[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
NÆRRI YFIRRÁÐUM ORCA-hópurinn var mjög nálægt því markmiði sínu síðastliðinn vetur að ná yfirráðum yfir Íslandsbanka. Ráðandi meirihluta tókst á síðustu stundu að koma í veg fyrir það.

NÆRRI YFIRRÁÐUM

ORCA-hópurinn var mjög nálægt því markmiði sínu síðastliðinn vetur að ná yfirráðum yfir Íslandsbanka. Ráðandi meirihluta tókst á síðustu stundu að koma í veg fyrir það. Þetta kemur fram í annarri grein af fjórum í greinaflokknum Baráttan um Íslandsbanka í blaðinu í dag.

Loðnuvertíð í fullan gang

Loðnuvertíðin er hafin af fullum krafti út af Austfjörðum. Um 25 skip eru nú á miðunum og var mokveiði þar í gær og nokkur skip á landleið með fullfermi. Freysteinn Bjarnason, útgerðarstjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, sagði vertíðina lofa mjög góðu.

Deilt um komugjöld

BSRB og ASÍ gagnrýna þær hækkanir á komugjöldum sjúklinga í heilbrigðiskerfinu sem heilbrigðisráðherra tilkynnti í gær og segja þær bitna á þeim sem minnst mega sín. Heilbrigðisráðherra bendir hins vegar á að komugjöld fyrir börn, aldraða og öryrkja séu mun lægri en fyrir almenna sjúklinga.

Sautján umsækjendur

Umsóknarfrestur um embætti forstöðumanns Kvikmyndamiðstöðvar Íslands rann út sl. föstudag. Sautján umsóknir bárust.

Palestínumenn í farbanni

Ísraelsk stjórnvöld meinuðu í gær sendinefnd palestínsku heimastjórnarinnar að sækja ráðstefnu í Lundúnum um friðarhorfur fyrir botni Miðjarðarhafs. Þau ákváðu ennfremur að loka þremur palestínskum háskólum. Þessar ráðstafanir Ísraelsstjórnar voru meðal viðbragða hennar við skæðu sjálfsmorðssprengjutilræði sem framið var í Tel Aviv í fyrradag. 22 fórust og 100 særðust.

Átján mánaða hernám

Í áætlunum Bandaríkjastjórnar um það hvað taki við að afloknu stríði við Írak, fari svo að til hernaðarátaka komi, er gert ráð fyrir hernámi í að minnsta kosti 18 mánuði, réttarhöldum yfir hæst settu mönnum Saddams Husseins og yfirtöku olíulinda, eftir því sem The New York Times greindi frá í gær.