Uppdráttur af Steinabæjunum, sem Júlíana Sveinsdóttir gerði eftir fyrirsögn föður síns. Björn bóndi á Löngumýri í Reykjavík taldi vanta tvö hús á uppdráttinn.
Uppdráttur af Steinabæjunum, sem Júlíana Sveinsdóttir gerði eftir fyrirsögn föður síns. Björn bóndi á Löngumýri í Reykjavík taldi vanta tvö hús á uppdráttinn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
SVEINN Jónsson fæddist að Steinum undir Eyjafjöllum þann 19.
SVEINN Jónsson fæddist að Steinum undir Eyjafjöllum þann 19. apríl 1862 og ólst þar upp og á Leirum hjá foreldrum sínum, Jóni bónda á Steinum og Leirum Helgasonar (þar Guðmundssonar í Kálfhaga í Flóa Jónssonar í Hreiðurborg Þórðarsonar í Litlugötu á Eyrarbakka Þórissonar þar Benediktssonar) og konu hans Guðrúnar Sveinsdóttur Ísleifssonar frá Skógum Jónssonar í Selkoti Ísleifssonar á Lambafelli Magnússonar.

Sveinn fluttist 8 mánaða að Leirum, en síðan fluttist fjölskyldan aftur að Steinum, þegar hann var 12 ára (Þórður safnvörður á Skógum telur hann líka alinn upp að einhverju leyti í Berjanesi).

Nýlega fermdur fer Sveinn til sjóróðra í Vestmannaeyjum og átti "að ganga með skipum", því hann var óráðinn. Átti hann þar illa vist í Sjólyst, húsi, sem Guðmundur Diðriksson átti. Gekk hann fyrir formenn á hverjum morgni og bað um skiprúm, sem losnað hefði þann daginn vegna forfalla. Sveinn dró 120 fiska yfir vertíðina og var helmingurinn hlutur hans.

Hann réri 6 vertíðir í Vestmannaeyjum, var fiskinn, en sjóveikur og það svo, að hann sagði mér ungum, að stundum hefði hann beðið Guð að láta ekki bíta á hjá sér, því það væri svo erfitt að fást við þann gula sjóveikur. Árið 1883 heldur Sveinn til Reykjavíkur og á þar athvarf hjá Ólafi gullsmið Sveinssyni (1849-1915) í Austurstræti 5 (þar sem nú er Búnaðarbankinn) móðurbróður sínum. (Ólafur var faðir Georgs bankastjóra og langafi Georgs verðlagsstjóra). Hefur nú Sveinn trésmíðanám hjá Þorkatli Gíslasyni trésmíðameistara, Tjarnargötu 6, hér í borg. Lauk hann því námi 1886.

Strax að námi loknu sumarið 1886 heldur hann austur að Núpakoti undir Eyjafjöllum og reisir þar hús ásamt öðrum fyrir bændahöfðingjann Þorvald Björnsson að Þorvaldseyri. Þann 12. nóvember 1886 gengur hann að eiga Guðrúnu Runólfsdóttur smiðs frá Maríubakka Runólfssonar.

Árið 1887 heldur Sveinn svo til Vestmannaeyja, því þar hugði hann gott atvinnu að leita, því eini smiðurinn í Eyjum hafði drukknað. Síðan starfar hann að trésmíðum og annarri byggingarvinnu í ellefu ár, en flytur brott 1898. Hann tók m.a. að sér að mála hús fyrir Þorstein lækni, en þegar Gísli Johnsen bað hann að koma fyrir salerni á svefnhæð húss síns, Breiðabliks, þá svaraði Sveinn Jónsson: "Ég skal gera allt fyrir þig Gísli minn, sem þú biður mig um, nema að búa til kamar á 2. hæðinni." Pípulagningarmenn voru þá óþekkt stétt, svo trésmiðir áttu að gera alla hluti, sem að húsbyggingunni laut. 1898 er Sveinn kominn til Reykjavíkur að vinna við Miðbæjarbarnaskólann undir yfirstjórn Jóns Sveinssonar húsasmíðameistara, Pósthússtræti 14 B. Árið 1899 skilur Sveinn við Guðrúnu Runólfsdóttur og flytur alfarinn til Reykjavíkur.

