Afhjúpun Tungukots-Móra, Jón Kristjánsson, Elín R. Líndal og Ólöf Nordal listamaður.
Afhjúpun Tungukots-Móra, Jón Kristjánsson, Elín R. Líndal og Ólöf Nordal listamaður.
Hvammstangi - Lokið er framkvæmdum við Heilbrigðisstofnunina á Hvammstanga, en þær hafa staðið yfir nánast óslitið í tíu ár. Hinn 20. desember sl. var efnt til hátíðarfundar af þessu tilefni.

Hvammstangi - Lokið er framkvæmdum við Heilbrigðisstofnunina á Hvammstanga, en þær hafa staðið yfir nánast óslitið í tíu ár. Hinn 20. desember sl. var efnt til hátíðarfundar af þessu tilefni.

Þar voru mættir heilbrigðisráðherra, arkitekt verksins, stjórn Heilbrigðisstofnunarinnar (HSH), sveitarstjórn Húnaþings vestra, iðnaðarmenn, starfsfólk og vistfólk.

Fram kom í máli Heimis Ágústssonar, oddvita Húnaþings vestra, að arkitektinn Helgi Hjálmarsson var ráðinn til verksins í desember 1991. Eldra húsnæði var breytt, og byggð var nýbygging upp á 750 fermetra.

Allt samstarf um framkvæmdina var með ágætum milli ráðuneytis og heimamanna, en að HSH standa Húnaþing vestra og Bæjarhreppur í Strandasýslu. Fjórir heilbrigðisráðherrar hafa heimsótt HSH á meðan framkvæmdum stóð, Sighvatur Björgvinsson, Guðm. Árni Stefánsson, Ingibjörg Pálmadóttir og nú Jón Kristjánsson.

Guðmundur H. Sigurðsson framkvæmdastjóri sagði frá gangi framkvæmda. Að verkinu komu nokkrir aðalverktakar, síðast Tveir smiðir ehf. á Hvammstanga, en verkið var að mestu unnið af heimamönnum sem undirverktökum. Lokaáfanginn var lóðarfrágangur á höndum Benedikts Ástvaldar Benediktssonar, sem þakti hluta lóðarinnar fyrr um daginn.

Ástæða væri til að þakka starfsfólki fyrir einstaka þolinmæði, þar sem full starfsemi var í gangi allan tímann, þótt rýma þyrfti heilu vinnusvæðin meðan framkvæmdir stóðu yfir. Kostnaður heildarverksins á verðlagi hvers árs væri um 180 milljónir, en á núvirði á þriðja hundrað milljóna.

Heilbrigðisráðherra, Jón Kristjánsson, sagði þetta afar ánægjuleg tímamót. Málefni HSH væru ekki oft á borðum ráðuneytisins og væri það til marks um góða stjórnun heimamanna. Sagði hann uppbyggingu heilsugæslu víða á landsbyggðinni afar mikilvæga og jákvæða. Nú væri uppstokkun í samskiptum ríkisins og sveitarfélaga, með breytta kostnaðarhlutdeild.

Elín R. Líndal formaður stjórnar sagði HSH hafa margþætt hlutverk, vera öryggisnet heilbrigðismála, heimili margra og vinnustað íbúa héraðsins, vörn um að viðhalda þjónustu og tækifæri til framfara. Þessi verklok væru afar ánægjuleg.

Prófasturinn, sr Guðni Þór Ólafsson, flutti blessunarorð og tónlistarfólk lék á hljóðfæri, Elinborg Sigurgeirsdóttir, Sigríður Lárusdóttir og Benóný Björnsson.

Ólöf Nordal myndlistarmaður hafði unnið útilistaverk, sem afhjúpað var á lóð HSH. Er það myndarlegur sauður, Tungukots-Móri. Vitnaði hún í bókina Forustufé eftir Ásgeir Jónsson frá Gottorp, að Móri hafði verið borinn árið 1922 og orðið 14 vetra, "einn mikilhæfasti forustusauður sem sögur fara af ". Sómir Móri sér vel á grashól við eina merkustu byggingu í Húnaþingi vestra. Að lokinni afhjúpun var gestum boðið til veglegra veitinga í matsal HSH.