Þýskur hermaður reynir að halda jafnvægi á frosnum sandpokagarði við borgina Leubingen í Austur-Þýskalandi. Eru flóðin í rénun þar en mikil úrkoma farin að valda vatnavöxtum í Tékklandi.
Þýskur hermaður reynir að halda jafnvægi á frosnum sandpokagarði við borgina Leubingen í Austur-Þýskalandi. Eru flóðin í rénun þar en mikil úrkoma farin að valda vatnavöxtum í Tékklandi.
MIKLIR kuldar, snjóflóð og vatnsflóð urðu að minnsta kosti 21 manni að bana í Evrópu um helgina og veðurfræðingar spá sömu tíðinni áfram út vikuna.

MIKLIR kuldar, snjóflóð og vatnsflóð urðu að minnsta kosti 21 manni að bana í Evrópu um helgina og veðurfræðingar spá sömu tíðinni áfram út vikuna. Á Norðurlöndum og í Eystrasaltslöndunum hafa sums verið sett kuldamet og langt er síðan Danir hafa kynnst jafnmiklum vetrarhörkum.

Í Ósló hefur frostið verið um 20 gráður daglega í nokkurn tíma og hefur það stöðvað ferðir margra lesta, einkum þeirra, sem komnar eru nokkuð til ára sinna. Safna þær undir sig snjó, sem bráðnar í löngum lestargöngum en frýs síðan aftur og stöðvar þá lestina á brautinni. Hafa starfsmenn járnbrautanna unnið myrkranna milli við að berja klakann undan lestunum en það dugar skammt. Hefur það sama verið upp á teningnum með sporvagnana.

Í Noregi hefur kuldinn orðið fjórum mönnum að bana, þar af tveimur gamalmennum af þremur, sem flutt voru nær dauða en lífi á sjúkrahús í Ósló vegna ofkólnunar. Hafði fólkið hírst í jökulköldum íbúðum og kenna margir um ofurverði á rafmagni vegna mikils raforkuskorts í Noregi.

Að auki urðu tvær konur, dönsk og norsk, úti á Norefjell skammt frá Ósló en þær höfðu lagt upp í 12 km langa skíðagöngu á gamlársdag í 30 gráðna frosti.

Í Stokkhólmi var frostið svo hart, að álftir og aðrir fuglar frusu fastir og varð að losa þá úr ísnum með volgu vatni. Í Finnlandi var frostið mest í fyrrinótt 39 gráður en 23 í Helsinki. Eru finnsku ísbrjótarnir önnum kafnir við að halda höfnunum opnum en kuldarnir nú eru fyrr á ferðinni en gerist og gengur.

Brynvarðir bílar í sjúkraflutningum

Samgöngur í Danmörku hafa farið úr skorðum síðustu daga vegna snjóa og mikils kulda en á Jótlandi var frostið um 20 gráður á sunnudag. Hefur sums staðar verið gripið til brynvarðra bíla í stað sjúkrabíla og dönsku ísbrjótarnir eru að gera klárt enda sundin farið að leggja. Var því spáð í gær, að frostið myndi harðna enn.

Snjóflóð hafa orðið mönnum að bana á Ítalíu og í Slóvakíu og frá því á föstudag hafa sjö látist í Þýskalandi vegna flóða og bílslysa, sem rakin eru til veðráttunnar. Í París hefur flugið farið úr skorðum vegna kafaldshríðar og í Rússlandi og víðar í Austur-Evrópu fjölgar því fólki, einkum útigangsmönnum, sem kuldinn leggur að velli.

Róm, París, Ósló. AP, AFP.