Þannig segir í kynningarriti Stórstúkunnar á Sveini Jónssyni:

"Nokkru síðar, árið 1900, byggði hann sér hús í Þingholtsstræti, og var það þá eitthvert fegursta hús bæjarins. Þessi húsbygging hans, ásamt lóðarkaupum, er hann gerði þá, hleypti miklum vindi í segl hans. Reykvíkingar sáu, að hér var smekkvís yfirsmiður, og síðan hafa þeir, er hafa reist sér fögur hús, reynt að fá uppdrætti hjá Sveini, og beðið hann að sjá um bygginguna. En lóðarkaupin urðu til þess, að Sveini Jónssyni græddist fé, og er hann nú, sökum lóða og húsa sinna, orðinn ríkur maður að vorum mælikvarða." Í afmælisviðtali við Svein á 75 ára afmæli hans, 1937, segir hann svo frá: "Ég nam aldrei teikningu. Ég lagði niður fyrir mér, hvernig húsin skyldu vera, en það sem ég teiknaði var tekið gott og gilt." Húsin þóttu lagleg, til dæmis húsið, sem Jóhannes Jóhannesson á nú við Suðurgötu 4, Halbergshúsið við Laufásveg (nr. 9) og Ingólfshús (það brann). "Ég hefði viljað smíða öll þín hús," sagði Rögnvaldur arkitekt Ólafsson. Þann 3. október 1901 má segja að þáttaskil hafi orðið í lífi Sveins Jónssonar, því þann dag gengur hann í Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík, en það hafði verið stofnað 3. febrúar 1867 af 31 handiðnaðarmanni. Hann gerðist einn af stofnendum Sjúkrasjóðs Iðnaðarmanna og lengi gjaldkeri sjóðsins.

Hann stofnaði 25. febrúar 1904 hlutafélagið Völund ásamt 39 öðrum trésmiðum og fór til Danmerkur ásamt framkvæmdastjóra Völundar hf. Magnúsi Th.S. Blöndal, til vélakaupa. Sat hann í stjórn Völundar hf. í áratugi.

Hann gerðist mikill áhugamaður um sögu Ingólfs Arnarsonar landnámsmanns. Tildrög þess voru þau, að hann var nokkrum sinnum beðinn að mæla fyrir minni Reykjavíkur á samkomum Iðnaðarmannafélagsins og fór þá að grúska í ýmsu, sem um Reykjavík hafði verið ritað og fékk smám saman meiri áhuga fyrir Ingólfi.

Er rit hans um Ingólf Arnarson til í tveim eintökum (handrit), annað er í Landsbókasafninu, hitt í Borgarskjalasafni. Mun Sigurður Benediktsson blaðamaður hafa aðstoðað hann við þetta verk. Hann fór ásamt Elínu Magnúsdóttur konu sinni og Júlíönu dóttur sinni til Dalsfjarðar á Fjölum, en það er fæðingarstaður Ingólfs Arnarsonar. Hann skildi ekki við Ingólf, fyrr en hann "kom honum á Arnarhól", eins og hann kemst að orði í afmælisviðtalinu í Vísi, 19. apríl 1937.

Iðnaðarmannafélagið beitti sér fyrir því, að reist var styttan, sem Einar Jónsson gerði og nú trónir efst á Arnarhóli. Sveinn var í Ingólfsnefndinni, sem stóð fyrir fjársöfnun í sambandi við gerð styttunnar, en hún var afhjúpuð 24. febrúar 1924.

Með stofnun veðdeildar við Landsbanka Íslands árið 1900 og við stofnun Íslandsbanka árið 1903 batnaði mjög öll aðstaða til húsbygginga, því nú fengust veðdeildarlán hjá bönkunum og hafði Sveinn á fyrsta tug aldarinnar mikil umsvif og það svo, að um tíma var hann með 17 hús í smíðum, öll fyrir eigin reikning.

Svo rífleg voru veðdeildarlánin, að í sumum tilfellum hafði hann afgang, þegar búið var að selja veðdeildarbréfin.

