"Það þýðir ekkert að setja vonina á molana er falla af borðum ríka fólksins..."

ÞESSI orð gætu verið einkunnarorð síðustu ára því fjárnám og gjaldþrot hafa aukist verulega og afleiðingarnar hafa verið fátækt að lokum. Hvers vegna verða fjárnám og gjaldþrot? Það eru til ýmsar ástæður fyrir því og nefni ég hér fáeinar, en þó veigamiklar.

Neyslulán

Einfaldlega vegna þess að fólk steypti sér út í allt of mikla neyslu, langaði mjög mikið í stærra húsnæði, nýjan bíl, betra rúm og allt miklu flottara. Ég tel að mörg séum við allt of oft óforsjál og látum glepjast af gylliboðum raðgreiðslusamninga og annarra kauptilboða. Í mörgum tilvikum eru aðrir einnig ábyrgir fyrir kaupunum. Annaðhvort með því að þeir skrifa undir lán vegna vörukaupa vina sinna og vandamanna eða þá að þeir eru ábyrgir fyrir uppáskriftum vegna greiðslukorta. Neysluhyggja okkar er allt of mikil og allt of fáir leggja peninga til hliðar, sem kallað er að spara. Ráð við þessu er að við gerumst forsjálli og kaupum ekki nokkurn hlut nema við eigum fyrir honum eða að minnsta kosti þó nokkuð upp í kaupverðið.

Flestir Íslendingar eru nokkuð skuldugir og þegar vextir eru mjög háir er auðvitað erfitt að standa í skilum og einnig eru dæmi þess að verðbótaþátturinn hafi skrúfað lánin svo mikið upp að skuldararnir hafa ekki með nokkru móti getað greitt þau upp og þess vegna hafa þeir orðið gjaldþrota og jafnvel vinir þeirra og vandamenn um leið vegna þess að þeir skrifuðu upp á lánin. En skuldirnar geta verið til orðnar vegna ýmissa annarra ástæðna en ég gat um áðan.

Námslán

Námslán eru orðin mörgum það íþyngjandi að þeir sjá jafnvel eftir því að hafa "asnast" í þetta óarðbæra nám, sem ekki var hægt að stunda án þess að taka námslán. Mjög brýnt er að við endurskoðum allt námslánakerfið með þá sýn fyrir augum að mennt sé máttur alls samfélagsins og ekki aðeins þess sem í námið fer.

Fyrirtækjalán

Þá eru þeir líka til sem hafa stofnað í bjartsýni og trausti til fyrirtækja sem ekki var grundvöllur fyrir eða þá að þolinmótt fjármagn var ekki fyrir hendi. Ég þekki til nokkurra eigenda smárra fyrirtækja sem berjast í bökkum og bönkum. Einasta fyrirgreiðslan sem þeir fá er yfirdráttur, sem kostar óhemjumikið, þannig að í mjög mörgum tilvikum er framtíð margra fjölskyldu- og smáfyrirtækja vonlaus. Það er ekki nema von að til séu menn sem treysta sér til þess að kaupa banka án þess að borga nokkuð út fyrr en þeir hafa keypt bankann, með skuldabréfi eða tékka sem er "geymdur er fram yfir helgi". Ráð við þessu er aukinn skilningur á rekstri smáfyrirtækja og framboð á "þolinmóðara" fjármagni auk þess sem betri ráðgjöf verði veitt þegar lagt er af stað með fyrirtækið. "Ráðgjafarstöð fyrirtæka" er ekki síður nauðsynleg en Ráðgjafarstöð heimilanna. Vonir og draumar margra sem fóru út í fyrirtækjarekstur hafa snúist í mörgum tilvikum upp í martröð skuldaranna og í mörgum tilfellum þeirra sem "urðu" að skrifa upp á lánin svo allt myndi reddast. Í flestum tilvikum þegar menn hafa stofnað til fyrirtækja úr rústum annarra er alls ekki ásetningur um svindl heldur frekar það að reyna að bjarga því sem bjargað verður.

Lág laun

Allt þetta orsakar fátækt. Þó er það einnig augljóst að mikill fjöldi fólks er á svo lágum launum og býr við svo lítið atvinnuöryggi að óhjákvæmilegt er að fátækt skapist af því. Reglusamt fólk rétt skrimtir og hefur neyðst til að leita ásjár hjálparstofnana. Hver eru laun þessa fólks og hverjir geta lifað af þeim?

Atvinnuleysi

Að ekki sé nú talað marga atvinnulausa, en atvinnuleysi er fylgifiskur hins harðsvíraða samfélags sem stjórnvöld hafa unnið kappsamlega að á undanförnum árum. Ljóst er að vaxandi atvinnuleysi verður stærri og stærri orsök aukinnar fátæktar hér á landi.

Aukin barátta og fínt fólk

Verkafólk, starfsmenn verkalýðsfélaga og pólitískir fulltrúar launafólks hljóta að blása ákafar í herlúðra gegn vaxandi atvinnuleysi, misrétti og fátækt í landinu. Við eigum að vita það að launabaráttan er barátta sem aldrei tekur enda. Það þýðir ekkert að setja vonina á molana er falla af borðum ríka fólksins sem alltaf er í fréttunum og fínum þáttum af því að það er svo gaman og fínt að tala við svoleiðis fólk.

Vinstri stefna

Gleymum því aldrei að það var og er vegna vinstri stefnu og sjónarmiða sem okkur tókst að skapa hér gott þjóðfélag almennrar velferðar á síðustu öld. En núverandi ríkisstjórn vegur skuggalega nærri þessu kerfi og ráðið við því er einfaldlega að skipta um ríkisstjórn við næstu kosningar. Að öðrum kosti er stór hætta á því að hún rústi endanlega velferðarkerfi íslenska samfélagsins.

Eftir Karl V. Matthíasson

Höfundur er alþingismaður.