Úr myndröðinni Walls of Gaza eftir  Laila Shawa frá  Palestínu.
Úr myndröðinni Walls of Gaza eftir Laila Shawa frá Palestínu.
Opið frá kl. 11-18 alla daga nema fimmtudaga en þá er opið til kl. 19. Til 19. janúar.

NÚ þegar arabalönd eru mikið í umræðunni, í flestum tilfellum því miður á neikvæðum nótum, er áhugavert að skoða sýninguna Milli goðsagnar og veruleika í Hafnarhúsinu, en þar má sjá myndverk eftir listamenn frá 16 arabalöndum. Sýningin er komin til landsins fyrir tilstilli Listasafns Akureyrar frá konunglega fagurlistasafninu í Jórdaníu en sýningin var fyrst sett upp á Akureyri sl. sumar.

Ég las nýlega frásögn á vef BBC um myndlist í Írak nú þegar þar eru viðsjárverðir tímar. Þar kom fram að sjaldan hefði listalífið verið jafnblómlegt og nú og galleríum hefði fjölgað úr tveimur fyrir 1990 þegar Persaflóastríðið hófst upp í nokkra tugi nú. Að vísu væru peningar fyrir litum, striga eða öðrum efnum af skornum skammti en það hefti ekki hinn skapandi huga nema síður væri, enda færðust listamenn í aukana þegar kreppti að.

Sýningin er í sölum A og B í Hafnarhúsinu og er í sjálfu sér hefðbundin í uppsetningu. Verkin eru líka öll hefðbundin, tvívíð málverk eða þrykkmyndir, utan þrjú myndbandsverk, sem eru í heimildarmyndastíl. Umfjöllunarefni listamanna á sýningunni er margvíslegt. Áberandi eru verk unnin út frá skrautritunarhefðinni auk óhlutbundinna verka. Fjallað er um trúarleg minni, kvenréttindi og stríðsátök auk þess sem hefðbundnar mannamyndir og landslagsmyndir er þarna að finna.

Í miðju B-salar hefur einu myndbandsverki verið sköpuð mjög góð umgjörð. Byggður hefur verið lítill bíósalur í miðju salarins og heimildarmynd um landflótta landlausa Palestínumenn í Líbanon sýnt á stórum skjá. Myndin er athyglisverð og gefur mannni innsýn í líf fólksins sem lifir við nöturlegar aðstæður í flóttamannabúðum og lítur ekki björtum augum fram á veginn.

Ekki er eins vel búið um tvö myndbandsverk fyrir utan A-sal. Þau eru sýnd á pínulitlum skjáum í gangveginum við innganginn í salinn og færa þarf til stóla til að geta sest niður við verkin.

Myndböndin eru þó góðra gjalda verð og það sem ég skoðaði best var frá Palestínu og fjallaði um daglegt líf fjögurra skólastráka. Þeir höfðu ýmislegt reynt á stuttri ævi, meðal annars að sjá skólabróður sinn skotinn með sprengikúlu í brjóstið þannig að innyflin lágu út.

Almennt séð eru verkin á sýningunni flest frekar gamaldags og lítið í takt við það sem er að gerast í alþjóðlegum myndlistarheimi nú um stundir. Þó var eitt verk sem var bæði nútímalegt og sterkt í byggingu, verkið Sárið, sem er langur rauður strigarefill, ákaflega sterkur í einfaldleik sínum en listamaðurinn er frá Írak.

Sýningarskrá er bæði á ensku og íslensku. Mér finnst óttalega ruglandi að hafa þann háttinn á eins og gert er þarna að enski helmingurinn og íslenski eru á hvolfi hvor á móti öðrum. Þetta er til vansa að mínu mati.

Ég mæli með að fólk lesi fróðlegan texta Jóhönnu Kristjónsdóttur í sýningarskrá um arabaríkin, menningu og siði. Jafnframt er athyglisverð sú ábending Ólafs Gíslasonar í skránni að þær tvær kvenímyndir úr arabaheiminum sem vestrænir menn hafa, annars vegar magadansmærin í kvennabúri soldánsins og hins vegar myndin af palestínskum stúlkum sem ganga með sprengjur innanklæða inn í fjölmenni og fórna lífi sínu og annarra í þágu málstaðarins, hafi viðhaldið þeirri ímynd að við séum hinir, eins og hann orðar það, að arabar séu ekki eins og við. Vonandi færir þessi sýning þann heim sem við lifum í og arabaheiminn nær hvorum öðrum.

Þóroddur Bjarnason