Sveinn situr í bæjarstjórn Reykjavíkur 1908-10 og lengi sat hann í Byggingarnefnd Reykjavíkur. Sveinn Jónsson var mikill bindindismaður og gerðist einn af stofnendum stúkunnar Verðandi nr. 9 þann 3. júlí 1885. Hann var gerður að heiðursfélaga í Stórstúku Íslands. Hann hafði mikil afskipti af kaupum templara á Hótel Íslandi og rekstri þess.

Sveinn hafði mikil afskipti af stjórnmálum, var í stjórn stjórnmálafélagsins Fram, var í Heimastjórnarflokknum og síðast í Sjálfstæðisflokknum. Eftir að hann hætti í húsbyggingum á kreppuárunum fyrir fyrri heimsstyrjöldina, tók hann að versla með veggfóður, rósettur og gipslista í kjallara húss síns, Kirkjustrætis 8 B. Hét verslun hans Sveinn Jónsson & Co.

Jóhann hét maður Guðlaugsson, veggfóðrari að atvinnu. Sá vann oft fyrir Svein. Eitt sinn hringir hann í Jóhann og biður hann að veggfóðra fyrir sig eftir hádegi á laugardegi. Jóhann telur sig vanbúinn að verða við beiðni þessari, því hann sé að gifta sig kl. 14 þennan laugardag. "Jæja, þá verður að hafa það," segir Sveinn. Þegar þau hjónin koma heim frá vígslunni beið þeirra kaffistell fyrir 12 frá Sveini Jónssyni. Jóhann þessi dúklagði síðan fyrir dóttur mína Lilju og var það 4. kynslóðin, sem hann vann fyrir af þessari ætt. Þegar frændi minn spurði Jóhann, af hverju hann tæki ekki uppmælingartaksta af Lilju, þá svaraði Jóhann: "Ekki af þessu fólki." Stellið góða var búið að skila sér vel, það var víst.

Um sjötugt hættir Sveinn allri umsýslu, nema hvað hann reisir sér hús að Skeggjagötu 2. Ekki undi hann þar lengi, því allt of langt var niður í bæ, þar sem hann undi gjarnan við kaffidrykkju að Hótel Íslandi. Seldi hann því hús sitt að Skeggjagötu rétt fyrir stríðið 1939 og gerðist leigjandi hjá Þuríði Bárðardóttur ljósmóður á 1. hæð að Tjarnargötu 16. Þar var stutt á Hótel Ísland og stutt í Tjarnargötu 36 til Sveins Magnúsar sonar hans. Nú brann Hótel Ísland árið 1944 og flutti hann sig þá að Hótel Borg. Tekur nú að halla undan fæti með heilsuna og eitt sinn er ég hitti hann, segi ég: "Afi minn, hvernig líður þér núna?" "Ekki vel," svarar gamli maðurinn, "en manni verður stundum að líða illa, til að kunna að meta það, þegar manni líður vel." Viturlega mælt, það.

Loks fór svo að heilsan þraut alveg, hann andaðist 13. maí 1947.

Sveinn Jónsson var fjórkvæntur:

1. kona hans var Guðrún Runólfsdóttir, þau gengu í hjúskap eins og áður segir þann 12. nóvember 1886. Þau eignuðust 5 börn, er lifðu:

1. Sigurveig Guðrún, f. 10. janúar 1887, dáin 21. mars 1972, húsfrú.

2. Júlíana listmálari, f. 31. júlí 1889, dáin 17. apríl 1966.

3. Sveinn Magnús, f. 17. október 1891, dáinn 23. nóvember 1951, forstjóri í Reykjavík.

4. Ársæll, f. 31. desember 1893, dáinn 14. apríl 1969, útgerðarmaður í Vestmannaeyjum.

5. Sigurður, f. 16. nóvember 1898, dáinn 29. júní 1964, kaupmaður í Vestmannaeyjum.

Eigi báru þau Sveinn og Guðrún gæfu til samþykkis og skildu þau, er Sigurður litli var 40 vikna (haustið 1899 - heimild Júlíana Svd.).

