[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar líða tók á sumarið 2002 voru Jón Ásgeir Jóhannesson og Þorsteinn Már Baldvinsson orðnir þess fullvissir að þeir og viðskiptafélagar þeirra væru komnir með ráðandi eignarhlut í Fjárfestingarfélaginu Straumi.

Þegar líða tók á sumarið 2002 voru Jón Ásgeir Jóhannesson og Þorsteinn Már Baldvinsson orðnir þess fullvissir að þeir og viðskiptafélagar þeirra væru komnir með ráðandi eignarhlut í Fjárfestingarfélaginu Straumi. Þegar uppvíst varð að annar aðalbankastjóri Búnaðarbankans, Árni Tómasson, hafði gert leynisamning við Jón Ásgeir Jóhannesson um samstarf varð snarpur viðskiptajarðskjálfti í Íslandsbanka, sem lyktaði með því að Búnaðarbankinn efndi ekki samning sinn við Jón Ásgeir. Við svo búið ákváðu þeir Jón Ásgeir og Þorsteinn Már Baldvinsson að hætta slagnum og þar með lauk í raun þriggja ára baráttu um völdin í Íslandsbanka.

Þótt þeir Jón Ásgeir Jóhannesson, Hreinn Loftsson og Þorsteinn Már Baldvinsson hafi orðið undir þegar Straumur seldi Landsbankanum hlutabréf sín í Tryggingamiðstöðinni og þar með misst af tækifærinu til að ná undirtökunum í TM voru þeir félagar síður en svo af baki dottnir og lögðu næst til atlögu við Fjárfestingarfélagið Straum, sem þeir reyndu að yfirtaka, og gáfust ekki upp við þær tilraunir fyrr en í fulla hnefana í ágúst í sumar.

Það var Bjarni Ármannsson sem fékk þá hugmynd að stofna sérstakt fjárfestingarfélag á grunni gamla Hlutabréfasjóðsins hf., eða öllu heldur umbreytingafélag, Fjárfestingarfélagið Straum, sem hefði sterka eiginfjárstöðu, þar sem hugsunin væri sú að félagið keypti í skráðum og óskráðum félögum og ætti í þeim tímabundið og seldi svo, þegar verðið væri hagstætt. Straumur var svo stofnaður í ársbyrjun 2001 að undirlagi Bjarna Ármannssonar. Ástæða þess að hugmyndin féll í frjóan jarðveg var ekki síst sú, að talið var að rými væri á markaðnum hér á landi fyrir slíkt félag, en ekkert annað félag var í svipaðri starfsemi hér á landi. Síðan þetta var hafa tvö slík umbreytingafélög, Afl og Atorka, verið stofnuð.

Umbreytingafélög

Hugsunin á bak við umbreytingafélag eins og Straum er m.a. að kaupa fyrirtæki á lágu verði, umbreyta þeim og selja svo á háu verði. Það tíðkast líka í slíkum umbreytingafélögum að selja t.d. fasteignirnar sem félögin eru í, en halda eftir rekstri, eða selja reksturinn einnig.

Þegar staðan er metin hagstæð fyrir sölu á nýjan leik eru fyrirtækin eða félögin ýmist seld í hlutum, einstakar rekstrareiningar eða að öllu leyti, allt eftir því hvað umbreytingafélagið metur hagkvæmast hverju sinni - þ.e.a.s. hagkvæmast fyrir sig og sína fjárfestingu, ekki endilega hagkvæmast fyrir félagið sem á hugsanlega að leysa upp og selja sem stykkjavöru.

Bjarni kynnti hugmynd sína fljótlega fyrir þeim Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Þorsteini Má Baldvinssyni og fékk fljótt stuðning þeirra, en þeir sáu meðal annars möguleika í því að eiga aðild að slíku fjárfestingarfélagi, sem gæti jafnvel stutt þá í þeim fjárfestingum sem þeirra fyrirtæki stóðu fyrir, auk þess sem þeir töldu að í höndum réttu mannanna gæti fjárfesting í félagi eins og Straumi verið arðsöm, jafnvel mjög arðsöm.

Þórður Már Jóhannesson hóf svo í ársbyrjun 2001 störf sem framkvæmdastjóri Straums, sem reyndar hét þá enn Hlutabréfasjóðurinn hf. Þórður var áður starfandi hjá Kaupþingi, rétt eins og Bjarni Ármannsson áður en hann var ráðinn bankastjóri FBA 1997, en það var einmitt Bjarni sem réð Þórð Má til Kaupþings, þar sem hann starfaði sem deildarstjóri innlendra hlutabréfa. Auk þess þekkjast þeir Þórður Már og Bjarni frá því í bernsku, þeir eru báðir ofan af Skaga, Bjarni fimm árum eldri en Þórður Már. Bjarni réð miklu, sennilega öllu, um að Þórður var ráðinn.

Hluthafar upphaflega um 7.700

Straumur er stofnaður á grundvelli Hlutabréfasjóðsins hf., sem var um 4,3 milljarðar króna og um 7.700 hluthafar áttu um 40% í sjóðnum. Aðrir stórir hluthafar voru FBA Eignarhaldsfélag ehf., Fjárfestingarfélagið Straumur hf., Birgðir VÍB, Gísli Gestsson og Íslandsbanki.

Við stofnun var strax ákveðið að fara í útgáfu á nýju hlutafé, að upphæð einn milljarður að nafnvirði, en söluvirði var 2,8 milljarðar króna, þannig að félagið var með eigið fé upp á 7,1 milljarð króna að loknu hlutafjárútboðinu.

Eftir útgáfu nýs hlutafjár um mitt ár 2001, nánar tiltekið 29. júní, voru 10 stærstu hluthafar í Straumi:

Íslandsbanki með 20,11%, Fjárfar ehf. (félag í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Jóhannesar Jónssonar, Sævars Jónssonar og hóps fjárfesta) 10,17%, Eignarhaldsfélagið ISP ehf. (félag í eigu Ingibjargar Stefaníu Pálmadóttur, sambýliskonu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar) 3,57%, Kaldbakur hf. (eignarhaldsfélag í eigu KEA, Þorsteins Más Baldvinssonar, Lífeyrissjóðs Norðurlands og fleiri) 3,57%, Fjárfestingarfélagið Straumur hf. 2,99%, Dúkur hf. (í eigu Baugs) 2,70%, Saxhóll (í eigu Nóatúnsfjölskyldunnar) 2,57% og Fjárfestingarfélagið Gaumur hf. (í eigu Jóhannesar Jónssonar, 20%, barna hans, Jóns Ásgeirs, 45%, og Kristínar, 10%, og móður þeirra, Ásu Ásgeirsdóttur, 20%) 2,52%.

