Mosfellsbær - Hjá Fasteignasölu Mosfellsbæjar er nú til sölu stórt og mikið 408 ferm einbýlishús á miklum útsýnisstað við óbyggt svæði í Hlíðarási í Mosfellsbæ. Ásett verð er 29,5 millj. kr.
Komið er inn í flísalagða forstofu með forstofuskáp og síðan inn í stórt, opið alrými með ullarteppi á gólfi. Þetta alrými skiptist upp í stofu, borðstofu og setustofu. Til hægri úr rýminu er eldhús með góðum eldhúskrók og dúk á gólfi.
Í eldhúsi er U-laga eldhúsinnrétting úr rauðri eik en inn af eldhúsi er stórt búrherbergi. Úr eldhúsi er komið í borðstofu og úr henni er mikið útsýni. Úr borðstofu er opið inn í stofu, sem afmarkast að hluta til með fallegum arni. Úr stofunni er gengið út á mjög stórar svalir í vestur og af þeim er gríðarmikið útsýni yfir Mosfellsbæ, Leirvog og að Esju.
Úr alrýminu er gengið niður tvær tröppur inn á svefnherbergisgang með teppi á gólfi. Fyrst er baðherbergi með baðkari og sturtuklefa, dúkur á gólfi en flísar á veggjum.
Þar við hlið eru tvö barnaherbergi með dúk á gólfi. Innst á gangi er stórt barnaherbergi með góðum fataskáp og innst á gangi er einnig gengið út á góðar svalir í vestur. Af svefnherbergisgangi er gengið niður stóran hringstiga niður á jarðhæð. Þar er stórt flísalagt rými og úr því er gengið inn í tvö svefnherbergi.
Við hlið þeirra á hægri hönd er þvottahús með góðri innréttingu og við hlið þvottahúss er gengt út í garð í norður, en þar er einnig inngangur í 43,7 ferm geymslurými undir bílskúrnum. Á móti þvottahúsi er baðherbergi með sturtuklefa, en inn af baðherbergi er geymslurými.
Til vinstri úr stigaholi er komið inn í stóra flísalagða setustofu og úr henni er gengið út á hellulagða verönd í vestur með heitum potti. Úr setustofunni er gengið niður í um 53 ferm flísalagt rými, sem nú er notað sem leikherbergi.
Húsið stendur innst í botnlanga við óbyggt svæði. Lóðin er 1.027 ferm og er vel gróin með háum trjám. Bílastæðið er stórt og hellulagt.