HARÐUR árekstur tveggja fólksbíla og hrossahóps varð á móts við Hafnará við Hafnarfjall rétt fyrir klukkan níu í gærkvöldi. Beita þurfti klippum til að ná öðrum ökumanninum út úr bíl sínum en ekki er vitað hversu alvarleg meiðsl hans reyndust.

HARÐUR árekstur tveggja fólksbíla og hrossahóps varð á móts við Hafnará við Hafnarfjall rétt fyrir klukkan níu í gærkvöldi. Beita þurfti klippum til að ná öðrum ökumanninum út úr bíl sínum en ekki er vitað hversu alvarleg meiðsl hans reyndust. Talið er víst að hrossin hafi fælst við flugeldaskot í tilefni af þrettándanum.

Að sögn lögreglunnar í Borgarnesi voru bílarnir í samfloti á norðurleið þegar hrossahópur hljóp út úr myrkrinu í veg fyrir þá. Fremri bíllinn lenti þá þegar á hrossunum en aftari bíllinn fór fyrst á eitt hross áður en hann skall á bílinn sem var á undan.

Beita þurfti klippum

Eins og áður segir þurfti að beita klippum til að ná ökumanni fremri bifreiðarinnar út, en alls var fernt í bílnum, þar á meðal börn. Voru ökumaður og farþegar fluttir á sjúkrahúsið á Akranesi. Ekki var vitað hversu alvarleg meiðsl ökumannsins voru en að sögn lögreglu stóðu vonir til að meiðsl farþeganna væru minniháttar. Tveir voru í hinni bifreiðinni og sluppu þeir ómeiddir.

Þrjú af hrossunum drápust samstundis við áreksturinn og þurfti að aflífa tvö til viðbótar. Að sögn lögreglunnar tepptist umferð í rúman hálftíma og kom lögreglan á Akranesi til aðstoðar vegna þess.

Óásættanlegt að mati yfirdýralæknis

Mörg dæmi eru um að hross hafi fælst við flugeldaskothríð um áramótin og týnst. Dæmi eru um að hross hafi hlaupið fyrir björg og drepist. Þá vita eigendur gæludýra að sprengingarnar leggjast illa í dýrin. Þannig hafa t.d. hundaeigendur gefið seppunum róandi lyf um áramótin til að auðvelda þeim lífið. Halldór Runólfsson, yfirdýralæknir, segir að skoteldasprengingar séu komnar út fyrir eðlileg mörk og bendir á að skothríðin hafi staðið yfir í marga daga jafnt fyrir og eftir áramótin. "Þetta er komið út í öfgar og þessi læti eru eiginlega orðin óásættanleg, ekki síst með tilliti til dýranna því þeim er mörgum mjög illa við þetta. Mér finnst þetta hafa verið verra fyrir þessi áramót en mörg önnur," segir Halldór.

Ekkert hefur spurst til rauðjörpu hryssunnar sem fældist við flugeldaskot í Elliðaárdal á laugardagskvöld.