TÆPLEGA sextugur maður hefur verið dæmdur í sjö mánaða fangelsi fyrir að hafa slegið sambýliskonu sína margsinnis í höfuðið, brotið disk á höfði hennar og skorið hana í andlit og hendur með diskabrotum.

TÆPLEGA sextugur maður hefur verið dæmdur í sjö mánaða fangelsi fyrir að hafa slegið sambýliskonu sína margsinnis í höfuðið, brotið disk á höfði hennar og skorið hana í andlit og hendur með diskabrotum.

Í niðurstöðum Héraðsdóms Reykjavíkur segir, að brot mannsins hafi verið hrottalegt og tilefnislaust og hefði hæglega getað valdið mun meiri meiðslum en raun varð á. Maðurinn sagðist muna lítið eftir atvikum sökum ölvunar en kannaðist þó við að hafa lagt hendur á konuna. Var hann dæmdur til að greiða henni 200.000 krónur í skaðabætur. Með líkamsárásinni, sem átti sér stað í heimahúsi í Reykjavík seint í apríl sl., rauf maðurinn skilorð fimm mánaða fangelsisdóms sem hann hlaut 1999 fyrir skjalafals og var manninum nú dæmd refsing í einu lagi fyrir skjalafalsið og líkamsárásina. Maðurinn á að baki langan sakaferil sem nær aftur til 1962. Þá var hann dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnað, en þá var hann 19 ára. Síðan þá hefur hann hlotið 35 refsidóma, fyrir ýmis brot, aðallega fyrir auðgunarbrot og skjalafals. Pétur Guðgeirsson kvað upp dóminn. Katrín Hilmarsdóttir sótti málið f.h. lögreglustjórans í Reykjavík en Hilmar Ingimundarson hrl. var til varnar.