Patrick og Catherine Le Cellier eru miklir Íslandsvinir.
Patrick og Catherine Le Cellier eru miklir Íslandsvinir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HJÓNIN Patrick og Catherine Le Cellier hafa vanið komur sínar til Íslands frá því snemma á áttunda áratuginum. Þau eru þó ekki venjulegir ferðamenn því þau hafa einnig skrifað mikið um Ísland, fest það á filmu og haldið fyrirlestra um landið.

HJÓNIN Patrick og Catherine Le Cellier hafa vanið komur sínar til Íslands frá því snemma á áttunda áratuginum. Þau eru þó ekki venjulegir ferðamenn því þau hafa einnig skrifað mikið um Ísland, fest það á filmu og haldið fyrirlestra um landið.

Í þetta sinnið eru þau komin hingað til lands í þeim erindagjörðum að huga að gerð heimildarmyndar um Ísland. Þau ætla að koma aftur hingað í vor og dvelja yfir sumarið við vinnu við myndina.

Catherine tekur að sér að ræða um myndina og þýða úr frönsku innskot eiginmannsins. Hún segir myndina líklegast verða tilbúna í árslok en þó verði hún ekki tekin til sýninga fyrr en næsta ár.

Ferðast um með myndina

"Eftir það ferðumst við næstu árin um hinn frönskumælandi heim og kynnum myndina og Ísland," útskýrir hún og býst við að þau hjónin verði á ferðalagi til ársins 2010.

Þetta kann að hljóma undarlega í augum þeirra, sem eru vanir því að mynd sé sýnd í bíó um nokkurt skeið og þvínæst sé hægt að fá hana á myndbandaleigu. Þetta á væntanlega við um allflesta en Patrick og Catherine hafa annan háttinn á.

Catherine útskýrir að hefð sé fyrir þeirra aðferð í frönskumælandi löndum. "Patrick heldur fyrirlestur á hverjum stað á meðan á sýningunni stendur. Það gefur okkur tækifæri til að breyta textanum og jafnvel myndinni ef stórtíðindi eiga sér stað á Íslandi, eins og eldgos," segir hún.

Hafa rætt við nokkra forseta

Hjónin eru ekki ókunn íslenskum stórtíðindum því þau komu hingað þegar gaus í Vestmannaeyjum 1973, í kringum þorskastríðið og embættistöku Vigdísar Finnbogadóttur árið 1980 en Vigdísi kynntust þau persónulega nokkrum árum fyrr.

Ein af mörgum greinum, sem þau hafa skrifað fyrir erlend blöð um Ísland, birtist í franska Elle, og var einmitt um embættistöku þessa fyrsta kvenforseta í heimi.

Ennfremur hafa þau tekið viðtal við annan forseta, Kristján Eldjárn, og árið 1972 ræddu þau við Ólaf Ragnar Grímsson. Viðtalið kom til vegna þess að þau óskuðu eftir því að ræða við ungan og upprennandi stjórnmálamann. "Það er greinilegt að hann hefur í raun verið upprennandi því nú er hann forseti," segir Catherine og hlær við.

Þau hafa lengi haft hug á því að gera þessa heimildarmynd um Ísland. Það hefur þó ekki gengið upp fyrr en nú. Á níunda áratugnum gerðu þau í staðinn mynd af svipuðu tagi um Pólland.

Í Íslandsmyndinni verður farið yfir sögu landsins og áhersla lögð á samfélagsbreytingar síðustu áratuga og jafnframt sögu og náttúru landsins. "Við ætlum jafnvel að nota myndir sem við tókum hér fyrir þrjátíu árum," útskýra þau.

Í viðtali fyrir þremur áratugum

Þetta er ekki í fyrsta sinn, sem Morgunblaðið tekur viðtal við hjónin vegna vinnu sinnar og Íslandsáhuga. Í júlí árið 1972 var tekið viðtal við Patrick og þau mynduð. Í myndatexta er Catherine kölluð túlkur og ber þá nafnið Foulquier. Ástæðan er sú að þau giftu sig ekki fyrr en þremur árum síðar en þau eiga saman tvö börn.

Ísland hefur verið eins og rauður þráður í gegnum samband þeirra og nú hefur dóttir þeirra einnig fengið áhuga á landinu og hyggst jafnvel koma til dvalar hérlendis.

Ljóst er að Ísland er örlagavaldur í lífi fjölskyldunnar og höfðu hjónin það gott yfir jólin hérlendis. "Okkur finnst æðislegt hérna og við hefðum ekkert á móti því jafnvel að setjast hér að ef svo bæri undir."

www.connaissancedumonde.com