Golda Helen Montgomery fæddist í Pike, Mississippi í Bandaríkjunum 18. júní 1929. Hún andaðist á Landakoti 21. desember síðastliðinn. Hún var dóttir hjónanna Hilda Marie Montgomery (fædd Dunaway), f. 29. janúar 1913, og Robert Lee Montgomery, f. 16. ágúst 1908, d. 17. ágúst 1973. Þau skildu. Helen ólst upp í Los Angeles. Þar kynntist hún Sveinbirni Þórhallssyni flugvirkja, f. 30. ágúst 1922, d. 8. febrúar 1983, og þau giftu sig á Íslandi 28. desember 1946. Þau skildu. Foreldrar hans voru Jónína Eyþóra Guðmundsdóttir og Þórhallur Bjarnarson prentari. Börn Helenar og Sveinbjörns eru fjögur: 1) Jón Þór rafeindavirki, f. 1. maí 1948, kvæntur Margréti Jónu Sveinsdóttur. 2) Stefán prentari, f. 19. apríl 1951, kvæntur Hallbjörgu Karlsdóttur. 3) Jónína María leikskólakennari, f. 2. ágúst 1952, gift Haraldi Guðbjartssyni. 4) Hrafnhildur skrifstofustjóri, f. 25.6. 1957, gift Helga A. Nielsen. Barnabörn eru sextán og langömmubörnin orðin þrjú.

Helen kom til landsins í október 1946 og vann m.a. hjá bandaríska sendiráðinu, Skeljungi og Glóbus ehf.

Útför Helenar verður gerð frá Neskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Mig langar með fáum orðum að minnast ömmu Helen sem nú hefur kvatt þennan heim og heilsað öðrum fegurri. Hún var yndisleg og hjartahlý kona, kona sem háði hetjulega baráttu við illvígan sjúkdóm. Ég kallaði hana alltaf ömmu Helen, þó svo að hún væri ekki amma mín, en hún átti þó alltaf vissan stað í hjarta mínu eins og ömmur eiga. Ég kynntist henni fyrir tæpum 16 árum eða þegar við Bjarki kynntumst. Við komum reglulega til hennar í heimsókn og áttum saman margar góðar stundir. Þeir voru líka óteljandi föstudagarnir sem við fórum til hennar í mat.

Mér er þakklæti efst í huga þegar ég hugsa til ömmu Helen. Ég bið góðan Guð að styrkja alla þá sem eiga um sárt að binda. Hennar er sárt saknað en hún skilur eftir sig hlýjar minningar í hjarta þeirra sem voru svo lánsamir að kynnast henni.

Ásdís Sturlaugsdóttir.