Yfir 60% félagsins eru í eigu 10 stærstu hluthafanna, eins og staða mála er í dag, og þeir sem verða stærstir í Straumi eftir að búið er að selja bréf félaga, sem tengjast þeim Jóni Ásgeiri og Þorsteini Má, eru Íslandsbanki, Straumur, Sjóvá-Almennar, Skeljungur og Saxhóll.

Í dag er eigið fé félagsins um 8,5 milljarðar króna og hefur vaxið um 1,4 milljarða króna á einu og hálfu ári, þrátt fyrir 1,2 milljarða króna tap á árinu 2001, þannig að um er að ræða umskipti upp á 2,6 milljarða króna.

Eignarhlutur Straums í Íslandsbanka er um 4,5% í dag.

Árið 2001 var eitt versta ár í sögu verðbréfamarkaðarins eins og áður hefur verið fjallað um og því var það talið ákveðið afrek að ná inn nýju hlutafé sem nam 2,8 milljörðum króna að söluvirði, sem sýndi ákveðna tiltrú fjárfestanna á Straumi og þeim verkefnum sem stjórnendur félagsins vildu ráðast í.

Á aðalfundi Hlutabréfasjóðsins hf. 15. mars 2001 var samþykkt að breyta nafni sjóðsins í Fjárfestingarfélagið Straum hf. og um leið var ákveðið að fækka stjórnarmönnum úr fimm í þrjá og varamönnum úr tveimur í einn.

Í stjórn voru kjörnir þeir Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, formaður, Bjarni Ármannsson, forstjóri Íslandsbanka, og Jón Halldórsson og varamaður í stjórn var kjörinn Magnús Kristinsson, útgerðarmaður í Vestmannaeyjum.

Það er lykilatriði hvað varðar vendingar í málefnum Straums á liðnu ári að huga að því þegar Straumur ákveður að selja Búnaðarbankanum eigin bréf, samtals 143,5 milljónir að nafnvirði, eða 5,12% hlut.

Þórður Már Jóhannesson, framkvæmdastjóri Straums, hafði í janúar fyrir réttu ári samband við Sólon Sigurðsson, annan tveggja bankastjóra Búnaðarbankans, og bauð bankanum að kaupa bréf sem Straumur átti í sjálfum sér. Þórður Már lýsti fyrir Sóloni hugmyndum stjórnenda Straums um að breikka grunninn að félaginu og fá annan banka inn í eigendahópinn, auk Íslandsbanka. Sóloni leist mætavel á hugmyndina og í bankanum var talið að svona fjárfesting gæti skilað Búnaðarbankanum auknum viðskiptum í gegnum þau félög og fyrirtæki sem Straumur ætti eignarhluti í. Hugmyndin var síðan til skoðunar innan Búnaðarbankans um nokkurt skeið og hinn 10. maí í vor varð niðurstaðan sú að Búnaðarbankinn keypti af Straumi 5,12% í félaginu.

Búnaðarbankinn hélt síðan áfram í vor að kaupa bréf í Straumi á markaði, án þess að þau kaup vektu í raun athygli nokkurs manns.

Þótt Orca-hópurinn, sem samanstóð einungis af Jóni Ásgeiri og Þorsteini Má þegar vora tók á liðnu ári, hefði misst atkvæðisréttinn í bankaráði Íslandsbanka, eins og greint var frá í annarri grein, hélt hann samt sem áður áfram að kaupa bréf í Straumi m.a. í gegnum Fjárfar, fjárfestingarfélag í eigu Jóns Ásgeirs, föður hans, Jóhannesar, og fleiri fjárfesta og í gegnum eignarhaldsfélagið Kaldbak (KEA á 47% í Kaldbak, Samherji á 18% og Lífeyrissjóður Norðurlands á 18%).

Léku á Jón Ásgeir og Þorstein Má

Þeir voru samtals komnir með 21,79% eignarhlut í Straumi síðastliðið vor, en það var skömmu eftir það sem ríkjandi meirihluti í bankaráði Íslandsbanka og fleiri vöknuðu upp við vondan draum og áttuðu sig á því, að Jón Ásgeir og félagar gætu verið að ná völdum í Straumi og þar með yfirráðum yfir 8,5 milljarða sjóðum félagsins og fleiri milljörðum að auki sem félagið hafði burði til þess að skuldsetja sig fyrir. Menn velktust ekki í nokkrum vafa um að þeir félagar, Jón Ásgeir og Þorsteinn Már, voru enn með það í huga að ná völdum í Íslandsbanka og að þeir myndu ekki skirrast neins í þeim efnum og úr því sem komið var, þá voru Straumur og þeir sjóðir sem hann hafði yfir að ráða síðasti kostur þeirra til að ná markmiði sínu.

Í vor sem leið hófst ný orrusta, og nú um stjórnarsæti í Straumi, sem jafnframt var baráttan um meirihlutavöld í félaginu.

Aðalfundur Straums á liðnu ári var haldinn 9. apríl sl. Fyrir þann fund voru einhverjir bankaráðsmenn og stjórnendur Íslandsbanka komnir með gallbragð í munninn og höfðu vissa sannfæringu um það, að Jón Ásgeir og félagar hefðu ákveðið að næsta skrefið í tilraunum þeirra til þess að ná tangarhaldi á Íslandsbanka væri að ná undirtökunum í Straumi, sem þeir og félög þeim tengd voru orðin svo stórir hluthafar í.

Í Íslandsbanka var litið þannig á að þeir Jón Ásgeir og Þorsteinn Már stefndu að því að ná tveimur stjórnarmönnum af þremur í Straumi, þ.e. Jóni Ásgeiri sjálfum og Magnúsi Kristinssyni frá Vestmannaeyjum, þannig að þeir Kristján Ragnarsson, bankaráðsformaður Íslandsbanka, og Bjarni Ármannsson, forstjóri Íslandsbanka, lögðust í svolítinn skotgrafahernað til þess að koma í veg fyrir yfirtöku þeirra félaga á Straumi. Hernaðaráætlun þeirra Kristjáns og Bjarna var með eftirfarandi hætti: Bankaráð Íslandsbanka hafði ákveðið á fundi sínum að Kristín Guðmundsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri Granda, yrði fulltrúi bankans í stjórn Straums og kæmi inn í stjórnina í stað Bjarna Ármannssonar. En þeim Bjarna Ármannssyni og Kristjáni Ragnarssyni láðist hins vegar, að yfirveguðu og ásettu ráði, að upplýsa þá Jón Ásgeir og Þorstein Má um þá staðreynd að þeir ætluðu ekki að setja öll atkvæðin sem bankinn hafði yfir að ráða á nafn Kristínar, heldur skiptu þeir atkvæðamagninu þannig að Ólafur B. Thors fékk hluta atkvæðanna. Atkvæðamagn það, sem Íslandsbanki hafði yfir að ráða, dugði fyrir rúmlega einum stjórnarmanni og því var hægt að dreifa atkvæðunum að hluta. Þau Kristín og Ólafur voru bæði kjörin í stjórn og mynduðu meirihluta og Ólafur varð formaður stjórnarinnar, en fulltrúi þeirra Jóns Ásgeirs og Þorsteins Más og raunar fleiri, Magnús Kristinsson, útgerðarmaður úr Vestmannaeyjum, féll. Þriðji maðurinn í stjórn var kjörinn Jón Ásgeir.