2. kona hans var Guðrún Guðmundsdóttir, ekkja frá Gufunesi, bónda á Keldum Brynjólfssonar. Þau gengu í hjúskap 18. ágúst 1907, en skildu eftir 3 mánuði (heimild Júlíana Svd.).

3. kona var Elín Magnúsdóttir trésmiðs í Reykjavík Árnasonar. Hjónavígslan fór fram 8. júní 1918. Elín dó 10. ágúst 1933 og varð öllum harmdauði, því hún var valmenni hið mesta. Elín, f. 12. ágúst 1877.

4. kona var Guðlaug Teitsdóttir bónda á Stóru-Drageyri í Skorradal Erlendssonar. Gengu þau í hjúskap 18. maí 1935. Guðlaug var fædd 10. júní 1904, en dó 8. nóvember 1974.

Þrátt fyrir 42 ára aldursmun reyndist hjónaband þeirra hið farsælasta, Guðlaug útlærð hjúkrunarkona og bjó manni sínum hið fegursta heimili. Var hún vakin og sofin yfir velferð hans, þar til yfir lauk 13. maí 1947. Banamein hans var lungnabólga.

Sveinn Jónsson var mikill bókasafnari, en safnið óx honum yfir höfuð, þannig að hann seldi söfn sín þrisvar sinnum, en byrjaði ávallt upp á nýtt. Sveinbjörn Jónsson hrl. sagði mér frá því, að þegar hann var fulltrúi hjá bæjarfógetanum í Reykjavík, þá hafi hann boðið upp safn Sveins skv. ósk hans. Tók uppboðið 5 daga. "Þar sem bókamenn eru mjög málgefnir, kom fyrir að kliður væri mikill í Bárubúð, þar sem boðið var upp. Þá gaf ég 10 mínútna kjaftahlé, en þá móðguðust karlarnir og þögðu" sagði Sveinbjörn. Að lokum átti hann aðeins eftir úrvalsbækur, flest torfengnustu rit íslensk. Allar þær bækur gaf hann Vestmannaeyjabæ og eru þær þar í sérstökum skáp í Bókasafni Vestmannaeyja og til sérprentuð skrá um bókagjöfina. Þannig skildi hann við bæinn, sem hafði fóstrað börn hans svo vel. Skólaganga Sveins var hinsvegar með þeim alstytstu: "Svo var ég hjá honum Sigurði Sæmundssyni þrjú rökkur og eina kvöldvöku að læra reikning og er það allur minn skólagangur." (Úr fyrri Lesbókargreininni.)

En hvernig maður var Sveinn Jónsson? Í minningargrein um hann 20. maí 1947 í Mbl. kemst ritstjórinn Valtýr Stefánsson þannig að orði: "Sveinn Jónsson hafði lifað allt framfaratímabil þjóðarinnar, allt frá því þjóðin var efnalaus, valdalaus og ráðalaus og fram til þeirra tíma, er við höfðum fengið fullt sjálfstæði og vorum orðnir bjargálna.

Hann hafði sjálfur brotist áfram úr fátækt til efna, með dugnaði og fyrirhyggju, og þeirri bjartsýni sem ávallt einkenndi hann í öllu félagslífi hans og samstarfi við aðra. Hann var raunsær maður í athöfnum sínum, þegar um atvinnu og fjármál var að ræða.

En í félagsmálum og menningarmálum var hann örgeðja hugsjónamaður, er hafði óbilandi trú á því, að það myndi sigra, sem til frama horfir og blessunar fyrir land og lýð.

Í hópi félaga og góðra kunningja var Sveinn síkátur og glaður. Þegar hann þurfti að koma einhverju til leiðar, innan þeirra félagssamtaka, sem hann vann fyrir, var það tíðum mesti styrkur hans, hve vel honum tókst að koma öðrum í gott skap. En það leyndi sér ekki að á bak við kæti hans og spaugsyrði var djúp alvara manns, sem vissi hvað hann vildi og þekkti ekki síður alvarlegar hliðar tilverunnar."

