Haraldur Eyvinds er fæddur á Akranesi 10. nóvember 1918. Hann lést á dvalarheimilinu Sóltúni 27. desember síðastliðinn. Hann var sonur Elínar Eyvindsdóttur og Jóhanns V. Daníelssonar sem bæði bjuggu á Eyrarbakka. Fósturforeldrar Haralds voru Hannesína Sigurðardóttir og Þorleifur Guðmundsson.

Haraldur kvæntist Unni Guðjónsdóttur, f. 9.10. 1921, d. 12.2. 1990. Saman áttu þau tvö börn, stúlku, er lést skömmu eftir fæðingu árið 1950, og Þröst Eyvinds, f. 4.1. 1953, kvæntur Sigurlaugu Bjarnadóttur. Jafnframt gekk Haraldur í föðurstað dætrum Unnar, þeim Fjólu Ragnarsdótttur, f. 23.6. 1940, og Sigrúnu Ragnarsdóttur, f. 22.7. 1942, maki hennar er Skúli Ólafsson. Fyrir hjónaband átti hann eina dóttur, Þórunni, sem nú er látin.

Útför Haralds verður gerð frá Fossvogskapellu í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Tengdafaðir minn, Haraldur Eyvinds, lést á 3ja dag jóla, þá 84 ára að aldri. Hann hafði dvalið á heimili fyrir aldraða að Sóltúni 2 í um eitt ár. Heilsunni hafði heldur hrakað síðustu mánuði og mér er ekki grunlaust um að hann hafi verið þessari hvíld feginn. Þó alltaf sé erfitt og sárt að hofa á eftir sínum nánustu verðum við að horfa fram á veginn og láta góðar minningar ylja okkur í sorginni.

Ég kynntist Halla, eins og hann var gjarnan kallaður, árið 1967 er ég kom á heimili þeirra Unnar, eiginkonu hans, með Þresti, syni þeirra. Mér var strax tekið eins og ég væri dóttir þeirra. Fljótlega fann ég að Halli var ekki margmáll maður né þá heldur lét hann mikið fyrir sér fara. Verk sín vann hann í hljóði af iðni og nærfærni. Hann reyndist okkur Þresti og sonum okkar, Haraldi og Bjarna, mikil stoð. Eftir lát Unnar árið 1990 má segja að nær daglegt samband hafi verið milli þeirra feðga og ófáar voru þær ferðirnar sem Halli kom til okkar út á Seltjarnarnes. Honum var umhugað um bræðurna, eins og hann kallaði gjarnan syni okkar, fylgdist með þeim bæði í leik og starfi. Fyrir það vil ég þakka.

Með þá vissu í huga að betri staður sé handan móðunnar miklu og að þar hafi Halli átt frátekið sæti við hlið Unnar og dóttur þeirra kveð ég góðan vin og tengdaföður.

Sigurlaug (Silla).

Hin langa þraut er liðin,

nú loksins hlauztu friðinn,

og allt er orðið rótt,

nú sæll er sigur unninn,

og sólin björt upp runnin

á bak við dimma dauðans nótt.

(Valdimar Briem.)Elsku afi Halli, okkur langar að minnast þín í nokkrum orðum. Frá því við bræður munum eftir okkur hefur þú ávallt verið okkur kær. Samverustundir okkar voru ófáar og hver annarri skemmtilegri. Við munum til dæmis eftir því eitt skipti þegar þið amma voruð nýbúin að fá ykkur fellihýsið og stefnan var tekin á Hrífunes. Við bræður og mamma og pabbi fylgdum ykkur með tjaldvagninn og slógum upp tjöldum á fallegum grasbala. Þetta var ein af mörgun útilegum sem við fórum saman í og eftir hverja og eina komum við bræður heim örlitlu fróðari um landið og náttúruna því þú varst ætíð með svör á reiðum höndum við spurningum okkar bræðra. Það var jafnframt alltaf mjög gaman að koma í heimsókn á Bárugötuna. Farnar voru sérferðir til að leika við Títlu og til þess að horfa á barnaefnið á sunnudagsmorgnum í sjónvarpinu. Oftar en ekki fengum við bræður kók í gleri sem voru sóttar upp á háaloft eftir þrönga stiganum. Eftir að amma lést varð samband okkar jafnvel enn nánara. Þú komst iðulega í mat á kvöldin og oftar en ekki fylgdu sögur frá siglingunum í stríðinu eða ferðum þínum um landið. Þann tíma sem þú bjóst hjá okkur sátum við oft saman og horfðum á enska boltann eða dýralífsmyndir, sem þú hafðir mjög gaman af, og ræddum mikið það sem fram fór. Þú sýndir skólagöngu okkar bræðra mikinn áhuga og gladdist ávallt með okkur þegar vel gekk. Eftir að Ragnheiður Kristín kom í heiminn þurfti ekki mikið til að færa fram bros á varir þínar enda fann hún strax fyrir góðvild og hlýju.

Það er því með söknuði sem við kveðjum þig, því ekki einungis varst þú afi okkar heldur varstu líka vinur.

Takk fyrir samfylgdina og allt sem þú hefur gefið okkur í gegnum tíðina. Guð fylgi þér að eilífu,

Haraldur Eyvinds og Bjarni Eyvinds.