Benedikt Ásgeirsson hjá Flúðasveppum nær í rúllur úr Hellisholtalæk.
Benedikt Ásgeirsson hjá Flúðasveppum nær í rúllur úr Hellisholtalæk.
ÞAÐ óhapp varð fyrir helgi að um 20 rúllur féllu ofan í Hellisholtalæk við Flúðir.

ÞAÐ óhapp varð fyrir helgi að um 20 rúllur féllu ofan í Hellisholtalæk við Flúðir. Stór flutningabíll frá flutningafyritækinu JSK, sem var að koma með rúllur af strandreyr og bygghálmi úr Rangárvallasýslu fyrir Flúðasveppi, náði ekki að hægja á bílnum vegna þess að gírskiptingin bilaði, að því er talið er. Vildi ekki betur til en svo að hlassið kastaðist til og um 20 rúllur féllu í lækinn og við hann.

Bifreiðarstjórinn, Jón Kortsson, sagði að engu hefði mátt muna að bíllinn færi í lækinn með þetta mikla hlass en á vagninum voru 60 rúllur. "Það var bara heppni að ég missti ekki bílinn í lækinn," sagði Jón bílstjóri við fréttaritara. En þess má geta að mörg umferðaróhöpp hafa orðið á þessum stað á síðastliðnum árum.

Hjá Flúðasveppum eru notaðar um 4.300 stórar rúllur og baggar af þessari vöru til að framleiða rotmassann til ræktunarinnar sem sveppirnir nærast á. Flutningafyrirtækið JSK flytur allar rúllur, sem Flúðasveppir kaupa af sunnlenskum bændum, en Borgfirðingar koma með sína framleiðslu í stórböggum. Það eru því miklir þungaflutningar til verksmiðjunnar. Ragnar Kristinn Kristjánsson eigandi sveppaframleiðslunnar hefur nýlega keypt jörðina Hvítárholt sem er í nágrenni Flúða og hefur hafið þar ræktun á strandreyr og byggi. Komu þaðan um 700 rúllur í haust en sú ræktun mun aukast mikið þar sem margir tugir hektara hafa verið búnir undir sáningu næsta vor.