Ég var 19 ára, þegar afi minn dó, svo ég man hann mjög vel og þótti ákaflega vænt um hann. Hann hafði þennan smitandi hlátur eða þetta jákvæða útstreymi, að hvar sem hann kom, þá nötraði allt af kæti. Nelly Pétursdóttir, (1903-1981) húsfreyja á Miðhúsum í Álftaneshreppi, sagði mér frá því, að hún hafði starfað í eldhúsi mötuneytis þess, sem rekið var í Iðnó snemma á öldinni. Hún sá ekki matargestina, þegar þeir gengu inn í matsalinn, en hún vissi alltaf upp á hár, hvenær Sveinn Jónson var kominn, því þá varð allt vitlaust af hlátri um leið.

Henrik Ibsen segir á einum stað í verkum sínum :

"Han havde stor anlæg til att bli gla." Það mátti segja um Svein.

Kunningi minn einn Jón P. Jónsson húsgagnaframleiðandi í Gamla Kompaníinu sagði mér frá því, að Sveinn hafði verið spilafélagi föður síns og Þorvarðar prentara. Þeir spiluðu lomber. Það fór ekki fram hjá neinum á heimilinu, þegar Sveinn Jónsson var kominn. Þá sagði Jón P. við bræður sína: "Flýtum okkur niður, káti kallinn er kominn."

En hann gat líka verið harður í horn að taka og stjórnsamur, og það svo að lægi við harðstjórn og notaðist þá gjarnan við boðhátt og er það ættarfylgja. En enginn er fullkominn, hvorki Sveinn Jónsson né afkomendur hans.

Síðustu orð hans við mig skömmu fyrir andlát hans voru þessi: "Allt sem hefur orðið mér til gæfu í lífinu á ég móður minni og fyrirbænum hennar að þakka. Það var oft þröngt í búi hjá okkur á Steinum, við vorum oft svöng systkinin, en stöðugur straumur nauðleitarfólks var um Steinabæina, sérstaklega á harðindaáratugnum 1880-90. Móðir mín vék oftast einhverju að þessu fólki, en eitt sinn ofbauð vinnukonu á Steinum örlæti móður minnar og mælti: "Þér mun hefnast fyrir þetta Guðrún Sveinsdóttir, að taka matinn frá svöngum börnum þínum og gefa þessum flökkulýð." Þá svaraði móðir mín: "Ef að eitthvað verður börnum mínum til gæfu á lífsleið þeirra, þá verða það einmitt þessir bitar, sem þú telur svo mjög eftir."

Sveinn Jónsson hefði örugglega viljað gera orð sr. Matthíasar að sínum:

"Því hvað er ástar og hróðrar dís

og hvað er engill úr Paradís

hjá góðri og göfugri móður."

Heimildir:

Brynleifur Tobíasson: Hver er maðurinn?

Gísli Jónsson: Saga Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík.

Br. Sveinn Jónsson: Kynningarrit Stórstúku Íslands.

Valtýr Stefánsson: Minningargrein um Sv. J. í Mbl. 20. maí 1947.

Pétur Zophaníasson: Sveinn Jónsson 75 ára, Mbl. 18. apríl 1937.

Vísir: 19. apríl 1937, Sveinn Jónsson 75 ára eftir "a", viðtalsþáttur.

Sunnlenskir sagnaþættir, Gunnar S. Þorleifsson, Bókaútgáfan Hildur 1981, þar sem eru á bls. 14-55 greinar eftir Svein Jónsson um sjóferðir undir Eyjafjöllum og Vestmannaeyjum.

Sveinn Jónsson: Íslenskt sveitaþorp á 19. öld - Steinar undir Eyjafjöllum. Í Lesbók Morgunblaðsins 2. sept. 1928.

Sveinn Jónsson: Á Goðalandi, í Lesbók Mbl. 16. mars 1930 og 23. mars 1930.

Hörður Ágústsson: "Íslensk byggingararfleifð I. Ágrip af húsagerðarsögu 1750-1940", bls. 153-156. Útgefandi Húsafriðunarnefnd ríkisins, Reykjavík 1998.

Eftir Leif Sveinsson

Höfundur er sonarsonur Sveins Jónssonar og lögfræðingur í Reykjavík.