vegar eftir því að verðið hækkaði.

Svo gerðist það í ársbyrjun 2002, nánar tiltekið hinn 4. janúar, að upplýst var um tilboð sem Gunnari Jónssyni, lögmanni Jóns Ólafssonar, hefði borist frá indverskum kaupsýslumanni, Raj Basu, sem hefði viljað kaupa hlut Orca í Íslandsbanka. Tilboðið var sagt hafa borist 30. desember 2001 í tölvupósti fyrir milligöngu bandaríska lögfræðifyrirtækisins Seyfarth Shaw í Atlanta og það á að hafa verið lögmaður fyrirtækisins, Jack B. Albanese, sem bauð fyrir hönd fjárfesta í 18% hlut Orca gengið 4,8, eða 1,832 milljarða að nafnverði, sem að markaðsvirði var um 8,8 milljarðar króna.

Flestir voru og eru enn þeirrar skoðunar að Jón Ólafsson hafi fengið þennan indverska kunningja sinn, Raj Basu, í lið með sér til þess beinlínis að tala upp verðið á Íslandsbanka. Þessu hefur Jón Ólafsson alltaf neitað og fullyrt að um raunverulegt tilboð hafi verið að ræða. Jón Ásgeir var ávallt sannfærður um hið gagnstæða.

Hver sem sannleikurinn er í þeim efnum, þá er það eigi að síður staðreynd, að gengi bréfa í Íslandsbanka fór hækkandi og helgina fyrir aðalfund Íslandsbanka hinn 9. mars í fyrra, var upplýst að Jón Ólafsson hefði selt sinn hlut í Orca á genginu 5 fyrir um þrjá milljarða króna. Menn eru sammála um að Jón hafi selt á góðu verði og sloppið nokkurn veginn á pari frá fjárfestingu sinni, jafnvel ríflega það. Kaupþing hafði milligöngu um kaupin á hlut Jóns Ólafssonar og seldi svo Nóatúnsfjölskyldunni eða Saxhóli, eignarhaldsfélagi fjölskyldunnar, hlutinn, sem var réttur fjórðungur í Orca S.A.

Vöknuðu upp við vondan draum

Hálfum mánuði fyrir aðalfund Íslandsbanka í vetur sem leið, vakna ákveðnir fulltrúar eigenda bankans upp við vondan draum, einkum fulltrúar lífeyrissjóðanna, þegar þeir sjá að Orca-hópurinn ræður líklega yfir um 30% eignarhlut í bankanum og þeir sem standa að meirihlutanum í bankaráði Íslandsbanka ráða yfir öðrum 30%, þannig að við blasir að úrslitin í sambandi við kjör í bankaráð og hvernig meirihlutinn verði skipaður muni ráðast af hinum almenna hluthafa á aðalfundinum, verði ekkert að gert. Aðrir stjórnendur bankans höfðu um hríð gert sér ljósa grein fyrir því hvert stefndi, en töldu sig einfaldlega ekki geta aðhafst neitt í málinu.

Á þessum tíma, þ.e. um tveimur vikum fyrir aðalfund Íslandsbanka sem haldinn var mánudaginn 11. mars sl., var ekki alveg ljóst hvernig greidd yrðu atkvæði með tæplega 5% eignarhlut Hannesar Smárasonar í Íslandsbanka, en í þeim vangaveltum sem menn höfðu uppi um þessa hluti var þessi tæplega 5% hlutur Hannesar og co. þó talinn með þeim hlut sem Orca réð yfir og að honum meðtöldum teldist Orca ráða yfir um 30% hlut.

Ein ástæða þess að menn töldu að Orca gæti fengið atkvæði Hannesar var sú að á árinu á undan hafði verið talsvert um samstarf og samband á milli Hannesar, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Þorsteins Más Baldvinssonar og Bjarna Ármannssonar auk þess að Hannes hafði í upphafi keypt sig inn í Íslandsbanka, með það fyrir augum að starfa með Orca-hópnum, eins og skýrt er frá fyrr í þessari grein.

Svo gerist það að átta framboð koma fram til bankaráðskjörs, þar á meðal framboð Hreggviðs Jónssonar, sem kom fram í byrjun marsmánaðar. Það var Hannes Smárason, að höfðu samráði við Bjarna Ármannsson, sem fékk vin sinn Hreggvið til þess að bjóða sig fram og sagði við Hreggvið að hann yrði þar með málsvari hins almenna hluthafa, en ekki í valdablokk með einum eða neinum. Þetta gerði Hannes án þess að hafa um það samráð við Kára Stefánsson. Hreggviður gat vel hugsað sér að fara inn í bankaráðið undir þeim formerkjum að vera fulltrúi hins almenna hluthafa.

