Eminem
Eminem
RAPPARINN Eminem hefur komið frönsku fjölmiðlasamsteypunni Vivendi Universal nokkuð til hjálpar í þeim erfiðleikum sem hún hefur átt í að undanförnu.

RAPPARINN Eminem hefur komið frönsku fjölmiðlasamsteypunni Vivendi Universal nokkuð til hjálpar í þeim erfiðleikum sem hún hefur átt í að undanförnu. Geisladiskur rapparans, The Eminem Show, sem Universal gaf út, seldist í 7,6 milljónum eintaka í Bandaríkjunum á síðasta ári og var mest seldi diskurinn þar í landi. Þá var diskur með lögum úr fyrstu bíómynd Eminem, 8 Mile, í fimmta sæti yfir þá mest seldu á árinu. Myndin hefur einnig gert það gott en Universal dreifir henni. Frá þessu greindi netútgáfa BBC.

Fréttir af Vivendi Universal hafa flestar verið neikvæðar á undanförnum mánuðum. Fjárhagsörðugleikar, lækkun á gengi hlutabréfa, uppsögn forstjórans og ásakanir um meinta ólöglega starfsemi, er það sem mest hefur borið á í umfjöllun um þetta næststærsta fjölmiðlafyrirtæki heims, næst á eftir AOL Time Warner.

Samkvæmt frétt BBC var markaðshlutdeild Vivendi Universal á geisladiskamarkaði í Bandaríkjunum á síðasta ári nærri tvöfalt meiri en þess fyrirtækis sem næst kom, eða 29% á móti tæplega 16% hlutdeild Warner. BBC greinir frá því að sala á geisladiskum í Bandaríkjunum hafi dregist saman um 9,3% á árinu 2002 frá fyrra ári en þá hafi salan verð 2,8% minni en árið áður.