Á bak við Halldór Ragnarsson sést húsið sem Húsanes er að ljúka við að byggja á Framnesvegi 20 en það er hæsta hús Reykjanesbæjar. Leiguíbúðir sem fyrirtækið ætlar að byggja verða í minni húsum, fjögurra til átta íbúða.
Á bak við Halldór Ragnarsson sést húsið sem Húsanes er að ljúka við að byggja á Framnesvegi 20 en það er hæsta hús Reykjanesbæjar. Leiguíbúðir sem fyrirtækið ætlar að byggja verða í minni húsum, fjögurra til átta íbúða.
FASTEIGNAFÉLAGIÐ Þrek ehf., dótturfélag Húsaness ehf. í Keflavík, er að hefja byggingu á íbúðum í Reykjanesbæ til útleigu á almennum markaði. Mun fyrirtækið byggja 32 íbúðir á þessu og næsta ári og stefnir að byggingu fleiri leiguíbúða í kjölfar þess.

FASTEIGNAFÉLAGIÐ Þrek ehf., dótturfélag Húsaness ehf. í Keflavík, er að hefja byggingu á íbúðum í Reykjanesbæ til útleigu á almennum markaði. Mun fyrirtækið byggja 32 íbúðir á þessu og næsta ári og stefnir að byggingu fleiri leiguíbúða í kjölfar þess. Er þetta fyrsta einkafyrirtækið sem ræðst í byggingu íbúða til útleigu í bæjarfélaginu.

Bygging íbúðanna er liður í átaki Íbúðalánasjóðs til að auka við húsnæði á leigumarkaðnum. Til þessa verkefnis veitir sjóðurinn lán á lægri vöxtum en almennt gerist.

Halldór Ragnarsson, framkvæmdastjóri Húsaness ehf., segir að könnun sem gerð var á vegum bæjarfélagsins sýni að það vanti 80 leiguíbúðir í Reykjanesbæ. Það sé grundvöllur þessa framtaks fyrirtækisins.

Vonast eftir uppgangi í bænum

Íbúðirnar verða byggðar í fjögurra til átta íbúða húsum, inni í núverandi byggð. Fyrstu tvö húsin verða á lóðum sem fyrirtækið á að Hafnargötu 50 og Hafnargötu 20. Þar verða tólf fyrstu íbúðirnar. Á næst ári verða síðan byggðar tuttugu íbúðir til viðbótar og er fyrirtækið í viðræðum við Reykjanesbæ um lóðir fyrir þær.

Halldór reiknar með að breiður hópur fólks muni sækjast eftir að leigja þessar íbúðir, meðal annars ungt fólk sem er að hefja búskap og fólk sem er að flytja til bæjarins. Eigendur fyrirtækisins hafa mikla trú á að framundan sé uppgangur í Reykjanesbæ. Bærinn hafi upp á allt að bjóða sem fólk og fyrirtæki þurfi til að setja sig niður. Hann nefnir að framundan sé uppbygging í Helguvík, meðal annars fjölmennur vinnustaður í stálröraverksmiðju, og fyrirtæki séu að byggja yfir sig við Reykjanesbrautina. "Ég er sannfærður um að hér verður uppgangur og fólksfjölgun á næstu árum," segir Halldór.

Fasteignafélagið Þrek er fyrsta einkafyrirtækið sem byggir íbúðir til leigu á almennum markaði en áður hefur bæjarfélagið byggt félagslegar íbúðir og íbúðir fyrir aldraðra. Segir Halldór að þess vegna hafi fyrirtækið ákveðið forskot, þörfin sé fyrir hendi og reiknar hann með að markaðurinn taki vel við þessari nýjung. Þá sé því haldið opnu að selja leigjendum búseturétt, með svipuðum hætti og húsnæðissamvinnufélagið Búmenn sem ekki hafa byggt neitt í Reykjanesbæ.

Viðhaldslitlar íbúðir

Því hefur verið haldið fram að erfitt sé að reka leiguíbúðir, leigan standi ekki undir uppbyggingar- og rekstrarkostnaði. Eigendur Fasteignafélagsins Þreks telja sig geta látið dæmið ganga upp og að þetta verði góður rekstur.

Jóhannes Ellertsson fjármálastjóri segir að lán Íbúðalánasjóðs séu til 50 ára með 4,5% vöxtum. Það létti mjög undir með þeim. Þá séu húsin hönnuð með það í huga að þau þarfnist lítils viðhalds. Sérinngangur verði í allar íbúðir og lítil sem engin sameign. Hann segir að húsin verði byggð úr viðhaldsfríium efnum, litað stál á þaki og veggir steinaðir að utan með marmarasalla. Þá verði innréttingar einfaldar en traustar og gólf flísalögð. "Við munum auðvitað mála reglulega en vonumst til að viðhald verði ekki mikið meira," segir Jóhannes.

Þeir félagar segja þó að betra væri að hafa fleiri íbúðir í svona rekstrareiningu, til dæmis 70 til 80 íbúðir, og að þeir stefni að því að byggja fleiri þegar þessum 32 íbúðum verður lokið.

500 íbúðir á 24 árum

Húsanes ehf. vinnur að ýmsum öðrum verkefnum. Það er að ljúka við byggingu átta hæða fjölbýlishúss að Framnesvegi 20 í Keflavík þar sem eru 22 íbúðir. Húsið sem er skammt frá Flughótelinu er hæsta hús Reykjanesbæjar. Halldór segir að búið sé að selja meira en helming íbúðanna og fólkið sé að flytja inn. Þá berist margar fyrirspurnir þessa dagana þannig að hann hann býst að þær íbúðir sem eftir eru seljist í vetur.

Húsanes hefur einnig fyrir skömmu lokið smíði á tólf parhúsum við Gígjuvelli í Keflavík. Um þessar mundir er að hefjast smíði átján félagslegra leiguíbúða sem Húsanes ehf. byggir fyrir Reykjanesbæ.

Eins og sést á þessu sérhæfir Húsanes sig þessi árin við að byggja íbúðarhúsnæði, ýmist fyrir eigin reikning eða fyrir bæinn. Allar íbúðirnar eru inni í núverandi byggð. Halldór Ragnarsson segir að fyrirtækið hafi lagt mesta áherslu á að kaupa lóðir og byggja á þeim til að þétta byggðina. Með því séu þeir að þjóna því fólki sem vilji búa í grónum hverfum. Aðrir hafi annast uppbygginguna í útjaðrinum, til dæmis Grænási.

Á þeim 24 árum sem Húsanes hefur starfað hefur fyrirtækið byggt hátt í 500 íbúðir í Reykjanesbæ. Meginhluti þeirra hefur verið byggður fyrir eigin reikning og seldur á almennum markaði. Ef fjórir búa í hverri íbúða að meðaltali hafa eigendur fyrirtækisins séð 2.000 manns fyrir húsnæði á þessum árum.

Þeir hafa einnig tekið að sér fjölda tilboðsverka á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu, byggt grunnskóla, leikskóla, aðrar opinberar bygginar og atvinnuhúsnæði.

Eigendur fyrirtækisins, auk Halldórs, eru Margeir Þorgeirsson verkefnisstjóri sem verið hefur með honum frá upphafi og Jóhannes Ellertsson fjármálastjóri.