Síðar frétti Hreggviður að Jón Ásgeir Jóhannesson hefði merkt Orca-hópnum framboð hans til bankaráðs og teldi að hann myndi ótvírætt mynda blokk með Orca og þar með meirihluta í bankaráði, sem m.a. varð til þess að Hreggviður ákvað að draga framboð sitt til baka. Auk þess fékk Hreggviður mjög afdráttarlaus skilaboð fyrir milligöngu fjölda manns um að það félli ekki í pólitískt kram stjórnarráðsins, ef hann yrði til þess að fella sitjandi meirihluta bankaráðs Íslandsbanka.

Áður en Hreggviður dró framboð sitt til baka, stefndi í hatrömm átök um bankaráðsmeirihlutann í Íslandsbanka og má segja að settur hafi verið á laggirnar eins konar gjörgæsluhópur áhrifamanna sem reyndi fyrirfram að hafa áhrif á niðurstöðuna, kæmi til kosninga til bankaráðsins.

Ekki síst var reynt að hafa áhrif á Hreggvið Jónsson og fá hann til að draga framboð sitt til baka.

Reyndar voru mismunandi sjónarmið að baki slíkum umleitunum: Ákveðnir menn töldu að Davíð Oddssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, myndi alls ekki hugnast að fyrrverandi forstjóri Norðurljósa og náinn samstarfsmaður Jóns Ólafssonar gæti orðið oddamaður í bankaráði Íslandsbanka, myndað meirihluta með Orca-hópnum og þannig náð undirtökum í Íslandsbanka og var Hreggviði greint frá slíkum viðhorfum; aðrir lögðu sig í líma við að upplýsa Hreggvið um að hann hefði látið plata sig í framboð á fölskum forsendum, því honum væri ekki ætlað það hlutverk að vera málsvari hins almenna hluthafa, heldur hefðu þeir Jón Ásgeir og Þorsteinn Már þegar merkt sér hann. Hvort bæði sjónarmiðin eða einungis annað réðu því að Hreggviður skipti um skoðun, skal ósagt látið, en alltjent dró hann framboð sitt til baka. Hreggviður hefur alla tíð sagt að ástæða þess, að hann dró framboð sitt til baka, hafi verið sú, að hann hafi verið fenginn til þess að fara í framboð á fölskum forsendum. Hann hafi aldrei ætlað sér að taka þátt í neinni blokkarmyndun í bankaráðinu.

Stjórnarfundur í TM var haldinn nokkrum dögum fyrir aðalfund Íslandsbanka í vor, eða nánar tiltekið þriðjudaginn 5. mars, degi áður en Hreggviður dró framboð sitt til baka. Ákveðnir menn í stjórn TM töldu sig vita að von væri á tillögu á fundinum frá Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Hreini Loftssyni þess efnis að Gunnar Felixson, forstjóri TM, færi ekki með atkvæði TM á aðalfundi Íslandsbanka, en atkvæði TM höfðu jafnan verið notuð til þess að styðja Kristján Ragnarsson, formann LÍÚ og formann bankaráðs Íslandsbanka.

Áform þeirra Jóns Ásgeirs og Hreins voru þau að tryggja að Hreggviður næði kjöri en Kristján Ragnarsson væri felldur og það munaði um minna en hlut TM í Íslandsbanka, því hann var 4,31% þegar þetta var.

Mikill titringur var í stjórn TM vegna þessarar fyrirhuguðu tillögu, því Þorsteinn Már var enn í stjórn Tryggingamiðstöðvarinnar og menn töldu sig vita, að ef Jón Ásgeir eða Hreinn Loftsson legðu slíka tillögu á annað borð fram, þá myndi Þorsteinn Már styðja hana hvað sem vináttu hans við Gunnar Felixson liði. En þessi tillaga var ekki borin upp, heldur samþykkt að Gunnar Felixson færi með atkvæði TM á aðalfundi Íslandsbanka. Ástæða þess að tillagan var ekki borin upp var sú, að Þorgeir Baldursson, stjórnarmaður í TM, hafði áður lýst því yfir að hann myndi sitja hjá kæmi fram slík tillaga og því hefði hún fallið á jöfnu hefði komið til atkvæðagreiðslu í stjórninni.

