Frá London. Húsnæðisstefna Verkamannaflokks Tony Blairs einkennist kannski helst af aukinni áherslu á sjálfstæð húsnæðisfélög sem rekstrarform, segir greinarhöfundur.
Frá London. Húsnæðisstefna Verkamannaflokks Tony Blairs einkennist kannski helst af aukinni áherslu á sjálfstæð húsnæðisfélög sem rekstrarform, segir greinarhöfundur.
BRETLAND er upphafsland iðnvæðingar og nútímaborgarmyndunar.

BRETLAND er upphafsland iðnvæðingar og nútímaborgarmyndunar. Frá 1800 til 1900 lét nærri að íbúafjöldinn fjórfaldaðist, fór úr 9 milljónum í 33 milljónir, þar af bjuggu 5 milljónir í London og hafði slíkur mannfjöldi aldrei í gervallri veraldarsögunni fyrr sést í einni borg. London var á þessum tíma - lokaárum langs valdatíma Viktoríu drottningar - höfuðborg heimsveldis þar sem sem sólin aldrei settist.

Feiknaör vöxtur borganna varð til þess að Bretar áttu alla 19. öldina við að stríða meiri og alvarlegri húsnæðisvanda en aðrar þjóðir. Aðgerðir til úrbóta hófust ekki að marki fyrr en eftir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar, er forsætisráðherrann Lloyd George og ríkisstjórn hans beittu sér fyrir öflugu félagslegu byggingarátaki undir lykilorðinu "Homes Fit For Heros" með tilvísun til allra þeirra ungu hermanna sem voru að snúa heim frá vígvöllum meginlandsins.

Þá var það einnig þungt á metunum að um gervalla Evrópu var róttæk verkalýðsbarátta á mikilli siglingu í kjölfar byltingarinnar í Rússlandi og breskum ráðamönnum þótti öruggast að halda sínu heimafólki góðu með stórátáki í húsnæðismálum.

Af framangreindum orsökum fór af stað þegar á árunum upp úr 1920 stórfellt félagslegt byggingarátak á vegum breskra sveitarfélaga, og er þetta upphafið á "council housing" í Bretlandi, sem átti eftir að ná til um 30% alls húsnæðis í landinu.

Frá Atlee til Thatcher

Bretar höfðu sigur í síðari heimsstyrjöldinni undir traustri forystu erkiíhaldsmannsins Winstons Churchills. Þeir treystu hins vegar verkamannaflokknum undir forystu Clements Attlees betur fyrir uppbyggingarátaki eftirstríðsáranna, þar sem efling félagslegra leiguíbúða var lykilatriði.

Á árunum eftir 1945 varð breska velferðarríkið til undir forystumanna eins og Aneurin Bevan, heilbrigðisráðherra verkamannaflokksins á upphafsárum National Health Service, bresku heilbrigðisþjónustunnar.

Sjálft velferðarhugtakið - sem öðlast hefur sess í orðaforða flestra þjóða heims - er raunar komið frá William Beveridge (síðar Beveridge lávarður), opinberum embættismanni sem á stríðsárunum leiddi undirbúning hinnar komandi uppbyggingar eftirstríðsáranna á sviði félags- og atvinnumála.

Þrátt fyrir gífurlega aukningu á byggingu félagslegs húsnæðis tókst stjórn Attlees ekki að fullu að ná settum markmiðum. Íhaldsflokkurinn bauðst til þess að bæta um betur, sem átti sinn þátt í kosningasigri þeirra árið 1951. Flokkurinn efndi loforðin; félagslegar íbúðarbyggingar í Bretlandi náðu sínu sögulega hámarki á árunum 1953-1954, síðustu stjórnarárum stríðskempunnar miklu, sir Winstons Churchills.

Í rauninni ríkti sátt í Bretlandi í rúma þrjá áratugi um þau markmið velferðarþjóðfélagins sem þeir Attlee, Bevan og Beveridge höfðu mótað við lok styrjaldarinnar. Forsætissráðherrar Íhaldsflokksins allar götur frá Winston Churchill til Edwards Heaths fylgdu - með óverulegum blæbrigðamun - einnig meginstefnu velferðaruppbyggingar hinnar keynesísku hagfræði.

