Kindin syndir í átt að skerinu.
Kindin syndir í átt að skerinu.
BÆNDUR í Grýtubakkahreppi gerðu sér ferð norður í Hvalvatnsfjörð og Þorgilsfjörð í Fjörðum nú um áramótin.

BÆNDUR í Grýtubakkahreppi gerðu sér ferð norður í Hvalvatnsfjörð og Þorgilsfjörð í Fjörðum nú um áramótin. Þegar gengið var að Þönglabakka í Þorgilsfirði var komið að fimm kindum sem voru að því er virtist sallarólegar í sólskini og snjóleysi við Slysavarnafélagshúsið sem þar stendur. Er ærnar urðu manna varar var líkt og sprengju hefði verið kastað að þeim. Hófst nú mikill eltingaleikur sem endaði í fjörunni norður af Arnareyri í Hvalvatnsfirði. Áður hafði ein ærin stungið sér úr hópnum og stefnt að Botnsá í Þorgilsfirði þar sem hún var handsömuð og teymd í böndum austur að Tindriðastöðum sem var um tveggja tíma ferð. Norður af Arnareyri náðist að handsama þrjár ær eftir átök við þær í grýttri fjörunni en þá var ein ærin búin að stinga sér til sunds og ná landi á litlu skeri um 200 metra frá landi og mátti skilja við hana þar.

Daginn eftir var farið í Fjörður með bátkænu og ætluðu menn að freista þess að nálgast kindina sem þá var með öllu horfin. Frá því að göngum lauk í Fjörðum á liðnu hausti hafa ferðalangar sem farið hafa norður í Fjörður komið með kindur til byggða þó ekki hafi verið um skipulagðar eftirleitir að ræða.