Ólafur Örn Haraldsson
Ólafur Örn Haraldsson
ÓLAFUR Örn Haraldsson alþingismaður tilkynnti í gær að hann hygðist hætta þingmennsku en Ólafur hefur verið alþingismaður síðan 1995.

ÓLAFUR Örn Haraldsson alþingismaður tilkynnti í gær að hann hygðist hætta þingmennsku en Ólafur hefur verið alþingismaður síðan 1995.

Hann sendi frá sér yfirlýsingu um málið, en þar segir: "Ég hef ákveðið að hætta þingmennsku næsta vor og mun því ekki bjóða mig fram á lista Framsóknarflokksins í næstu þingkosningum.

Þrjár ástæður eru fyrst og fremst fyrir þessari ákvörðun.

Fyrst er þar til að taka að ég hef alltaf viljað skipta lífsferli mínum í áfanga þar sem hver hluti starfsævinnar gæfi áhugaverð og krefjandi viðfangsefni. Þingmennskan er einmitt slíkur kafli sem hefur gefið mér ómælda reynslu og ánægju. Tel ég að ég hafi getað látið eitthvað gott af mér leiða í þessu starfi sem mér hefur verið treyst fyrir. Nú er komið að því að leggja í næsta áfanga hver sem hann kann að verða.

Í annan stað snýr ákvörðun mín að fjölskyldu- og einkahögum og áhugamálum.

Í þriðja lagi finn ég áhuga meðal borgarbúa að stjórnmálaflokkar bjóði fram ungt fólk í bland við þá sem eldri eru á þingi. Ég vona að ákvörðun mín geti greitt þeim sjónarmiðum leið inn á framboðslista Framsóknarflokksins ef félagsmenn kjósa að svo verði.

Það hefur verið ánægjulegt að starfa fyrir framsóknarmenn á Alþingi og mun ég vinna dyggilega með þeim í kosningabaráttunni. Ég vil þakka þann eindregna stuðning sem ég hef fengið í annað sætið í Reykjavík norður og um leið bið ég félaga mína að virða þessa ákvörðun."

Björn Ingi og Árni Magnússon í framboð?

Á næstu dögum munu uppstillingarnefndir ljúka vinnu við gerð framboðslista í norður- og suðurkjördæmi. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins þykja þeir Björn Ingi Hrafnsson, skrifstofustjóri Framsóknarflokksins, og Árni Magnússon, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, líklegastir til að skipa annað sætið í Reykjavíkurkjördæmunum. Ekki mun þó frágengið hvor þeirra verður í framboði í norðurkjördæmi og hvor í suðurkjördæmi. Mun það skýrast á allra næstu dögum.