15. febrúar 2003 | Menningarblað/Lesbók | 1676 orð

HRINGAVITLEYSUSAGA

Í BLÖÐUNUM um daginn var mynd af tólf manna stjórn sem hafði sett á stofn súkkulaðisjoppu til að bjarga þjóðarverðmætum. Stjórnin sat kotroskin við borð og bak við gluggatjöldin sást að bakhjarlarnir földu sig, sennilega af einskærri hógværð.
Í BLÖÐUNUM um daginn var mynd af tólf manna stjórn sem hafði sett á stofn súkkulaðisjoppu til að bjarga þjóðarverðmætum. Stjórnin sat kotroskin við borð og bak við gluggatjöldin sást að bakhjarlarnir földu sig, sennilega af einskærri hógværð. Stjórnin gerði sér vonin um að þjóðarverðmætin mundu lafa á horninu einsog venjulega þegar þeim er bjargað og þannig hægt að búa til lafafrakka. Það merkilega var að stjórnin hafði öll sömu andlitin og við nánari skoðun sást að hvert andlit hafði tvö andlit. Það andlit er kallað konan í þessari sögu til einföldunar.

Öðru megin í andliti konunnar var draumlynd stúlka, sakleysið uppmálað en hinumegin eldri kona með sektarsvip sem hún breiddi yfir með hvössu yfirbragði. Kannski voru þetta lánsandlit en þau geta skotið svo djúpum rótum að fólk nær aldrei að sýna sitt rétta andlit. Það er helst á hættustundum að það gerist.

En það kviknaði saga um prinessu sem sat alla daga við tjörn og horfði á svan á tjörninni og það mátti ekki tala við hana, þá truflaðist hún. Einn daginn heyrði hún hvin í lofti og sá að hún hafði höggvið höfuðið af svaninum. Hvað hef ég gert? orgaði prinsessan en þegar hún fór að rökræða svona við sjálfa sig heyrði hún rödd sem sagði að hún væri saklaus og hún hefði höggvið höfuðið af svaninum af þeirri ástæðu að hún væri orðin hundleið á þessu svanskjaftæði. Prinsessunni rann kalt vatn milli skinns og hörunds og heyrði ekki betur en hún hefði búið til Norn í sjálfa sig. Nornin skipaði henni að hætta öllum heimspekilegum vangaveltum, hún væri saklaus og gæti haldið áfram að horfa á svaninn. En það er enginn svanur, skrækti Prinsessan. Búðu hann þá til, hvæsti Nornin á móti. Og Prinsessan bjó til nýjan svan en allt fór á sömu lund, Nornin hjó hausinn af svo blóðsletturnar gengu í allar áttir og fiðrið þeyttist langar leiðir. Prinsessan var ekki beinlínis orðin frýnileg. En Nornin játaði sök sína og hvað hún væri leið á þessu en Prinsessan gæti búið til nýjan svan og það gerði hún. Einn daginn var svanurinn orðinn svo rænulaus að hann hengdi haus og Prinsessan að sama skapi þreytuleg, drafandi á tjarnarbakkanum: Hvað á ég að gera? Hífðu upp hausinn og horfðu á hann, hreytti Nornin út úr sér. Prinsessan gerði það en ekki leið á löngu uns Nornin lét höfuðið fjúka. Loks var svanshöfuðið farið að hanga ofan í tjörnina og Prinsessan hálfdottandi á tjarnarbakkanum og meira að segja Nornin svo leið að hún nennti ekki lengur að höggva hausinn af. Búðu til tippi, sagði hún þá. Ég veit ekki einu sinni hvað það er, sagði Prinsessan en Nornin útskýrði það. Allt fór á sömu leið og með svaninn og Prinsessan örmagnaðist á tjarnarbakkanum og sofnaði svo fast að það var engu líkara en hún væri dáin og kannski var hún dáin. En Nornin starði á hana, viðbúin því ef hún vaknaði, það var djöfulóður glampi í auganu og kannski var hún djöfullinn. En tippið maraði í hálfu kafi, tjörnin blóðrauð og fiðruð og yfir öllu vofðu dauðinn og djöfullinn.