Fimm af sjö úr bankaráði Íslandsbanka gáfu kost á sér til áframhaldandi setu, en það voru þeir Kristján Ragnarsson, formaður bankaráðsins, Víglundur Þorsteinsson stjórnarformaður BM Vallár, Einar Sveinsson, framkvæmdastjóri Sjóvár-Almennra, Helgi Magnússon, framkvæmdastjóri Hörpu-Sjafnar, og Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs. Þeir sem að auki gáfu kost á sér voru þeir Gunnar Jónsson lögmaður, Hreggviður Jónsson, fyrrverandi forstjóri Norðurljósa, og Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.

Jón Ólafsson, stjórnarformaður Norðurljósa gaf ekki kost á sér til endurkjörs, að líkindum vegna þess að hann sætti skattarannsókn á þessum tíma og taldi því ekki við hæfi að hann sæktist eftir endurkjöri í bankaráð á sama tíma. Fimmtudaginn 21. febrúar sl. gerði skattrannsóknastjóri húsleit í höfuðstöðvum Norðurljósa og í kjölfar þess gekk Jón Ólafsson á fund Kristjáns Ragnarssonar, formanns bankaráðs Íslandsbanka, og tjáði honum að hann myndi ekki sækja fundi bankaráðsins á meðan á skattrannsókninni stæði og að hann gæfi ekki kost á sér aftur í bankaráðið, nema hann væri laus frá því máli. Svo var auðvitað sjálfhætt fyrir Jón Ólafsson eftir að hann hafði selt megnið af bréfum sínum rétt fyrir aðalfundinn í marsmánuði 2002.

Einar Örn Jónsson, framkvæmdastjóri Saxhóls, sóttist ekki heldur eftir kjöri í bankaráð Íslandsbanka, en hann hafði tekið sæti Eyjólfs Sveinssonar, framkvæmdastjóra Frjálsrar fjölmiðlunar, um áramót, þegar Eyjólfur seldi sinn hlut í Orca S.A. og sagði sig úr bankaráðinu. Þeir voru því átta um hituna, þar til Hreggviður Jónsson dró framboð sitt til baka.

Hleypti áformunum í uppnám

Það var svo miðvikudaginn 6. mars sl. sem Hreggviður Jónsson hleypti áformum Orca-hópsins í algjört uppnám, með því að draga framboð sitt til bankaráðs til baka. Þar með máttu þeir Jón Ásgeir og félagar sjá á bak mögulegum 5% stuðningi atkvæða Hannesar Smárasonar og mögulegum 4,31% stuðningi TM á einum og sama sólarhringnum, sem í einu vetfangi gerði vonir þeirra um að ná undirtökunum í Íslandsbanka að engu.

Eftir að Hreggviður dró framboð sitt til baka, var sjálfkjörið í bankaráðið og ráðandi meirihluti hélt velli, því framboð til bankaráðs verður að hafa borist fimm dögum fyrir aðalfund. Þar með var þessi yfirtökutilraun Orca-hópsins á Íslandsbanka úr sögunni.

Þetta gerðist áður en Fjármálaeftirlitið svipti fulltrúa Orca-hópsins í bankaráði Íslandsbanka, þá Jón Ásgeir Jóhannesson og Þorstein Má Baldvinsson, atkvæðisrétti í ráðinu, en það gerðist aðeins nokkrum klukkustundum fyrir aðalfundinn, hinn 11. mars í fyrra. Þann dag kl. 11.13 sendi Íslandsbanki svohljóðandi tilkynningu til Kauphallar Íslands: "Fjármálaeftirlitið hefur í dag ákveðið, með vísan til 12. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, sb. 10. gr. sömu laga, að hlutum FBA Holding S.A. í Íslandsbanka-FBA hf. fylgi ekki atkvæðisréttur. Ákvörðunin tekur gildi nú þegar. Hefur FBA Holding S.A. verið tilkynnt um ákvörðunina og ástæður hennar. Fjármálaeftirlitið leggur fyrir Íslandsbanka-FBA að grípa til viðeigandi ráðstafana vegna þessa.

