[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
MÁTTUR Hringsins er ennþá óyfirstíganlega voldugur í bíóhúsum heimsins, þar með talið í N-Ameríku. Turnarnir tveir sitja sem fastast í efsta sæti listans yfir þær myndir sem flestum seðlunum söfnuðu í kassann, þriðju vikuna í röð.

MÁTTUR Hringsins er ennþá óyfirstíganlega voldugur í bíóhúsum heimsins, þar með talið í N-Ameríku. Turnarnir tveir sitja sem fastast í efsta sæti listans yfir þær myndir sem flestum seðlunum söfnuðu í kassann, þriðju vikuna í röð. Á þeim tíma, 19 dögum nákvæmlega, hefur hún alls safnað 262 milljónum dala, eða 21 milljarði króna, sem er töluvert meira en fyrsta myndin hafði tekið eftir jafnmarga sýningardaga. Turnana vantar í raun einungis 50 milljónir dala til að ná heildartekjum Föruneytisins vestra og því nokkuð ljóst að nýja myndin mun slá forveranum við hvað vinsældir varðar. Myndin er ekki einasta að gera það gott vestra því gervöll heimsbyggðinni hefur tekið henni opnum örmum og eru tekjurnar á heimsvísu komnar í 560 milljónir dala, 45 milljarða króna, og eru framleiðendurnir hjá New Line Cinema nú farnir að vona að hún eigi eftir að rjúfa 1 milljarðs dala múrinn (81 milljarður króna). Yrði hún önnur myndin á eftir Titanic til að gera það og myndi þá um leið velta Harry Potter og viskusteininum úr sessi sem önnur arðbærasta kvikmynd sögunnar, þegar einungis er tekið tillit til tekna á nývirði, en þær ekki framreiknaðar á eldri metaðsóknarmyndum.

Stjarna arðbærustu myndar sögunnar, Leonardo DiCaprio, kemur einmitt við sögu í tveimur myndum á listanum yfir tíu vinsælustu myndirnar vestra um þessar mundir. Hann er aðalleikari í þeirri í öðru sæti, Catch Me If You Can, nýjustu mynd Spielbergs, þar sem DiCaprio leikur á móti ekki minni manni en Tom Hanks. Myndin hefur gert það býsna gott síðan hún var frumsýnd fyrir tveimur vikum og vantar nú lítið upp á að komast yfir 100 milljón dala markið. Myndin, sem er njósnatryllir byggður á sönnum viðburðum, verður frumsýnd 31. janúar hér á landi. Hin myndin með DiCaprio gengur ekki alveg eins vel en það er stórmynd Martins Scorsese Gangs of New York, sem er komin í tæpar 50 milljónir dala og á þónokkuð í land með að ná upp í svimandi háan kostnað. Myndinni hefur verið tekið misjafnlega af gagnrýnendum. Hinir neikvæðu lýsa aðallega yfir vonbrigðum með mynd sem þeir segjast hafa vænst svo mikils af en þeir jákvæðu mæra Scorsese fyrir fágæta dirfsku og segja hann einn af örfáum í faginu sem metnað hafa til þess að gera alvöru stórmyndir.

Eina myndin sem kemur ný inn á lista tíu vinsælustu mynda er About Schmidt, svört kómedía eftir Alexander Payne (Election). Í myndinni þykir Jack karlinn Nicholson fara á kostum og eru enn og aftur farnar að hljóma háværar raddir um að hann eigi Óskarinn vísan. Aðrar myndir sem hraðað var í bíó fyrir áramót til að geta verið með í keppninni um Óskarinn eru t.d. Chicago, The Hours og Confession of a Dangerous Mind. Þær myndir hafa aðeins verið teknar til sýningar í fáum sölum, svona til að vera formlega með, og því ekki að marka tölur um tekjur af þeim, nema hvað húsfyllir hefur verið á flestum sýningum enda mikið um myndirnar fjallað þessa dagana.