JASON Prior, 23 ára körfuknattleiksmaður frá Bandaríkjunum, er væntanlegur til Valsmanna í dag og verður að öllu óbreyttu í liði þeirra gegn Grindavík í úrvalsdeildinni í kvöld.

JASON Prior, 23 ára körfuknattleiksmaður frá Bandaríkjunum, er væntanlegur til Valsmanna í dag og verður að öllu óbreyttu í liði þeirra gegn Grindavík í úrvalsdeildinni í kvöld. Prior leysir af hólmi Laverne Smith sem lék með Valsmönnum fram að jólum en þeir ákváðu að hann kæmi ekki aftur þegar í ljós kom að hann vildi ekki æfa með liðinu í jólafríinu.

"Prior er skotbakvörður sem hefur samkvæmt öllum tölum staðið sig mjög vel með Clemson- og Longwood-háskólunum, og gerði 28 stig í leik fyrir hinn síðarnefnda. Hann er sterkur á pappírunum en það á síðan eftir að koma í ljós hvernig hann nýtist okkur," sagði Ágúst Björgvinsson, þjálfari Vals, við Morgunblaðið í gær.

Valsmenn eru einnig í sambandi við Evaldas Priudokas, 31 árs framherja frá Litháen, sem gæti komið til þeirra eftir nokkrar vikur. "Hann er kominn með atvinnuleyfi en við eigum eftir að fá undirskrift frá félaginu hans í Litháen. Ef það vill háar greiðslur fyrir hann verður ekkert af þessu," sagði Ágúst.

Pétur Stefánsson, formaður körfuknattleiksdeildar Vals, sagði að félagið gerði allt sem hægt væri til að forðast fall úr úrvalsdeildinni en þar er liðið sem stendur í neðsta sæti með aðeins tvö stig. "Það er dýrt að falla í 1. deildina og reyna að reka þar alvöru körfuboltalið og það ætlum við að koma í veg fyrir," sagði Pétur.