Trevor Nelson er stjórnandi þáttarins The Lick á MTV en hann er á leið til Íslands.
Trevor Nelson er stjórnandi þáttarins The Lick á MTV en hann er á leið til Íslands.
Trevor Nelson er þekktur þáttastjórnandi á sjónvarps- stöðinni MTV. Inga Rún Sigurðardóttir ræddi við hann um fyrirhugaða Íslandsheimsókn og dansveislu á vegum þáttar hans, The Lick.

ALLIR sem hafa horft eitthvað að ráði á tónlistarsjónvarpsstöðina MTV þekkja Trevor Nelson. Þessi geðþekki Breti sér um þáttinn The Lick, þar sem spiluð er nýjasta r&b- og hipphopp-tónlistin.

Á laugardagskvöldið verður haldin dansveisla á vegum The Lick á skemmtistaðnum Broadway í Reykjavíkinni og kemur Trevor af því tilefni hingað til lands.

Hann verður ekki einn á ferð heldur kemur um 12 manna hópur frá MTV með honum. Myndatökumenn eru að sjálfsöguðu með í för og verða herlegheitin tekin upp og sýnd í þættinum The Late Lick tveimur vikum síðar.

Trevor er gestgjafi kvöldsins og hann verður einnig plötusnúður. Með honum verða tveir plötusnúðar til viðbótar, Dodge og Hanif, gamlir félagar hans, er mæta til leiks í Lick-partý að venju.

Tækifæri til að sjást á MTV

"Við spilum mikið hipphopp í þessum partýjum. Það er það sem virkar vel á klúbbunum. Við spilum auðvitað líka r&b," segir Trevor og útskýrir að gott andrúmsloft sé venjulega ráðandi. "Fólk er alltaf í svo góðu skapi því það fær tækifæri til að sjást á MTV," grínast hann.

Trevor er ánægður með hvað þátturinn hefur notið mikilla vinsælda, ekki síst á Norðurlöndum, en um þessar mundir eru fimm ár síðan þátturinn fór fyrst í loftið.

Hann segist hafa velt fyrir sér strax í upphafi hvernig hægt væri að gefa almenningi tækifæri til að taka þátt í sjónvarpsþætti. Fyrir honum var svarið að ferðast um og halda partý.

"Sjónvarp getur verið svo fjarlægt þrátt fyrir að það sé í stofunni hjá þér eða svefnherberginu. Ég hef alltaf verið plötusnúður. Partýin eru leið mín til að ná til fólksins og til að láta vita af þættinum," segir Trevor og bætir við að þau hafi gengið vel frá upphafi.

Hann hefur mikla reynslu af plötusnúðastarfinu og af því að skipuleggja uppákomur sem þessar. Trevor var lengi plötusnúður hjá útvarpsstöðinni Kiss FM og starfar nú hjá BBC Radio 1.

Leynigestur með í för

Hann stendur fyrir Lick-dansveislum um það bil einu sinni í mánuði. Hann hefur oft ferðast um Bretland í þessum tilgangi en hyggur nú á frekari Evrópuferðalög. Hann segist eiga marga vini í Noregi og Danmörku, sem áreiðanlega eigi eftir að verða móðgaðir yfir að hann skuli heimsækja Ísland á undan þeim.

Leynigestur slæst alltaf í för með Trevor í þessar uppákomur, einhver tónlistarmaður. Hann hefur bæði verið með þekkt tónlistarfólk í heimsókn hjá sér sem og nýja listamenn. Ekkert er látið uppi um hver tónlistarmaðurinn með óvæntu uppákomuna verður að þessu sinni frekar en venjulega.

Þess má ennfremur geta að í tilefni Íslandsfararinnar var efnt til leiks á vef MTV í Bretlandi en vinningurinn var ferð fyrir tvo hingað og að sjálfsögðu miðar á Lick-partýið.

Spáð í spilin í tónlistinni

Trevor er ánægður með tónlistarárið sem er að líða. Aðspurður segist hann spá því hvað vinsældatónlist varðar að Justin Timberlake eigi eftir að gera það gott. "Hann er mjög hæfileikaríkur. Það eina sem ég get gagnrýnt hann fyrir er að aðdáun hans á Michael Jackson er of augljós. En hann kemst upp með það því hann hefur hæfileikana," segir hann og hlær.

Trevor ræðir velgengni Ms. Dynamite á síðasta ári en er ekki viss um að ný stórstjarna í r&b-heiminum komi fram í Bretlandi á þessu ári. Hann bendir þó á að tilraunastarfsemi í tónlist sé alltaf við lýði.

"Fólk er alltaf að prófa sig áfram og reyna eitthvað nýtt hérna. Þetta er ekki eins og í Bandaríkjunum þar sem hægt er að slá því föstu að ef um er að ræða hæfileikaríka unga svarta manneskju fæst hún við r&b eða hipphopp," segir hann en óhætt er að taka mark á orðum þessa manns, sem tímaritið Muzik kallaði eitt sinn "áhrifamesta mann innan svarta tónlistargeirans í Bretlandi".

Hann á afmæli í dag...

"Þetta á eftir að verða mjög skemmtilegt. Ég hlakka mjög til og tökuliðið líka. Það eru allir svo spenntir að komast til Íslands," segir Trevor. Hann verður þó svekktur þegar hann fréttir af snjóleysinu sem hefur "hrjáð" höfuðborgarbúa í vetur og óskar þess heitt að það snjói fyrir helgina.

Kannski fær Trevor Nelson snjókomu í afmælisgjöf en hann á einmitt afmæli í dag. "Ég held nú sjaldnast sérstaklega upp á það. Ætli ég verði ekki bara að fagna þeim mun meira á Íslandi um helgina!"

Vonandi að Íslendingar flykkist á Broadway til að dilla sér með Trevor og félögum hans á laugardaginn við taktfasta tónlist. Til hamingju með daginn Trevor!

www.mtv.co.uk

ingarun@mbl.is

The Lick-partý á Broadway laugardagskvöldið 11. janúar. Húsið opnað kl. 23. Miðaverð er 1.800 krónur. Forsala á Broadway á milli 13 og 19.