Af þessu urðu gríðarleg sárindi og hefur hvergi nærri gróið um heilt og afleiðingarnar sem þetta hafði áttu eftir að kosta Íslandsbanka sitt. Raunar mun þessi dulbúna varnaraðgerð bankaráðsformannsins einnig hafa kostað hann sitt hvað varðar stöðu hans sem formaður LÍÚ (Landssambands íslenskra útvegsmanna) því Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, og Magnús Kristinsson, útgerðarmaður frá Vestmannaeyjum, töldu og telja að formaður þeirra eigin samtaka hafi með þessari ráðstöfun sinni komið í bakið á þeim - "Kristján Ragnarsson! Þessi maður er í vinnu hjá mér"! sagði annar sægreifinn ævareiður eftir þennan fund.

Að vísu er það ekki óumdeilt hvort rétt hafi verið að líta þannig á að þeir Jón Ásgeir og Þorsteinn Már hafi verið að sameinast um að ná meirihlutanum í Straumi á sitt vald, því Jón Ásgeir og félög honum tengd, sem áttu í Straumi, áttu atkvæðamagn sem dugði nákvæmlega fyrir einum stjórnarmanni. Kaldbakur átti miklu minni hlut eða 3,57% þannig að hann þurfti á samvinnu við aðra að halda til þess að ná inn stjórnarmanni. Það var reynt að finna leið sem menn gætu sæst á með þriðja stjórnarmanninn og m.a. ræddu þeir Ólafur Ólafsson, forstjóri Samskipa, sem þá var í stjórn Kers sem átti hlut í Straumi, og Eiríkur S. Jóhannesson, framkvæmdastjóri Kaldbaks, við Kristján Ragnarsson um það hvort menn gætu ekki sæst á að þriðji maðurinn í stjórn Straums væri Magnús Kristinsson, en því var alfarið hafnað af hálfu talsmanna Íslandsbanka, sem töldu það skyldu sína að sjá til þess að þriðji maðurinn í stjórn væri í raun og veru fulltrúi rúmlega sjö þúsund lítilla hluthafa í Straumi og þann mann töldu þeir Ólaf B. Thors vera.

Reiði þeirra Jóns Ásgeirs, Þorsteins Más og Magnúsar var mikil, því ákveðið hafði verið í bankaráði Íslandsbanka að Kristín Guðmundsdóttir yrði fulltrúi Íslandsbanka í stjórninni og töldu þeir að Kristján Ragnarsson, formaður bankaráðsins, hefði brotið gróflega á bankaráðinu með því að dreifa atkvæðunum eins og hann gerði og töldu að hann hefði virt starfsreglur bankans að vettugi. Mun Kristján Ragnarsson hafa fengið að heyra það óþvegið í kjölfar fundarins. Hins vegar er á það bent af fulltrúum meirihlutans í bankaráðinu að í samþykkt bankaráðsins hafi hvergi verið sérstakt ákvæði um að öll atkvæðin, sem Íslandsbanki réði yfir, ættu að fara til stuðnings Kristínu.

Þessi afgreiðsla formanns bankaráðsins hleypti svo illu blóði í þá Jón Ásgeir og Þorstein Má að þeir ákváðu að hefja stórstríð um yfirráðin í Straumi - stríð sem átti eftir að valda ákveðnum straumhvörfum, sennilega vegna þess að það var mest háð af tilfinningalegum hita og reiði af þeim Jóni Ásgeiri og Þorsteini Má, en ekki yfirvegun og stríðskænsku.

Búnaðarbankinn í lið með Jóni Ásgeiri

Búnaðarbankinn og 12,5% eign hans í Straumi gegndi lykilhlutverki í því stríði, því Jón Ásgeir og félagar gerðu hinn 19. júní sl. skriflegan samning við Árna Tómasson, bankastjóra Búnaðarbankans, og Yngva Örn Kristinsson, framkvæmdastjóra verðbréfaviðskipta Búnaðarbankans, um kauprétt Fjárfars ehf. á öllum bréfum Búnaðarbankans í Straumi og sölurétt Búnaðarbankans á bréfum sínum. Sá hlutur hefði ótvírætt fært Jóni Ásgeiri og félögum ráðandi hlut í Straumi, ef samningurinn hefði verið efndur. Gerð þessa samnings var aðeins á vitorði örfárra manna.

Samningurinn hefst á upptalningu þess hverjir gera með sér samninginn: Búnaðarbanki Íslands hf., hér eftir nefndur Búnaðarbankinn, annars vegar og Fjárfar ehf., Sundagörðum 2, Reykjavík, Eignarhaldsfélagið ISP ehf., Kaldbakur fjárfestingarfélag, Fjárfestingarfélagið Krossanes, Saxhóll og Dúkur hins vegar, gera með sér eftirfarandi samning.

"Búnaðarbankinn skal hafa sölurétt á öllum hlut sínum í Straumi, að nafnvirði 240.000.000 krónur til Fjárfars ehf. Greitt skal fyrir hina seldu hluti með hlutum í markaðsverðbréfum sem samkomulag næst um, eða reiðufé, hvort sem Búnaðarbankinn kýs. Miða skal við markaðsverðmæti félaganna þegar sölurétturinn er nýttur. Fjárfar ehf. skal jafnframt hafa kauprétt á hlut Búnaðarbanka Íslands hf. að nafnvirði 240.000.000 milljónir króna."

