Margrét Árnadóttir
Margrét Árnadóttir
Margrét Árnadóttir og Lin Hong fluttu verk eftir J.S. Bach, Beethoven og Chopin. Sunnudagurinn 5. janúar, 2003.

MARGRÉT Árnadóttir sellóleikari stundar framhaldsnám við Juliard tónlistarháskólann og hélt tónleika í Salnum sl. sunnudagskvöld, ásamt Jin Hong, sem einnig stundar framhaldsnám við sama skóla. Það mátti glögglega heyra, strax í fyrsta verkinu, sem var 5. sellósvítan eftir J.S. Bach, að Margrét er sérlega efnilegur einleikari, ræður yfir góðri tækni, hefur á valdi sínu mjúkan tón, mótar allar tónhendingar fallega, þó helst til varfærnislega, leikur af miklu öryggi og tandurhreint. Hefur sem sagt allt til að geta orðið snilldar sellóleikari.

Annað viðfangsefnið var fjórða sellósónatan op.102, nr.1, önnur af "frjálsu og óvenjulegu" sellósónötunum eftir Beethoven. Þrátt fyrir að allt væri á sínum stað, skýrt og fallega mótað, vantaði að skerpa á andstæðunum, léttleikanum og stórlætinu, auk þess sem píanóleikarinn var á köflum of frekur til hljómsins, svo að ungur tónn Margrétar náði ekki á köflum að halda að fullu í við píanóið.

Píanóleikarinn Lin Hong lék einn tvö verk eftir Chopin, fyrstu æfinguna úr op.10 og voru hlaupin, sem byggjast á endurteknu tónmynstri í hægri hendinni, ekki samfelld, svolítið rykkjótt, enda ekki auðveld viðfangs. Seinna verkið var Næturljóð í Es-dúr, op. 55, nr. 2, einstaklega fagurlega skreytt da-capo aría, er var ljúflega og fínlega leikin af Lin Hong.

Lokaviðfangsefnið var g-moll sellósónatan, op. 65, eftir Chopin og þar mátti heyra afburða fallegan leik Margrétar í skersóinu, sérstaklega miðkaflanum og einnig í hæga þættinum, sem var undurfallega "sunginn". Í jaðarköflunum var ágætur leikur píanistans of sterkur, þó auðvitað eigi píanóið að hljóma. Samleikur er nú samt sú list, að fella tónverkið saman í eina hljóman, þó segja megi að hlutverk píanósins sé frá hendi tónskáldsins mun viðameira en almennt gerist um samleiksverk, jafnvel sónötur, þar sem jafnræði er oftast á milli hljóðfæra.

Hvað sem þessu líður er Margrét Árnadóttir efni í frábæran sellista og Lin Hong sýndi sig töluvert sleipan píanista, t.d. í Chopin-sónötunni, svo að hér má spá stóru á komandi tímum, þegar svo vel er gert í upphafi ferðarinnar um hina viðsjálu refilstigu listarinnar.

Jón Ásgeirsson