23. janúar 2003 | Viðskiptablað | 616 orð

Auglýsingar með fótboltahléum

NÆSTKOMANDI sunnudag verður ein helsta sjónvarpsauglýsingaveisla sem haldin er ár hvert í Bandaríkjunum send út, og bíða sjónvarpsáhorfendur sem og auglýsingafólk spennt eftir viðburðinum.
NÆSTKOMANDI sunnudag verður ein helsta sjónvarpsauglýsingaveisla sem haldin er ár hvert í Bandaríkjunum send út, og bíða sjónvarpsáhorfendur sem og auglýsingafólk spennt eftir viðburðinum. Að vísu er hátíðin trufluð inn á milli með sýningu ruðningskappleiks, eða nánar tiltekið úrslitaleik ameríska fótboltans, en áhugasamir reyna að láta það ekki trufla sig.

Talið er að rúmlega 40 milljónir manna komi til með að horfa á leikinn og þá um leið 60 auglýsingar en viðburðurinn er að margra áliti talinn stærsta stundin í auglýsingabransanum í Bandaríkjunum á ári hverju.

Almennt er þó litið á auglýsingarnar sem meira en bara auglýsingar því þær eru taldar endurspegla vel bandarískt þjóðfélag á hverjum tíma. Sem dæmi voru ungir, nýríkir og hrokafullir menn áberandi í auglýsingum þegar Internet-bólan reis sem hæst og í fyrra voru auglýsingarnar litaðar af sterkri þjóðerniskennd og dramatík eftir hryðjuverkaárásirnar á New York, nokkrum mánuðum fyrr.

Talið er að auglýsingarnar núna verði eins og í eðlilegu árferði; frægt fólk í aðalhlutverkum og húmorinn allsráðandi.

Heyrst hefur að sveitasöngvarinn Willie Nelson, sem eitt sinn lenti í útistöðum við skattayfirvöld, verði notaður í ár til að selja fjármálaþjónustu H&R; Block, söngvarinn Ozzy Osbourne mun selja Pepsi og Michael Jordan og Jackie Chan selja stuttermaboli.

Að sögn ABC-sjónvarpsstöðarinnar, sem sendir leikinn út, er meira en 90% af auglýsingaplássi útsendingarinnar þegar selt. Samið er við hvern auglýsenda sérstaklega en markaðsgreinendur áætla að 30 sekúndna auglýsing kosti á bilinu 2-2,2 milljónir Bandaríkjadala. Hækkunin frá fyrra ári nemur 100-300 þúsund Bandaríkjadölum. Í íslenskum krónum talið kosta því hverjar 30 sekúndur frá 160 milljónum upp í 175 milljónir. Til samanburðar má geta þess að 30 sekúndna auglýsing á dýrasta tíma ársins í Ríkissjónvarpinu, í kringum Áramótaskaupið, kostar um 350.000 krónur með vsk., eða einungis 0,2% af verði Super Bowl-auglýsingatímans. Hljómar eins og sannkölluð kjarakaup! Með auglýsingu í Super Bowl færðu aðgang að 40 milljónum sjónvarpsáhorfenda en á Íslandi sitja um það bil 95% þjóðarinnar við skjáinn, eða um 266.000 manns. Sé kostnaður auglýsanda á athygli hvers einstaks áhorfanda reiknaður gróft þá kostar athygli hvers íslensks áhorfanda 1,3 krónur en athygli hvers bandarísks áhorfanda 4,38 krónur.

Að sögn Davids Schmittlein, prófessor við Wharton-háskólann í Pennsilvaníu, borgar það sig að auglýsa í Supar Bowl þrátt fyrir að það sé 30-40% dýrara en eðlilegt getur talist, enda er þetta sá einstaki atburður þar sem auglýsandinn nær til flestra bandarískra neytenda á sama augnablikinu.

Mikið er einmitt spáð og spekúlerað í gildi þess að auglýsa á þessum tíma og trúa margir auglýsendur því að það að auglýsa í Super Bowl sé algjörlega nauðsynlegt ef ætlunin er að skapa sér leiðtogahlutverk á markaðnum, eða treysta sig þar í sessi. Sumir auglýsendur borga jafnvel aukalega til að aðrir úr sama bransa og þeir eru í verði útilokaðir frá auglýsingatímanum. En hver er markhópur auglýsenda? Það er ekki alltaf eingöngu hinn almenni neytandi, stundum er verið að reyna að ná athygli annarra aðila sem skipta fyrirtæki máli, s.s. sölufólks, heildsala og eigin starfsmanna, en talið er að fátt sé betra til að láta starfsfólkinu líða eins og það sé að vinna hjá besta fyrirtækinu í bænum en að auglýsa á Super Bowl. Mörg dæmi eru um góðan árangur af auglýsingum á Super Bowl, en einnig hinu gagnstæða, eins og þegar Internet-fyrirtækin voru að reyna að staðestja sig á markaðnum með fokdýrum auglýsingum án þess að eiga innstæðu fyrir því.

Frægasta auglýsingin sem sýnd hefur verið í auglýsingatímum Super Bowl er líklega hin svokallaða 1984 auglýsing þegar Apple-tölvufyrirtækið kynnti Macintosh-tölvuna til sögunnar með auglýsingu sem sýndi unga konu í stuttbuxum og með höfuðband kasta slaghamri að andliti sem átti að tákna "stóra bróður". Jafnframt má nefna góðan árangur Budweiser-fyrirtækisins en það hefur m.a. með vel heppnuðum auglýsingum á Super Bowl skapað sér nútímalega og "svala" ímynd.

tobj@mbl.is

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.