Þetta er orðrétt tilvitnun í upphaf þess samnings sem þeir Árni Tómasson, bankastjóri Búnaðarbankans, og Yngvi Örn Kristinsson, framkvæmdastjóri verðbréfaviðskipta Búnaðarbankans, skrifuðu undir fyrir hönd Búnaðarbankans, en Helgi Jóhannesson lögmaður fyrir hönd Fjárfars ehf., Ingibjörg S. Pálmadóttir fyrir hönd Eignarhaldsfélagsins ISP ehf., Eiríkur S. Jóhannesson fyrir hönd Kaldbaks og Krossaness, Jón Þ. Jónsson og Einar Jónsson fyrir hönd Saxhóls og Tryggvi Jónsson og Jón Ásgeir Jóhannesson fyrir hönd Dúks. Til að byrja með hvíldi mikil leynd yfir þessari samningsgerð og engir, utan þau sem undirrituðu samninginn, vissu um tilvist hans.

Síðar í þessum skriflega samningi segir m.a.: "Viðskipti á grundvelli kaup- og söluréttar skulu fara fram innan fimmtán daga frá því að ósk um nýtingu þeirra berst.

Kaup- og söluréttur fellur niður sex mánuðum eftir hugsanlega sameiningu Straums og Hlutabréfasjóðs Búnaðarbankans hf. enda sé þá gerður langtíma eignastýringarsamningur við Búnaðarbankann hf.

Aðilar þessa samnings eru sammála um að flytja verulegan hluta af umsýslu félagsins í vörslu hjá Búnaðarbankanum samhliða gerð samnings um eignastýringu og fjárfestingarráðgjöf við bankann. Slíkur samningur skal gerður eigi síðar en fyrir árslok 2002.

Fyrst um sinn skal félagið rekið áfram sem sjálfstæð eining og vera staðsett í sér húsnæði.

Aðlaga skal starfsmannafjölda félagsins að breyttum aðstæðum, en félagið verður með framkvæmdastjóra sem tilnefndur skal af fjárfestum og Búnaðarbankanum.

Eignastýring Búnaðarbankans skal annast daglegan rekstur hlutafélagsins í umboði framkvæmdastjóra og í samræmi við ákvarðanir stjórnar þess. Skulu slíkar ákvarðanir ekki taka til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar, en slíka ráðstöfun getur framkvæmdastjóri og Búnaðarbankinn aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá stjórn, nema ekki sé unnt að bíða ákvarðana hennar án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi félagsins.

Fjárfestar og Búnaðarbankinn eru sammála um að leitast við að stækka sjóðinn, með sameign m.a. við Hlutabréfasjóð Búnaðarbankans. Enn fremur skal leitast eftir samstarfi og/eða samruna við önnur félög, m.a. Þróunarfélag Íslands hf. og Kaldbak fjárfestingarfélag hf. með það að markmiði að styrkja og auka umsvif félagsins.

Aðilar samkomulags þessa eru sammála um að hlutast til um breytingar á samþykktum félagsins, með það að leiðarljósi að stjórnarmönnum verði fjölgað í fimm.

Gerðar skulu starfsreglur fyrir stjórn og framkvæmdastjórn, sem taki mið af eðli starfseminnar og því að hægt verði að bregðast við áhugaverðum fjárfestingarkostum með skömmum fyrirvara.

Ákveði stjórnarmenn félagsins, skipaðir af fjárfestum og Búnaðarbankanum, að samþykkja fjárfestingu sem nemur meira en 2.000.000.000 króna (tveimur milljörðum króna - innskot blaðamanns) af eignum sjóðsins, frá hverjum tíma í eina einstaka fjárfestingu, þarf samþykki allra aðila samkomulags þessa. Setji Búnaðarbankinn sig upp á móti fjárfestingu sem er yfir 2.000.000.000 af eignum sjóðsins hefur Fjárfar heimild til að nýta sér kauprétt á hlutafé Búnaðarbankans í Straumi hf. samkvæmt fyrstu grein samkomulags þessa, á markaðsverði með 5% álagi.

Aðilar samkomulags þessa eru skyldugir til að hlíta samkomulagi þessu eins og það er nú, eða eins og því kann síðar að verða breytt, með samþykki undirritaðra.

Efni samkomulags þessa og samninga byggðra á því skal vera trúnaðarmál milli aðila og skulu þeir ekki veita upplýsingar um efni þess nema lög mæli fyrir um það eða aðilar verði sammála um að veita upplýsingarnar.

Samkomulag þetta skal endurnýjað samhliða hugsanlegum samruna Straums við einhvern af þeim sjóðum sem nú þegar eru í vörslu og eignastýringu Búnaðarbankans hf. Tryggt skal í þeim samningum að núverandi tekjumyndun BÍ vegna fjárvörslu og eignastýringar þeirra sjóða haldi sér.

Rísi upp ágreiningur um samkomulag þetta skal reka mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Samkomulag þetta er gert í tveimur samhljóða eintökum og heldur hvor aðili einu eintaki."

Í byrjun sumars var Búnaðarbankinn búinn að sanka að sér 12,5% hlutafjár í Straumi. Hluta af því, eða um 3,5%, hafði Búnaðarbankinn selt Kaldbak með framvirkum samningi, en sá eignarhluti var eðli málsins samkvæmt áfram skráður á Búnaðarbankann og í skjóli eignar sinnar taldi bankinn eðlilegt að hann fengi einn stjórnarmann í stjórn Straums. Yngvi Örn Kristinsson fór á fund Kristjáns Ragnarssonar, formanns bankaráðs Íslandsbanka, um mánaðamótin júní-júlí í sumar er leið og óskaði eftir því fyrir hönd Búnaðarbankans við Íslandsbanka, að Kristín Guðmundsdóttir segði af sér sem stjórnarmaður í Straumi og inn kæmi Einar Örn Jónsson, framkvæmdastjóri Saxhóls, sem fulltrúi Búnaðarbankans og Saxhóls í stjórn Straums.

Íslandsbanki hafnaði þessari ósk alfarið og við svo búið krafðist Búnaðarbankinn þess hinn 2. júlí sl. að hluthafafundur yrði haldinn og hugðist beita atkvæðamagni sínu á þeim fundi, í samvinnu við þau félög sem hann hafði samið við hálfum mánuði áður um gagnkvæman kaup- og sölurétt á bréfunum í Straumi, til þess að knýja fram breytingar í stjórn Straums.

Þegar rýnt er í texta samningsins hér að ofan er augljóst hvert markmið Búnaðarbankans var með því að knýja fram breytingar í stjórn Straums - nefnilega að ná meirihluta í stjórninni í samvinnu við þá aðila sem samningurinn var gerður við, því þannig hefði brautin verið greið fyrir sameiningu Straums og Hlutafjársjóðs Búnaðarbankans, eins og kveðið er á um í samningnum, eða fyrir kaup Fjárfars á hlut Búnaðarbankans, ef sú yrði niðurstaðan.

