Fyrsti listamaðurinn sem Sjónarhorninu er beint að er Anna Líndal.
Fyrsti listamaðurinn sem Sjónarhorninu er beint að er Anna Líndal.
Anna Líndal hefur opnað sýningu í nýju sýningarrými í Listasafni Íslands sem hlotið hefur heitið Sjónarhorn. SÚSANNA SVAVARSDÓTTIR ræddi við Önnu um inntak sýningarinnar og útfærslu.

LISTASAFN Íslands hefur tekið tvö ný sýningarrými í kjallara hússins í notkun. Þar býður safnið listamönnum af yngri kynslóðinni að sýna verk sín og hefur þessi vettvangur fengið nafnið Sjónarhorn. Verkin sem sýnd verða eru ýmist í eigu listamannanna eða í einkaeign, en eitt af markmiðum Sjónarhornsins er að varpa ljósi á áhugaverð verk og kynna þau í samvinnu við listamennina sjálfa.

Fyrsti listamaðurinn sem Sjónarhorninu er beint að er Anna Líndal. Sýnir hún fimm verk og þar af þrjú sem sérstaklega eru unnin fyrir þessa sýningu. Hin verkin eru Jaðar, vídeóskúlptúr frá 1999-2000 og Jöklakúrekar, videóverk frá árinu 2002.

Jaðar er heitið á elsta verki Önnu á sýningunni, en þar teflir hún saman heimilinu og náttúrunni. Heimilið er verndarhjúpur sem öllum er eiginlegt að koma sér upp en Anna hefur kafað undir yfirborðið og komist að því að jafnvel inni á heimilinu getur náttúran skipað stóran sess.

Ánægjan er drifkrafturinn

Nýjasta verkið á sýningunni ber heitið Hundur, kona, úlfur og gíll. Anna segir það verk vera í ákveðnu framhald af því sem hún hefur áður unnið með. "Ég hef notað heimilisáhöld og aðra heimilistengda hluti, sem eru á heimilinu hjá mér, þannig er efniviðurinn í þessum nýja skúlptúr eru föt sem ég er hætt að nota en eru of heil til að henda - og föt sem eru orðin of lítil á börnin," segir hún og bætir við: "Hundurinn er til dæmis samsettur úr einni úlpu og hettupeysu.

Síðan er ég með sjálfstætt verk sem er inni í þessum skúlptúr, því hundurinn og konan eru að horfa á það."

Það hefur löngum verið tilhneiging hér að meta myndlist út frá sölumöguleikum - en innsetningar eru sjaldnast söluvara. Hvað er það sem hvetur myndlistarmenn eins og þig til þess að halda áfram?

"Drifkrafturinn á bak við mín verk er ánægjan sem ég hef af því að búa þau til. Myndlistin hefur alltaf verið eins og félagi fyrir mig. Þetta er heimurinn sem mér finnst mjög gaman að dvelja í.

Ég viðurkenni að þetta er ekki tóm sæla, en það sem er spennandi við að búa til sýningu er að þá fer maður miklu dýpra inn í sköpunarferlið, verður að kanna sín innri mörk og það er eftirsóknarverð upplifun.

Íslenskt myndlistarumhverfi er mjög frumstætt og byggist á því að myndlistarmenn fjármagna starfsemina að mestu leyti sjálfir. Þess vegna er mjög mikilvægt að varðveita löngunina eða ástríðuna ef við leyfum okkur að vera hátíðleg."

Margbreytileiki á Grímsfjalli

Segðu mér meira frá nýja verkinu sem er inni í skúlptúrnum.

"Það er myndbandið Úlfur og gíll, þar sem eru þrjár sólir á lofti. Þetta er óskaplega fallegt fyrirbæri og mikið náttúruundur. Ég tók verkið upp á Grímsfjalli í 20 gráða frosti. Allan þann dag voru sólirnar þrjár á lofti. Við eigum orðatiltæki sem segir: "Sjaldan er gíll fyrir góðu, nema úlfur á eftir renni" og það nefni ég einmitt þetta vídeóverk sem er af þremur sólum. Þarna er ég að láta náttúruna sjálfa - í mismunandi birtingarformi - og menninguna tala saman. Menningin birtist þá að nokkru leyti í því sem myndbandstæknin gerir mögulegt; að taka það sem er fyrir utan og færa það inn.

Verkið sem ég nefni Hjartsláttur er tekinn upp á sama stað og sólirnar, það er að segja, á Grímsfjalli. Það er brjálaður skafrenningur sem ég flyt einfaldlega inn í Listasafn Íslands. Þetta er ein taka sem spannar fjórar mínútur. Hún er endurtekin í sífellu og samanstendur af hljóði og mynd."

Tveimur dögum fyrir opnun sýningarinnar er Anna ennþá að vinna nýjasta verkið á sýningunni. Undirbúningur hefur þó staðið í um það bil tvo mánuði. En þegar hún er spurð hvort ekki sé erfitt að vera að vinna verkið fram á síðustu stundu, segir hún svo ekki vera. "Fyrir okkur sem vinnum innsetningar skipta sýningar sköpum. Eðli innsetningar eru þannig að ef ekki er sýning, þá er engin grundvöllur til að sýna þær og því hefjum við oft ekki útfærslu við nýtt verk fyrr en sýning stendur fyrir dyrum. Því það er nú einu sinni þannig að hverjum myndlistarmanni er mikilvægt að hafa óslitið ferli í skapandi vinnu."