15. febrúar 2003 | Aðsent efni | 449 orð | 2 myndir

Nýtt óflokkstengt framboð innan HÍ

[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
"Háskólalistinn er hópur áhugafólks um stúdentastjórnmál, upprunninn úr báðum gömlu fylkingunum, en mestmegnis úr hvorugri."
Í DESEMBERTÖLUBLAÐI Stúdentablaðsins var að finna grein eftir ritstjóra blaðsins, Eggert Þór Aðalsteinsson, sem nefndist Stúdentastjórnmál á krossgötum - Ætlar VG að kljúfa Röskvu? Grein þessi var umfjöllun ritstjórans um stúdentastjórnmál í Háskóla Íslands í fortíð og nútíð, en einnig var rýnt í framtíð stúdentastjórnmálanna. Mikill meirihluti greinarinnar fór í að drepa á þróun undanfarinna ára, fjalla almennt um stúdentastjórnmálin og ræða um það hversu lítinn áhuga almennir stúdentar virðast hafa á þeim. Þetta endurspeglast í dræmri kosningaþáttöku sem hlýtur að vera áhyggjuefni allra sem að þessum málum koma.

Vísbendingar, heimildir og ályktanir?

Það vakti nokkra athygli við þessa grein ritstjóra Stúdentablaðsins hve lítill hluti hennar á við fyrirsögnina sem hún stendur undir, a.m.k. síðari hlutann: Ætlar VG að kljúfa Röskvu? Sú umfjöllun sem heimfæra má undir þessa spurningu í fyrirsögninni er fremur lítil og vísbendingarnar eða "heimildirnar" sem kveiktu spurninguna mjög veikar en ályktanir ritstjórans hins vegar mjög frjálslegar. Eftir að þessi grein birtist könnuðu þeir sem þetta skrifa hvort ungliðar í VG hyggðu á framboð til stúdentaráðs og kom í ljós að svo var ekki og eftir okkar heimildum er undirbúningur að slíku framboði ekki í gangi og hefur ekki verið. Því freistumst við til að draga þá ályktun að það væntanlega framboð sem ristjóri Stúdentablaðsins fjallar um í grein sinni, og slær föstu að sé framboð ungliða í VG, sé væntanlegt framboð Háskólalistans.

Nýtt óháð framboð

Sá hópur stúdenta við Háskóla Íslands sem kallar sig Háskólalistann varð til síðastliðið haust og hefur vaxið og eflst síðan. Eitt veigamesta atriðið í málefnagrundvelli Háskólalistans eru gagngerar breytingar á kosningakerfi Háskólans með því að opna leið fyrir einstaklingskosningar. Núverandi kosningakerfi gengur hins vegar að mörgu leyti út frá því tveggja flokka kerfi sem verið hefur við líði nær óslitið frá því á 9. áratug síðustu aldar. Það ber að taka skýrt fram að grunnhugmyndin að baki Háskólalistanum er sú að hann er ekki hægri-, vinstri- eða miðjuframboð, heldur er hann óflokkstengt framboð einstaklinga sem vilja vinna að hagsmunavörslu fyrir stúdenta við Háskóla Íslands, óháð landsmálapólitík. Liðsmenn Háskólalistans hafa mismunandi skoðanir á landsmálum og þeim flokkum sem á því sviði starfa en slíkar skoðanir eru að okkar mati háskólastjórnmálunum óviðkomandi enda er Háskólalistinn sem slíkur alls ótengdur stjórnmálaflokkum.

Framboð á eigin forsendum

Það er skiljanlegt að þeir sem komið hafa að stúdentastjórnmálum í Háskóla Íslands undanfarin ár skuli óska þess að okkar nýja framboð sé klofningsframboð úr röðum andstæðinga þeirra. En þá sem bera slíkar vonir í brjósti verður að hryggja með því að Háskólalistinn er hvorki klofningur úr Röskvu né Vöku. Háskólalistinn er hópur áhugafólks um stúdentastjórnmál, upprunninn úr báðum gömlu fylkingunum, en mestmegnis úr hvorugri.

Eftir Hrafnkel Frey Lárusson og Stefán Boga Sveinsson

Hrafnkell er nemi í sagnfræði og Stefán nemi í lögfræði.

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.