Ekki var víst að þetta væru andlit konunnar en svona geta lánsandlitin þróast og orðið gríma á hinu rétta andliti og lokað fyrir uppsprettuna sem hver og einn á fyrir sig. Ef þetta var konan var deginum ljósara að hún var í þeirri klemmu að geta hvorki búið neitt til né eyðilagt það. Það var svo nokkrum dögum eftir að myndin birtist í blaðinu að kona þessi var í ræðustól í þúsund ára gömlum sal að flytja ræðu. Hún horfði dreymandi ofan í blöðin svo erfitt var að greina orðaskil en þegar líða tók á mátti greina þessi þrjú orð stærsti dráttur íslandssögunnar. Þar sem fáir voru í salnum og röddin lág og ógreinileg lá beinast við að halda að þetta væri einhver ómerkilegur dráttur, tildæmis dráttur á íslandssögunni þannig að hún stæði í stað, eða gengi jafnvel afturábak eða að svo stór blettur hefði komið á hana að strokast hefði yfir hana að einhverju leyti en svo var þó ekki því konan var einfaldlega að tala um drátt á einhverju samningaborði. Það var ekki víst að þessi þjóð sem hafði haft mök við álfa, seli og huldufólk, og hvort sem var í brunagaddi eða á mosaþembu í eldgíg, yrði uppveðruð þótt konan í félagi við derhúfuframleiðendur hefðu skakað til borði svo blekið skvettist úr pennunum og blöðin feyktust í allar áttir.

Það virtist líka fylgja þessum ræðustól að enginn gat stigið í hann án þess að vera óðara farinn að veifa íslandssögunni einsog blautri tusku framan í þúsund ára gamalt fólkið sem bjó utan við salinn. Talað var um stærsta hitt og þetta íslandssögunnar einsog hægt væri að lesa það af bókum og án skilnings á því að íslandssagan er í mesta lagi fáein brot einsog kona drap barn sitt í læk og heyrðust þrjú hljóð í lofti í því að lækurinn litaðist rauður eða barn fór á milli bæja og kom ekki fram eða varð úti á víðavangi. Einnig mátti anda að sér sögunni því golan geymdi stunur og hóstakjölt sem hún skilaði stundum mörgum öldum seinna. Eins var um skellihlátur eða niðurbældan grát. Og þótt þetta þúsund ára gamla fólk hefði skrifað nokkra rómana og lifað af nokkrar hraunelfur þá var engin saga í því heldur blákaldar staðreyndir. Sagan er alltaf á milli manna, í augnaráði, raddblæ, handabandi, fjarlægð eða nálægð, þar rís hún og hnígur.

En hafi konan verið lágróma og andlitið dreymandi fóru að renna á hana tvær grímur og eitthvað að togast á í andlitinu svipað og hún væri að rökræða við sjálfa sig og þætti þetta svo óskaplega leiðinlegt að önnur eins leiðindi hefðu ekki leitað uppá yfirborðið. Orðin toguðust út úr henni þegar hún sagði að þetta væri stærsta fróun þjóðarinnar. Að því marki sem íslandssagan er til er hún auðvitað saga þjóðarinnar svo þetta gátu verið rök í málinu. En einsog fyrri daginn var útlit fyrir að konan hefði ekki glóru um hvaða reynslu þjóðin hefði í þessum efnum. Menn höfðu dottið ofan í gjótu á leið í verið og áttu engan annan kost meðan dauðinn ákallaði þá, menn sem biðu þess að gæfi á sjó eða meðan mál þeirra velktist fyrir dómstólum, meðan þeir lásu ættartölurnar í njálu, keyrðu hvalfjörðinn eða lentu í þeirri seigdrepandi pínu að þurfa að slökkva á farsímanum, konur fastar í hugmynd um hinn eina rétta, eða áður þegar þær sátu í festum ef þær gátu komið hendinni við. Þetta þúsund ára gamla fólk vissi því ósköp vel hvað það gat.