Eins og alkunna er þá átti þetta eftir að gerbreytast og lykilmanneskjan í því ferli var Margaret Thatcher. Með valdatöku hennar sem forsætisráðherra Stóra-Bretlands árið 1979 upphófst tími nýfrjálshyggjunnar sem ríkjandi stjórnmálaorðræðu á Vesturlöndum.

Meðal helstu stefnumála hins gerbreytta Íhaldsflokks var að einkavæða leiguíbúðir sveitarfélaganna með setningu laga um rétt leigjenda að kaupa þær íbúðir sem þeir bjuggu í, "Right to Buy". Ráðherra húsnæðismála varð Michael Heseltine, sem seinna átti eftir að stinga náðarstunguna þegar Thatcher var á endanum komið frá völdum árið 1990.

Árið 1986 afhenti Járnfrúin í eigin persónu lyklana að milljónustu "Right to Buy" íbúðinni; í dag eru eftir aðeins um þrjár milljónir af þeim sex milljónum sem var að finna innan kerfisins 1979.

Efling húsnæðisfélaga

Eftir pólitíska eyðimerkurgöngu í heil fjögur kjörtímabil tókst Verkamannaflokknum loks árið 1997 að endurheimta völdin í Bretlandi. Til þess að þetta tækist varð flokkurinn að hafa svo gagnger búningaskipti að mörgum þykir orðið erfitt að þekkja hann fyrir sama flokk.

Undir forystu Tony Blairs hefur "New Labour" - Nýi Verkamannaflokkurinn - í mörgum atriðum haldið áfram helstu stefnumálum Margétar Thatcher og Michaels Heseltines í húsnæðismálum.

Húsnæðisstefna Verkamannaflokks Tony Blairs einkennist kannski helst af aukinni áherslu á sjálfstæð húsnæðisfélög sem rekstrarform. Sú stefna hófst í litlum mæli þegar á stjórnarárum Harolds Wilsons, en komst á þó nokkurt skrið á Thatcher-tímanum, þá sem aðferð til þess að færa yfirráð yfir leiguhúsnæði frá borgarstjórnum þar sem róttæku öflin í Verkamannaflokknum voru í lykilstöðu.

Eftir valdaskiptin 1997 hefur sundurlimun gamla leiguíbúðageirans tekið á sig það form að verið er að færa leiguíbúðir sveitarfélaganna í stórum skömmtum, svonefndum "Large Scale Voluntary Transfers" yfir til húsnæðisfélaga. Slíkt er þá ætíð gert með samþykki leigjendanna í sérstakri atkvæðagreiðslu.

Rökin að baki þessu eru ekki síst þau að með þessum hætti er hægt að ráðast í nauðsynlegar endurbætur með lántöku á almennum fjármálamarkaði án þess að skuldastöðu aðþrengdra sveitarfélaga sé íþyngt.

Þetta nýja félagslega húsnæðiskerfi hefur einnig verið fest í sessi með því að rekstraraðilanir, þ.e. húsnæðisfélögin eru háð ákveðnu opinberu eftirliti og fá að því loknu skráningu sem "Registered Social Landlord (RSL)" - skráður félagslegur leigusali.

Samkvæmt álitsgerð í "Green Paper" bresku ríkisstjórnarinnar frá árinu 2000 er gert ráð fyrir því að árið 2010 verði búið að færa eignarhald meginhluta gamla breska "council flat" kerfisins yfir til viðurkenndra húsnæðisfélaga.

Raunar minnir þessi aðferðafræði um margt á hvernig hér á landi var staðið að tilfærslu leiguíbúða Reykjavíkurborgar til Félagsbústaða hf. árið 1997. Stærðargráðan í ríki Tony Blairs hvað þetta snertir er hins vegar óneitanlega nokkru stærri en sést hefur hér í borginni við Sundin.