MEISTARAMÓT Tennis- og badmintonfélags Reykjavíkur fór fram um sl. helgi og sigraði Ragna Ingólfsdóttir úr TBR í kvennaflokki en Mike Beres frá Kanada í karlaflokki.

MEISTARAMÓT Tennis- og badmintonfélags Reykjavíkur fór fram um sl. helgi og sigraði Ragna Ingólfsdóttir úr TBR í kvennaflokki en Mike Beres frá Kanada í karlaflokki. Þrír keppendur frá Kanada tóku þátt í mótinu að þessu sinni en auk Beres kepptu systurnar Kara og Signi Solmundsson. Mike og Kara unnu sér rétt til þess að taka þátt á Ólympíuleikunum í Sydney árið 2000 í tvenndarleik og hafa unnið fjölmörg alþjóðleg mót á undanförnum árum.

Beres lagði Svein Sölvason í úrslitum einliðaleiks karla, 15/11 og 15/13. Áður hafði hann sigrað Njörð Ludvigsson, Magnús Inga Helgason og Val Þráinsson.

Ragna lék gegn Köru Solmundsson í úrslitum einliðaleiks kvenna, 11/4, 3/11 og 13:11. Á leið sinni í úrslitaleikinn vann Ragna þær Þorbjörgu Kristinsdóttur, Katrínu Atladóttur og Halldóru Jóhannsdóttur.

Þess má geta að systurnar Kara og Signi eru ættaðar frá Hvítárósi í Borgarfirði en langa-langafi þeirra, Sólmundur Símonarson, fluttist til Kanada árið 1888.