Í Búnaðarbankanum er því haldið fram að frá upphafi, þ.e. frá því að Búnaðarbankinn fyrst keypti hlut í Straumi, hafi það ávallt verið markmiðið að ná fram auknum viðskiptum fyrir Búnaðarbankann og einmitt það hafi vakað fyrir Búnaðarbankamönnum þegar þeir gerðu samninginn við Jón Ásgeir og félaga hinn 19. júní sl. og ekkert annað. Raunar hafi enginn í Búnaðarbankanum, hvorki Árni Tómasson bankastjóri né aðrir, haft minnstu hugmynd um þau geysimiklu átök sem voru á milli Orca-hópsins, eða þess sem eftir var af honum, og annarra eigenda Íslandsbanka, um undirtökin í Íslandsbanka og Straumi.

Enginn fundur var þó auglýstur og krafan var afturkölluð hinn 16. júlí 2002, en í millitíðinni hafði mikið gengið á milli stjórnenda Búnaðarbankans og stjórnenda Íslandsbanka, því Íslandsbanki lýsti því yfir við Búnaðarbankann að ef hann héldi kröfu sinni um hluthafafund til streitu yrði litið á það sem stríðsyfirlýsingu af hálfu Búnaðarbankans, sem yrði mætt af fullri hörku.

Hélt samningnum leyndum

Bankastjórar Búnaðarbankans, þeir Sólon Sigurðsson og Árni Tómasson, og Magnús Gunnarsson, formaður bankaráðs Búnaðarbankans, áttu fund með bankastjórum Íslandsbanka, þeim Vali Valssyni og Bjarna Ármannssyni, og Kristjáni Ragnarssyni, formanni bankaráðs Íslandsbanka, snemma í júlí sl. sumar og var sá fundur haldinn í Búnaðarbankanum. Á þessum fundi sögðu Íslandsbankamenn að þeir teldu enga ástæðu til þess að halda hluthafafund, þar sem 12,5% eign Búnaðarbankans í Straumi væri ekki nægjanlega stór til þess að bankinn fengi stjórnarmann. Bentu þeir fulltrúum Búnaðarbankans á hversu haldlaus krafa það væri, að fulltrúi Íslandsbanka í stjórn Straums, 20% eiganda að Straumi, Kristín Guðmundsdóttir, viki úr stjórn fyrir 12,5% eignarhluta Búnaðarbankans.

Af hálfu Búnaðarbankans var ekki upplýst á þessum fundi að bankinn hygðist knýja fram kjör á stjórnarmanni á sínum vegum, með samstarfi við þá sem færu með atkvæði Fjárfars, Eignarhaldsfélagsins ISP, Saxhóls, Kaldbaks og Dúks, enda var ekki greint frá hinum skriflega samningi sem gerður hafði verið á milli bankans og ofangreindra félaga.

Buðu Íslandsbankamenn upp á að Búnaðarbankinn fengi fulltrúa í stjórn á næsta aðalfundi, Íslandsbanki fengi annan fulltrúa og að þriðji maðurinn í stjórn yrði síðan fulltrúi sjö þúsund litlu hluthafanna í Straumi. Niðurstaða þessa fundar varð sú að þeir Árni, Sólon og Magnús gáfu kollegum sínum í Íslandsbanka að lokum fyrirheit (Árni með semingi þó), annaðhvort um að Íslandsbanki fengi að kaupa þennan 12,5% hlut Búnaðarbankans í Straumi eða að Búnaðarbankinn ætti bréfin áfram án þess að reyna að knýja fram breytingar í stjórn félagsins. Þetta fyrirheit gaf Árni, en hafði þó tæpum mánuði áður gert ofangreindan samning við Jón Ásgeir, en þeir Magnús Gunnarsson og Sólon Sigurðsson gáfu fyrirheitið í góðri trú.

Á þessum fundi láðist Árna að upplýsa aðra fundarmenn um tilvist þess samnings sem hann hafði gert við Jón Ásgeir og félaga hinn 19. júní. Einn þeirra, sem ekki vissu af þessum samningi, var kollegi hans, Sólon Sigurðsson, bankastjóri Búnaðarbankans, og annar var formaður bankaráðs Búnaðarbankans, Magnús Gunnarsson.

Stærð þessara fyrirhuguðu viðskipta samkvæmt samningi Búnaðarbankans og Jóns Ásgeirs og félaga var slík, 12,5% hlutur í Straumi, að þau voru að flestra mati flöggunarskyld í Kauphöll Íslands og einnig er talið að hér hafi verið um að ræða tilkynningarskyld innherjaviðskipti. Í Búnaðarbanka mun það hins vegar hafa verið kannað hjá lögfræðingum bankans, hvort um flöggunarskyld viðskipti var að ræða, og niðurstaðan hafa verið sú, að eðli þessara viðskipta væri með þeim hætti, að þau væru ekki flöggunarskyld.

Ennfremur hlýtur það að teljast lögfræðilegt álitamál, hvort ekki var um ólögmæt innherjaviðskipti að ræða, þar sem þeir Jón Ásgeir, stjórnarmaður í Straumi, og Einar Örn Jónsson, varamaður í stjórn Straums, gerðu slíkan samning við Búnaðarbankann.

Þegar Búnaðarbankinn dró til baka ósk sína um hluthafafund varð Jón Ásgeir ævareiður eina ferðina enn og ákvað að krefjast hluthafafundar. Krafan var sett fram í nafni Fjárfars og Dúks og hún var dagsett 16. júlí, sama dag og Búnaðarbankinn afturkallaði kröfu sína. Fundurinn var auglýstur í dagblöðum og útvarpi og fram kom að hann skyldi haldinn hinn 20. ágúst sl.

Skömmu síðar lætur Jón Ásgeir þá Val Valsson og Bjarna Ármannsson vita um tilvist samningsins á milli Búnaðarbankans og Fjárfars og fleiri og um kauprétt Fjárfars á hlut Búnaðarbankans í Straumi.