Fjármálaeftirlitið mun taka framangreinda ákvörðun sína til endurskoðunar jafnskjótt og gripið hefur verið til úrbóta af hálfu FBA Holding S.A. og annarra hlutaðeigandi aðila, sem Fjármálaeftirlitið metur nægjanlegar." Fjármálaráðuneytið beitti fyrir sig 10. grein laganna um viðskiptabanka og sparisjóði, þegar þetta var ákveðið, en eins og kemur fram, fyrr í þessari grein, þá fjallar sú grein laganna um eftirlit Fjármálaeftirlitsins með virkum eignarhlutum í viðskiptabönkum og sparisjóðum. Þeir Þorsteinn Már og Jón Ásgeir voru og eru ósáttir við það að hafa ekki fengið að nýta andmælarétt, áður en þeir voru sviptir atkvæðisrétti í ráðinu og töldu að gróflega hefði verið brotið á þeim.

Þegar þetta var nam eignarhlutur FBA Holding S.A. í Íslandsbanka 15,553%.

Raunar fengu þeir félagar Jón Ásgeir og Þorsteinn Már aldrei aftur atkvæðisréttinn, og sátu því fram á haust í bankaráði Íslandsbanka, án þess að hafa atkvæðisrétt. Fullyrt er að almennir hluthafar í Íslandsbanka hafi haft samband við einstaka fulltrúa meirihlutans í bankaráði Íslandsbanka í sumar, til þess að þrýsta á um að kallaður yrði saman hluthafafundur, sem kysi nýtt bankaráð, því fjölmargir almennir hluthafar töldu að það væri ekki verjandi, að þeir Jón Ásgeir og Þorsteinn Már sætu í bankaráði mánuðum saman án þess að hafa þar atkvæðisrétt. Formleg krafa tilskilins eignarhlutar í bankanum um slíkan hluthafafund kom þó aldrei fram og meirihlutinn í bankaráði ákvað að verða ekki við óformlegum óskum einstakra hluthafa.

Orrustan tapaðist rétt fyrir aðalfund

Skýringin á ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að svipta þá Jón Ásgeir og Þorstein Má atkvæðisrétti í bankaráði Íslandsbanka er talin vera sú, að Orca S.A. var með ákveðin málefni sín í meiri og minni óreiðu og félagið hafði aldrei skilað inn endurskoðuðum ársreikningi, að því undanskildu að fyrir árið 1999 skilaði félagið inn ársreikningi til Fjármálaeftirlitsins, en félagið starfaði aðeins í fimm mánuði það ár. Enn hefur engum ársreikningi verið skilað inn fyrir árin 2000 og 2001, þótt ítrekað hafi verið gengið eftir slíkum reikningsskilum. Ástæðan fyrir því að Orca bar að skila inn endurskoðuðum ársreikningum fyrir félagið var sú, að þótt um eignarhaldsfélag væri að ræða, þá átti það svo stóran hlut í íslenskum viðskiptabanka, Íslandsbanka-FBA, að félaginu var einfaldlega skylt að skila slíkum skýrslum, en virkur eignarhlutur í viðskiptabanka miðast við 10% samanber 10. grein laga um viðskiptabanka og sparisjóði frá því í júlí 1996, eins og skýrt var hér að framan. Auk þess var um veruleg vanskil FBA Holding S.A. að ræða í Íslandsbanka, eins og áður greinir.

Þótt þeir Orca-menn gerðu lítið úr því í vor að Fjármálaeftirlitið svipti þá atkvæðisrétti og segðust mundu fá atkvæðisréttinn á nýjan leik, innan fárra daga, þá varð sú aldrei raunin. Hið sanna er að þeir Jón Ásgeir og Þorsteinn Már sátu áfram sem fastast í bankaráði Íslandsbanka fram í ágústmánuð 2002 án þess að endurheimta atkvæðisréttinn og við sölu á öllum eignarhlut sínum í Íslandsbanka sögðu þeir sig úr bankaráðinu, enn án þess að mega greiða atkvæði í bankaráði Íslandsbanka. Þeir Jón Ásgeir Jóhannesson og Þorsteinn Már Baldvinsson töpuðu því þessari orustu um Íslandsbanka laust fyrir aðalfund bankans í mars sl.

En þetta var varnarsigur þeirra sem höfðu ráðið ríkjum í Íslandsbanka og knúinn fram á síðustu stundu með því að Hreggviður Jónsson dró framboð sitt til baka. Ómögulegt er að segja til um það hvernig hefði farið við bankaráðskjör, ef kosið hefði verið. En eins og fram kemur í þriðju grein, um baráttuna um Tryggingamiðstöðina, sem birt verður hér í blaðinu á morgun, var þeim Jóni Ásgeiri og Þorsteini Má samt sem áður engin uppgjöf í huga.

Eftir Agnesi Bragadóttur