Stefán Kjærnested framkvæmdastjóri og Kristinn Kjærnested sölustjóri eru bjartsýnir fyrir hönd Atlantsskipa.
Stefán Kjærnested framkvæmdastjóri og Kristinn Kjærnested sölustjóri eru bjartsýnir fyrir hönd Atlantsskipa.
Á ÝMSU hefur gengið í stuttri sögu þessa unga skipafélags. Guðmundur Kjærnested, bróðir Stefáns, stofnaði það ásamt Bandaríkjamanninum Brandon Rose, skólafélaga sínum úr Babson College í Boston, árið 1998.

Á ÝMSU hefur gengið í stuttri sögu þessa unga skipafélags. Guðmundur Kjærnested, bróðir Stefáns, stofnaði það ásamt Bandaríkjamanninum Brandon Rose, skólafélaga sínum úr Babson College í Boston, árið 1998. Þeir stofnuðu um leið Transatlantic Lines í Bandaríkjunum. Þessi tvö fyrirtæki gerðu, eftir útboð, fimm ára samning við flutningadeild Bandaríkjahers um að sinna vöruflutningum fyrir varnarliðið á Keflavíkurflugvelli.

Fyrirtækin komu upp tveggja skipa flutningskerfi milli Íslands og Bandaríkjanna og sinna nú um helmingi allra flutninga milli Íslands og Bandaríkjanna, en siglt er á tólf daga fresti. Auk þess að flytja vörur fyrir varnarliðið flytja þau almennar vörur. "Á þessu fimm ára tímabili höfum við náð þeirri ætlun okkar að byggja fyrirtækið þannig upp, að það geti staðið á eigin fótum, án samningsins við Bandaríkjaher," segir Stefán.

Stærsta skrefið í þeim tilgangi var stigið í apríl á síðasta ári, þegar Atlantsskip hófu siglingar til Evrópu. Fyrirtækið hefur yfir einu skipi að ráða, sem fer á milli Esbjerg í Danmörku, Rotterdam í Hollandi og höfuðstöðva Atlantsskipa í Kópavogi, á tíu daga fresti. Með þessu skrefi voru Atlantsskip farin að bjóða upp á sambærilega þjónustu við keppinautana hér heima, Eimskip og Samskip. "Við erum með tíðustu siglingarnar til Bandaríkjanna og stysta siglingartímann frá Rotterdam, sem er lykilhöfn fyrir okkur Íslendinga; tengihöfn við Asíu og Suður-Evrópu. Við erum fjóra daga að sigla frá Rotterdam en keppinautarnir eru 6-7 daga," segir Kristinn.

Samningurinn við herinn rennur út í nóvember. Stefán segir að Atlantsskip og Transatlantic Lines muni taka þátt í nýju útboði. "Við höfum fengið fleiri samninga við herinn, m.a. um flutninga milli Jacksonville í Flórída og Guantanamo-flóa á Kúbu. Sá samningur er álíka stór og Íslandssamningurinn," segir Stefán.

5% hlutdeild til Evrópu

Spurðir um hlutfall flutninga fyrir Bandaríkjaher af heildarflutningum segir Stefán að herinn sé langstærsti viðskiptavinurinn á Ameríkuleiðinni, en Evrópuflutningarnir byggist eingöngu á almennum vörum. "Við vorum reyndar að gera samning við Bandaríkjaher um að sinna einnig flutningum fyrir varnarliðið milli Evrópu og Íslands," segir hann. Hann segir að Atlantsskip séu á góðri leið með að ná því markmiði sínu að ná á fyrsta starfsárinu 5% markaðshlutdeild í flutningum til og frá Evrópu, en sem fyrr segir er fyrirtækið með um helming flutninga til og frá Bandaríkjunum. Vöruflutningar frá Íslandi til Bandaríkjanna eru þó langtum minni en til Evrópu.

Stefán segir aðspurður að rekstur fyrirtækisins hafi gengið mjög vel. "Ef við lítum yfir þessi fimm ár er ljóst að við erum í hagnaði. Við höfum verið að byggja fyrirtækið upp af miklum krafti. T.a.m. erum við komin með afar góða aðstöðu hér í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Kópavogi, með góðum tækjakosti. Fyrst og fremst er starfsfólkið fyrsta flokks. Í Bandaríkjunum, hjá Transatlantic Lines, er þessu svipað farið. Þar vinnur mjög gott starfsfólk," segir Stefán og bætir við að óhætt sé að segja að staða Atlantsskipa hafi aldrei verið jafn góð og nú.

Að sögn Stefáns er ársvelta fyrirtækjanna tveggja, Atlantsskipa og Transatlantic Lines, um 20 milljónir Bandaríkjadala. Á núverandi gengi nemur hún rúmlega 1,5 milljörðum króna, en hefur minnkað í íslenskum krónum talið að undanförnu, með hækkandi gengi krónunnar.

Þegar Atlantsskip hófu rekstur voru sem kunnugt er aðeins tvö íslensk skipaflutningafyrirtæki fyrir, Eimskip og Samskip. Kristinn segir að baráttan hafi verið mjög skemmtileg. "Við gerðum okkur alltaf grein fyrir því, þegar við hófum Evrópuflutninga, að við yrðum að standa okkur. En ég held að óhætt sé að segja að við höfum náð að velgja keppinautunum vel undir uggum. Þeir hafa gefið í skyn að við veitum ekki sambærilega þjónustu, en við mótmælum því auðvitað harðlega."

Mótlæti þjappað fólki saman

Stefán segir að eigendur og starfsfólk standi þétt saman. "Þessi barátta hefur, ef eitthvað er, þjappað okkur betur saman. Ég efast um að fyrirtækið væri jafn öflugt og raun ber vitni, hefðum við ekki þurft að berjast á móti straumnum. Sem dæmi má nefna að aðalfjárfestirinn, Brandon Rose, sem ætlaði upphaflega að láta lítið að sér kveða í rekstrinum, hefur verið mun atkvæðameiri en ella hefði orðið," segir Stefán, "núna er hann að koma á fót, með 300 milljóna króna fjárfestingu, systurfyrirtæki Atlantsskipa, Atlantsolíu, sem hyggst selja olíu á skip og jafnvel opna bensínstöðvar á Íslandi," segir hann.

Atlantsskipum hefur einnig verið legið á hálsi fyrir að nota erlenda starfsmenn á skipum sínum. Stefán segir að Atlantsskip fari eftir lögum og reglum, og hafi alltaf gert. "Ég held að þeir sem hafa haldið þessu fram átti sig ekki á því hvað um er að ræða. Ekki eru þeir að gæta hagsmuna starfsmannanna, því ef þeir gætu fengið hærra kaup annars staðar myndu þeir fara þangað. Ég myndi jafnvel ganga svo langt að segja að þeir væru að vinna gegn hagsmunum almennings, því fyrirtæki eins og Atlantsskip bjóða betra verð en ella, sem skilar sér í lægra vöruverði fyrir neytendur. Eða hærri hagnaði fyrirtækja, sem eru í eigu almennings í landinu. Barátta þessara manna hefur ekki skaðað rekstur fyrirtækisins á neinn hátt og mun ekki gera það," segir Stefán.

ivarpall@mbl.is