Til að byrja með áttu þeir í Íslandsbanka afar bágt með að trúa því að slíkur samningur væri til í raun og veru. Haft var samband við Árna Tómasson og hann spurður hvort það væri rétt að Fjárfar hefði kauprétt á hlut Búnaðarbankans í Straumi. Hann fór undan í flæmingi, en kvaðst ekki vita hvernig samningurinn væri orðaður nákvæmlega, því hann hefði ekki séð hann. Viðhorf Árna í þessum efnum mun hafa verið það, að ef hann upplýsti um innihald samnings sem hann og Yngvi Örn höfðu gert við Jón Ásgeir og félaga jafngilti það því að hann væri að brjóta trúnað á viðskiptavinum bankans og þar með að rjúfa bankaleynd. Auk þess hefur Árni gefið til kynna að hann hafi ekki haft hugmynd um það hvers konar valdabarátta átti sér stað á bak við tjöldin innan Íslandsbanka. Hann hafi einfaldlega gert samning við tvo úr hópi stærstu hluthafa Íslandsbanka, þá Jón Ásgeir Jóhannesson og Einar Örn Jónsson, og litið á þá sem fulltrúa Íslandsbanka við þá samningsgerð hinn 19. júní sl.

Eftir að þeir í Íslandsbanka voru komnir með staðfesta vitneskju um tilvist samningsins má segja að allt hafi ætlað um koll að keyra og loft verið lævi blandið, því Íslandsbankamenn töldu að það væri ljóst, fyrst Búnaðarbankinn hefði gert slíkan viðskiptasamning við Fjárfar og fleiri, að hann væri í samspili við þá aðila að undirbúa óvinveitta yfirtöku á Straumi. Slík áform hafa enn ekki verið viðurkennd í Búnaðarbankanum, þrátt fyrir samrunaákvæðið um Straum og Hlutabréfasjóð Búnaðarbankans. Þar á bæ halda menn sig við þá skýringu að ekkert annað markmið en viðskiptalegt markmið um að ná til bankans auknum viðskiptum hafi ráðið för.

Hófust nú miklar bollaleggingar, vangaveltur og samningaviðræður um það hvernig koma mætti í veg fyrir að þau viðskipti, sem þeir Árni Tómasson og Jón Ásgeir Jóhannesson höfðu samið um, ættu sér stað.

Augljóslega varð allt vitlaust á fleiri stöðum en í höfuðstöðvum Íslandsbanka og Baugs, þegar tilvist samningsins hafði fengist staðfest, því Magnús Gunnarsson, formaður bankaráðs Búnaðarbankans, og Sólon Sigurðsson, bankastjóri Búnaðarbankans, kunnu Árna Tómassyni litlar þakkir fyrir að hafa farið með þeim á fund með stjórnendum Íslandsbanka nokkrum dögum áður, en þagað þunnu hljóði um gerðan samning og látið þá vaða í villu og svíma þegar þeir samþykktu að vera þöglir meðeigendur Íslandsbanka að Straumi til næsta aðalfundar, eða að leyfa Íslandsbanka að kaupa sinn hlut í Straumi. Þeir töldu sig hafa samþykkt ákveðna hluti um ráðstöfun eigna Búnaðarbankans, sem þeim var einfaldlega ekki heimilt að gera, því Árni, ásamt Yngva Erni Kristinssyni, yfirmanni verðbréfasviðs Búnaðarbankans, hafði undirritað bindandi samning við Fjárfar um aðra hluti. Í huga þeirra Sólons Sigurðssonar og Magnúsar Gunnarssonar var ljóst, að þeir hefðu aldrei haft neinar forsendur til þess að mæta á fundi með Íslandsbankamönnum nokkrum dögum áður hefðu þeir vitað af samningnum.

Í kjölfar þessa hafði Árni Tómasson samband við Bjarna Ármannsson og spurðist fyrir um hvort Íslandsbanki vildi ekki bara kaupa bréf Fjárfars og þeirra aðila, sem samningurinn frá 19. júní tók til, í Straumi og bauðst til að hafa milligöngu um að bankinn keypti á gengi á bilinu 3,03-3,07 og var þeirri ósk ekki illa tekið í bankanum og bauðst bankinn til að kaupa bréfin á genginu 3,05.

Eftir nokkurt þóf lýsir Jón Ásgeir því yfir að hann vilji ekki selja nema á genginu 3,07. Íslandsbanki gefur sig og segist munu kaupa á því gengi. En svo hættir Jón Ásgeir skyndilega við að selja um miðjan ágústmánuð og heldur enn til streitu kröfu sinni um hluthafafund í Straumi.

Þær varnir sem Íslandsbanki átti í þessari baráttu um meirihlutann í Straumi þegar hér var komið sögu voru tvenns konar: Bankinn gat látið meirihluta stjórnar Straums ákveða að auka hlutafé Straums með hraði og selja viðbótarhlutaféð vinveittum aðilum, eða hvatt Búnaðarbankann til þess að beita 15 daga ákvæðinu, sem tilgreint er í samningnum hér að framan og er svohljóðandi: "Viðskipti á grundvelli kaup- og söluréttar skulu fara fram innan fimmtán daga frá því að ósk um nýtingu þeirra berst."

Þegar Magnús Gunnarsson fékk vitneskju um þann skriflega samning sem hafði verið gerður við Fjárfar og fleiri hinn 19. júní sl. átti hann fund með Árna Tómassyni, bankastjóra Búnaðarbankans, og sagði honum að bankinn ætti aðeins einn kost í stöðunni - að standa við gerðan samning.

EN

- Magnús Gunnarsson, orðlagður heiðursmaður, er einnig afar reyndur og séður samningamaður. Honum var auðvitað kappsmál að geta staðið við þau fyrirheit sem hann gaf þremenningunum í Íslandsbanka, en það hafði ekki síður þýðingu í hans augum, að Búnaðarbankinn stæði við þá samninga sem hann hafði gert. Hann fyrirskipaði Árna Tómassyni, bankastjóra Búnaðarbankans, að standa við samninginn við Jón Ásgeir og félaga, í bókstaflegum skilningi , þannig að viðskipti á grundvelli kaup- og söluréttar skyldu fara fram innan fimmtán daga frá því að ósk um nýtingu bærist, og miðað við ósk Jóns Ásgeirs um nýtingu kaupréttar, sem barst hinn 12. ágúst í fyrra, 12 dögum fyrir boðaðan hluthafafund 20. ágúst, eða þremur dögum of seint miðað við samningsákvæðið, gat Búnaðarbankinn neitað að afhenda bréf sín í Straumi til Jóns Ásgeirs fyrr en 23. ágúst!

Búnaðarbankinn gat því í raun staðið við sinn hluta samningsins tæknilega séð, en svikið hann samt sem áður efnislega og ákveðið að viðskiptin við Fjárfar og aðra samningsaðila færu ekki fram fyrr en 23. ágúst, þremur dögum eftir að boðaður hluthafafundur hefði verið haldinn, og þannig hefði Jón Ásgeir ekki verið kominn með tilskilinn eignarhlut á hluthafafundinum, sem dygði honum til þess að ná meirihlutanum í Straumi.