En af þessum leiðindasvip konunnar mátti ráða að þessi þúsund ára gamli salur væri orðin sjoppa þar sem hangið væri með veggjum. Og konan eitthvað að dingla sér meðan hún beið eftir að komast heim, fitla við sælgætið eða kannski lesa í gömlu sjoppuriti og fletti í því fram og aftur af einskærum leiðindum. Samt hafði ræðan verið auglýst sem hennar sérstaka númer enda skellti hún skyndilega aftur bókinni á orðunum orðstír deyr aldregi og dembdi því yfir landslýðinn að auðvitað vissi hún hvernig þjóðin hefði beðið dauðans og djöfulsins í þúsund ár og ekkert annað við að vera en gera það sjálf. En þeir væru nú loksins komnir og þau tímamót handan við hornið að þjóðin þyrfti ekki að gera það sjálf, það stæði til að fróa henni í hennar nafni. Sjálf ætlaði hún að ríða á vaðið, opna lúgu á sjoppunni og stinga sér út til að leyfa fyrst djöflinum að toga í og síðan dauðanum.

Á þessu andartaki rann það upp fyrir konunni að hún var tippi. Henni fipaðist svo að hún hamaðist um stund á þessu stærsta íslandssögunnar en gerði sér um leið grein fyrir að sál hennar hafði flúið í svaninn og síðan í tippið til að losna undan rökræðum Prinsessunar og Nornarinnar. Sjálf væri hún tjörn eða uppspretta sem speglaði hennar rétta andlit og hún yrði að kynnast án þess að líma á sig ævintýrafígúrur sem í mesta lagi voru til skemmtunar en ekki persónuleikabreytingar. Það var semsagt runnin upp hættustundin og hennar eigin rödd sagði hættu á stundinni. En þar sem rökræðugöngin voru hrunin fannst henni hún þyrfti að rífa af sér andlitið svo blóðið slettist í allar áttir eða rífa blöðin og láta þau þyrlast í loftinu en fannst hún þá skolast burt með jökulfljóti og lemjast milli gljúfraveggja og vissi að hún þyrfti bara að trúa salnum fyrir því að hana langaði mest af öllu til að horfa ofan í tjörnina sína, og jafnvel gretta sig og geifla einsog þjóðin hafði skemmt sér við frá aldaöðli. En hún var svo hrædd við að gera sig að fífli að hún gerði sig að fífli sem hún hélt að dauðinn og djöfullinn mundu slíta upp enda gerðu þeir það. Hún stirðnaði upp og lamaðist í senn og þekkti bara eina leið út úr því ástandi sem var að redda þessu einhvernveginn. Hún greip í einu orðin sem hún mundi úr ræðunni sem voru lúga á sjoppunni, einsog þau væru einu orðin í heiminum og svo upphófst einhver himnaríkisdella um stærsta bissniss sjoppunnar. Enginn vissi hvaða bissniss þetta var því hún minntist ekki orði á þrjár merkur silfurs í njálu, marsjallaðstoðina, genaaðstoðina, afborganir af sófasettum, hlutabréfakaupin í stók eða von næt stand in reykjavík. En bunaði óðamála út úr sér og eftir því móð og másandi að þetta væri súkkulaðisjoppa og þareð búið væri að selja alla súkkulaðifiskana og súkkulaðikindurnar væri ekkert eftir nema selja súkkulaðifossana. Til þess þyrfti að selja súkkulaði-íslandið. Ef eitthvað færi úrskeiðis væri til mótleikur, það var að bræða meira súkkulaði og selja súkkulaðifrontinn þótt það væri viðbúið að hann mundi bráðna af í þessu helvíti. Hún sagðist hafa mismælt sig, það væri sjoppustjórn. En það skipti ekki máli, hún vissi að fyrir utan hlykkjuðust langar raðir sem vildu kaupa súkkulaðifossana. En konan gerði sér ekki grein fyrir að þjóðin stóð til hliðar við biðröðina, þangað sem henni hafði verið ýtt og var ekki sein á sér að grípa sína fossa. Enda var þessi þjóð of veðurbarin til að hægt væri að hjúpa hana súkkulaði.

EFTIR ELÍSABETU JÖKULSDÓTTUR

Höfundur er rithöfundur.

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.