Það sem af er vetri hefur verið lítið um snjó og hálku. En vetrarríki líkt og á þessari mynd gæti verið skammt undan og þá getur heppileg hálkuvörn á gangstéttum sem annars staðar verið brýn nauðsyn.
Það sem af er vetri hefur verið lítið um snjó og hálku. En vetrarríki líkt og á þessari mynd gæti verið skammt undan og þá getur heppileg hálkuvörn á gangstéttum sem annars staðar verið brýn nauðsyn.
ÍSING og þjappaður snjór hafa valdið mörgum slæmum byltum á gangstéttum. Hingað til hefur salt verið algengasta hálkuvörnin hér á landi, enda aðgengi að saltinu gott og dreifing á því auðveld.

ÍSING og þjappaður snjór hafa valdið mörgum slæmum byltum á gangstéttum. Hingað til hefur salt verið algengasta hálkuvörnin hér á landi, enda aðgengi að saltinu gott og dreifing á því auðveld.

Saltið hefur þó ýmsa ókosti sem erfitt er að líta framhjá og það er síður en svo heppileg hálkuvörn við heimahús.

Slæm áhrif á gróður

Saltið hefur nefnilega slæm áhrif á gróður og það er ekki mælt með að nota það á stéttar sem liggja að grasflötum eða blómabeðum. Salt sem dreift er á gangstíga og stéttar berst á grasfleti og í beð, mengar jarðveginn og skilur eftir brunnin og illræktanleg svæði meðfram stígnum.

Saltið fer einnig mjög illa með leðurskó, sérstaklega í bleytu eins og oft vill fylgja hálku á Íslandi. Leðrið harðnar og upplitast og í það koma hvítar rákir sem erfitt er að hreinsa. Saltið fer líka illa með fatnað, það brennir viðkvæm efni og upplitar eins og oft má sjá á skálmum kuldagalla.

Saltið fer einnig illa með grófa, steypta fleti. Gangstéttar sem saltaðar eru reglulega slitna og molna hraðar en þær stéttar sem sandi hefur verið dreift á í hálku.

Sandur er góð hálkuvörn svo langt sem hann nær. Ef sandurinn er ómengaður salti hefur hann lítil sem engin áhrif á gróður og getur jafnvel bætt jarðveginn. Sandurinn endist þó skammt því hann hripar hratt niður gegnum snjó og ís auk þess sem hann berst auðveldlega inn í forstofur og ganga.

Viðarkurl sem hálkuvörn

Trjágróður er víða orðinn mikill á landinu og með því skapast möguleiki á að nýta trjákurl og smágreinar sem hálkuvörn. Stórar greinar er tilvalið að kurla en smágreinar (fingurþykkar eða grennri) má nota heilar.

Allur viður á það sameiginlegt að henta vel sem hálkuvörn á gangstíga í görðum. Viðurinn er stamur undir fæti, hann sækir í sig hita sem bræðir snjó og ís en liggur þó alltaf ofan á snjólaginu meðan ekki snjóar yfir.

Viðarkurlið brotnar niður í náttúrunni og veldur engum skaða á gróðri þótt það berist út um allan garð.

Viðarkurlið er endurnýtanlegt, því má sópa saman í poka þegar þiðnar og nota aftur í næstu hálku. Þegar vorar á ný má svo dreifa kurlinu í næsta gróðurbeð. Viðarkurl er stórkostleg yfirbreiðsla í beðin og heldur illgresi í skefjum. Þegar aftur fer að bera á illgresinu í beðunum má einfaldlega bæta kurli ofan á þau.

Viðarkurl skemmir hvorki fatnað né stéttar og er fullkomlega vistvænt. Eini ókosturinn við viðarkurlið er að það getur skolast að niðurföllunum og stíflað þau. Þess vegna er öruggara að nota það ekki þar sem þannig háttar til.

Vetrarklipping og greinar

Reykjavíkursvæðið mun vera stærsti skógur á landinu og því hæg heimtökin að verða sér úti um greinar til að nota á gangstíga. Það er upplagt að slá tvær flugur í einu höggi, klippa trén vetrarklippingu og nota greinarnar í endurnýtanlega og vistvæna hálkuvörn.

Grannar trjágreinar eru heppilegt efni í mottur sem endast ótrúlega vel og hafa sömu kosti og viðarkurlið.

Greinarnar eru klipptar í svipaða lengd og bundnar eða ofnar saman með grönnu snæri. Gott er að snúa greinunum sitt á hvað þannig að þykktin á þeim jafni sig út í mottunni. Hver motta ætti ekki að vera stærri en u.þ.b. 70 sentimetrar á breidd og metri á lengd til að minni hætta sé á að hún molni.

Greinamottan er frábær hálkuvörn við dyrnar og annars staðar þar sem mikið mæðir á. Af henni má dusta þegar snjóar og leggja hana síðan aftur á sinn stað. Ef mottan er vel fest saman endist hún allan veturinn, minnkar slysahættu, hreinsar snjó undan skóm og veldur engum skaða á náttúrunni.

Þeir sem ekki eiga aðgang að greinakurlara geta keypt viðarkurl hjá skógræktinni á Mógilsá eða í BYKO.

Eftir Jóhönnu Harðardóttur/bestla@simnet.is