Aðspurður af þeim, sem samið höfðu við Árna um kaupin fyrr um sumarið, eða tveimur mánuðum áður, hverju þessir nýju viðskiptahættir sættu svaraði Árni á þann veg, að sá þrýstingur sem hann var beittur til þess að efna ekki samninginn hefði einfaldlega verið slíkur að ekki hefði verið hægt að standa gegn honum.

Krafan um hluthafafund vopn

Er ekki að orðlengja það að Jón Ásgeir reiðist þessari niðurstöðu geysilega, en sér samt sem áður að hann hefur orðið undir, því þótt hann gæti í sjálfu sér fallið frá kröfunni um hluthafafund 20. ágúst og ákveðið síðar að óska á ný eftir hluthafafundi, þegar viðskiptin milli Fjárfars og Búnaðarbankans hefðu farið fram, vissi hann þegar hér var komið sögu að þeir sem réðu meirihlutanum í Straumi ættu enn þann möguleika að láta meirihluta stjórnarinnar, þau Kristínu Guðmundsdóttur og Ólaf B. Thors, ákveða hlutafjáraukningu í Straumi og selja til vinveittra aðila. Hann taldi sig líka vita að þeim möguleika yrði beitt um leið og viðskipti Fjárfars og Búnaðarbankans hefðu farið fram.

Auk þess mun Jón Ásgeir hafa gert sér ljósa grein fyrir því, að óheppilegt gæti verið, fyrir viðskiptahagsmuni Baugs, að hann færi í stórátök við Búnaðarbankann, því þannig gæti blasað við, að Baugur og félög tengd honum ættu ekki í nokkurt hús að venda á Íslandi hvað varðar bankafyrirgreiðslu og lánsfjármögnun.

Beitti Jón Ásgeir því kröfunni um hluthafafund í Straumi sem vopni til þess að knýja Íslandsbanka til að sölutryggja öll bréf hans og Þorsteins Más í Íslandsbanka á genginu 5,175 og öll bréfin þeirra í Straumi á genginu 3,21, en áður hafði Jón Ásgeir reynt að fá stjórnendur Íslandsbanka til þess að skipta á bréfum við sig, þannig að hann fengi bréf Íslandsbanka í Straumi en bankinn fengi bréfin sem Jón Ásgeir átti í Íslandsbanka. Íslandsbanki hafði ekki áhuga á slíkum viðskiptum og hafnaði þeim hugmyndum Jóns Ásgeirs.

Íslandsbanki féllst á að sölutryggja bréf þeirra félaga á þessu gengi og hinn 20. ágúst var undirritaður samningur í þá veru. Þegar búið var að skrifa undir afturkallaði Jón Ásgeir kröfu sína um hluthafafundinn, sem halda átti síðdegis sama dag.

Ræddu við ráðherra Framsóknar

Daginn fyrir áætlaðan hluthafafund, hinn 19. ágúst, hafði Eiríkur S. Jóhannesson, framkvæmdastjóri Kaldbaks, samband við Valgerði Sverrisdóttur viðskiptaráðherra og greindi henni frá þeim samningi sem Búnaðarbankinn hafði gert við Jón Ásgeir og félaga um sölu á eigin bréfum til Fjárfars nákvæmlega tveimur mánuðum áður, hinn 19. júní. Eiríkur S. Jóhannesson var eins og kunnugt er útibússtjóri Landsbankans á Akureyri áður en hann réðst til KEA. Hann mun hafa talið ófært að viðskiptaráðherra vissi ekki af þeim samningi sem aðalbankastjóri Búnaðarbankans hafði gert við Jón Ásgeir, hann sjálfan og fleiri og því greint henni frá innihaldi samningsins, um leið og hann upplýsti hana um fyrirmælin sem Árna Tómassyni höfðu verið gefin um með hvaða hætti hann skyldi "efna" samninginn.

Sama morgun og hluthafafundurinn átti að vera, hinn 20. ágúst, hafði Jóhannes Geir Sigurgeirsson, stjórnarformaður Kaldbaks, samband við Halldór Ásgrímsson, formann Framsóknarflokksins og utanríkisráðherra, og var efnislega með samskonar málaleitan við hann og Eiríkur hafði verið með við viðskiptaráðherrann.

Þetta mun hafa verið Valgerði Sverrisdóttur erfitt mál, því hún á mikið undir stuðningi manna eins og Þorsteins Más Baldvinssonar, Jóhannesar Geirs Sigurgeirssonar og Eiríks S. Jóhannessonar í eigin kjördæmi, en enga fyrirskipun gaf ráðherrann um tafarlausa sölu á bréfunum til Jóns Ásgeirs, svo mikið er víst. Halldór Ásgrímsson vísaði erindi Jóhannesar Geirs frá sér, með þeim orðum einum að hann gæti ekki verið að hlutast til um viðskiptasamninga.

Búnaðarbankinn nýtur ekki trausts

Fyrir liggur að bréf Straums hefðu aldrei verið seld Búnaðarbankanum, ef ætlan Árna Tómassonar, bankastjóra Búnaðarbankans, um að selja Jóni Ásgeiri bréfin örfáum mánuðum síðar og gera honum þannig kleift að ráðast í óvinveitta yfirtöku á félaginu, hefði verið stjórnendum Straums ljós. Sama máli gegndi með hinn kostinn, að Búnaðarbankinn í samvinnu við Jón Ásgeir og félaga næði undirtökunum í Straumi og sameinaði Straum Hlutabréfasjóði Búnaðarbankans - af skiljanlegum ástæðum voru stjórnendur og eigendur Íslandsbanka jafnlítið hrifnir af þeim möguleika og hinum fyrri.

Það er jafnljóst að þótt Búnaðarbankinn eigi í dag 4,28% hlut í Straumi (Búnaðarbankinn seldi Íslandsbanka nýverið helmingshlut þess sem hann átti í Straumi, eða 4,28%) nýtur bankinn ekki trausts eða velvilja meðal annarra eigenda og stjórnenda Straums.

Reiknuðu með stuðningi Kers

Það er kannski að æra óstöðugan að greina frá enn einum þætti í þessum miklu viðskiptaátökum.

Einar Sveinsson, forstjóri Sjóvár-Almennra og varaformaður bankaráðs Íslandsbanka, er í talsverðu hlutverki á þessum lokaspretti í átökunum um Straum, því hann fékk veður af því að 5,4% hlutur, sem Ker hf. átti í Straumi, væri falur vegna þess að þegar Hesteyri hf. hafði fengið keyptan hlut Straums í Keri gerði stjórn Kers almenna samþykkt um að þá væri eðlilegt að selja hlutabréfin sem félagið átti í Straumi.

Venjulega er stjórnarformanni falið að sjá um slíka sölu. Einar Sveinsson hafði samband við vin sinn Kristján Loftsson, stjórnarformann í Keri hf., falaðist eftir bréfunum og Kristján seldi Sjóvá-Almennum þessi 5,4% í Straumi, án þess að þeir Geir Magnússon og Jakob Bjarnason hefðu hugmynd um það, en Jón Ásgeir og Þorsteinn Már höfðu sannarlega treyst á stuðning Kers í baráttu sinni um völdin í Straumi.

Það er kannski engin furða að Þorsteinn Már skuli hafa talið sig eiga vísan stuðning Kers í baráttunni um undirtökin í Straumi, því Samherji og tengd félög er langstærsti einstaki viðskiptavinur Kers og kaupir af félaginu um 15milljónir lítra af olíu á ári. Samherji er einnig beint og óbeint stærsti viðskiptavinur Samskipa sem annast alla gámaflutninga Samherja og tengdra félaga.

Áður hafði Kristján Loftsson tryggt sér stuðning meirihluta stjórnar Kers fyrir sölunni, þeirra Ólafs Ólafssonar, Margeirs Daníelssonar og Þórðar Más Jóhannessonar. Það kann að hafa verið þessi sala sem að lokum réð úrslitum um það að Orca-hópurinn náði ekki yfirhendinni í Straumi.

Í Morgunblaðinu 17. ágúst í sumar birtist frétt sem hófst svona: "Sjóvá-Almennar tryggingar hf. keyptu í gær hlutabréf að nafnverði 150.769.214 krónur í Fjárfestingarfélaginu Straumi hf., sem svarar til 5,376% hlutar. Sjóvá-Almennar tryggingar áttu ekki hlutabréf í Straumi fyrir þessi viðskipti."

Jón Ásgeir Jóhannesson og Þorsteinn Már Baldvinsson sjá á þessu stigi að leiknum er lokið, efnislega verður ekki staðið við samninginn sem Jón Ásgeir gerði við Árna Tómasson tæpum tveimur mánuðum áður, þótt tæknilega sé bankanum stætt á því að segja að hann hafi staðið við samninginn, og nú liggur fyrir að þeir munu ekki njóta þess stuðnings sem þeir höfðu reiknað með að þeir fengju af hlutabréfum Kers í Straumi og það verður að samkomulagi á milli þeirra og Íslandsbanka, að þeir verði keyptir út úr bankanum og út úr Straumi. Þeir samþykktu að selja bankanum hluti sína þriðjudaginn 20. ágúst, sama dag og halda átti hluthafafundinn í Straumi.

Tilkynning um ákvörðunina var gefin út viku síðar: "Íslandsbanki tryggir sölu á bréfum Orca-hópsins, 15,5%, eða þeirra sem þá mynduðu Orca-hópinn, Jón Ásgeir Jóhannesson, með 5,75% hlut og Þorsteinn Már Baldvinsson með 5,75% hlut, Einar Örn Jónsson með 4% hlut. Auk þeirra selja Sjöfn og Krossanes tæplega 4% hlut, Ingibjörg Pálmadóttir 1,3% hlut og Ovalla Trading 1,3% hlut. Samtals eru viðskiptin sem Íslandsbanki gerir við ofangreinda 2.178 milljónir króna á nafnverði á genginu 5,175. Sömu aðilar áttu samtals 21,79% í Straumi og selja þeir Íslandsbanka þann hlut fyrir liðlega tvo milljarða króna."

Hluturinn sem seldur var í Straumi, samtals 21,79%, var seldur á genginu 3,21, en aðeins örfáum dögum áður hafði Íslandsbanki verið reiðubúinn til þess að kaupa hlutinn fyrst á genginu 3,05 og skömmu síðar 3,07. Seljendurnir fengu því metverð fyrir hlut sinn í Straumi og segjast vera ánægðir með það á hvaða gengi Íslandsbanki sölutryggði eign þeirra.

Stríðinu lokið?

Flestir telja að þarna hafi valdabaráttunni um Straum og þá auðvitað Íslandsbanka í raun og veru lokið og að Orca-hópurinn hafi endanlega lotið í lægra haldi. Þeir Jón Ásgeir og Þorsteinn Már játuðu sig sigraða hinn 20. ágúst í sumar með því að selja öll sín bréf í báðum félögunum.

Sú eitilharða og oft á tíðum hatramma barátta um völdin í þessum félögum, sem fjallað hefur verið um í greinunum sem hér hafa birst, hefur orðið til þess að í dag eru fylkingarnar í viðskiptalífinu mun sýnilegri og skarpari en þær hafa verið árum saman. Menn sem stjórna fyrirtækjum eins og Eimskip, TM, Sjóvá, Skeljungi, SH og Íslandsbanka eru ekkert feimnir við að viðurkenna mikið og náið samstarf og að þeir muni beita öllum tiltækum ráðum, sem þeir hafa hverju sinni, til þess að koma í veg fyrir óvinveittar yfirtökur á eigin félögum og félögum þeim tengdum.

Þeir sem hafa reynt að berjast til valda og áhrifa í óþökk þessara afla, Orca-hópurinn og aðilar honum tengdir, eru brenndir eftir þessa baráttu og segja það fullum fetum, að eini lærdómurinn, sem þeir hafi dregið af baráttu undanfarinna þriggja ára, sé sá, að þegar óæskilegir menn eða hópar, óæskilegir að mati ráðandi afla í stjórnmálum og viðskiptum, ætli sér stóra huti í íslensku viðskiptalífi helgi tilgangurinn meðalið í þeirri viðleitni að stöðva þá. Þá þurfi orð ekki að standa eða samningar að halda. Allt sé leyfilegt til þess að stöðva suma, sem sé harðbannað, ósiðlegt og jafnvel ólöglegt gagnvart öðrum.

Það ofurafl sem Orca-hópurinn beitti, einkum þeir Jón Ásgeir og Þorsteinn Már og samstarfsmenn þeirra, við yfirtökutilraunir á Íslandsbanka, Tryggingamiðstöðinni og Straumi var ógn sem bregðast þurfti við að mati þeirra sem reyndu að verjast yfirtökutilraununum. Þeir gerðu sér það ljóst, að aðeins með órofa samstöðu gætu þeir varist. Gamli Kolkrabbinn er því glaðvakandi á nýjan leik og engar vísbendingar um að hann muni sofna á verðinum í bráð.

Eftir Agnesi Bragadóttur