15. febrúar 2003 | Tónlist | 397 orð | 1 mynd

TÓNLIST - Ýmir

Að leysa vandasamar leikþrautir

SAMLEIKUR Á FIÐLU OG PÍANÓ

Una Sveinbjarnardóttir
Una Sveinbjarnardóttir
Una Sveinbjarnardóttir og Anna Guðný Guðmundsdóttir fluttu tónverk eftir Atla Heimi Sveinsson, Prokofiev, J.S. Bach, Schönberg og Sarasate. Miðvikudaginn 12. febrúar.
ÞAÐ eru ávallt tíðindi er ungur hljóðfæraleikari kveður sér hljóðs og sl. miðvikudagskvöld hélt Una Sveinbjarnardóttir einleikstónleika í Ými og hafði sér til fulltingis Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur. Una hefur þegar vakið athygli fyrir leik sinn hérna heima og eftir glæsilegan námsferil í Þýskalandi er hún að ljúka einleikaraprófi (konzertexamen) og þá hefst baráttan fyrir alvöru.

Það er ljóst að Una á þegar ýmislegt til, sem mun hjálpa henni að vinna stóra sigra, svo sem ráða má af þessum fyrstu einleikstónleikum hennar. Viðfangsefnin voru fjölbreytt, fyrst verk eftir Atla Heimi Sveinsson, er hann nefnir Im Volkston, enda er verkið að nokkru byggt á þjóðlegum stefjum og eru andstæður tónmálsins mjög sterkar, hljómmikil tilþrif og þar á móti kyrrðarstemmningar, og var þetta frábæra verk einstaklega vel flutt. Tónninn er ákaflega þéttur og öll blæbrigði, eins og t.d. flaututónarnir, tandurhrein og fallega mótuð. Í sónötunni op. 80 eftir Prokofiev var leikur Unu einstaklega glæsilegur og samspilið við Önnu Guðnýju sérlega áhrifamikið.

Það var mikilvæg æfing í hljómfræði á tímum barokkmanna, og er enn, að semja tónverk við uppgefinn bassa (basso continuo) og var lengi talið að þær þrjár gerðir tónverka, sem eru til við sama bassann, hefði Johann Sebastian látið tvo syni sína, Wilhelm Friedemann og Carl Philipp Emanuel, æfa sig á í úrlausn hljóma, sem er grunnur sónötu fyrir fiðlu BWV 1021. Það er næsta ótrúlegt að sjálfur meistarinn hafi verið svona stuttorður, eins og einkennir þessa sónötu, og hvað stíl snertir var tónstíllinn hjá Wilhelm Friedemann mjög líkur og hjá föður hans. Hvað sem þessu líður var leikur Unu og Önnu Guðnýjar ákaflega sannfærandi.

Fantasía fyrir fiðlu og píanó op. 47 eftir Arnold Schönberg er ekta fantasía þar sem mörgum hugmyndum bregður fyrir, eins og gerist í klassískri fantasíu, en það sem þykir sérkennilegt við verkið er að samfellt tónferli fiðlunnar bendir til þess að Schönberg hafi fyrst samið fiðluröddina og síðan bætt undirleiknum við. Una lék þessa frábæru fantasíu af öryggi, þar sem erfitt tónmálið var hvellhreint og tón- og hendingamótunin frábærlega útfærð, við áhrifamikinn samleik Önnu Guðnýjar.

Í hinum fjölbreyttu viðfangsefnum hafði Una sýnt hversu góður fiðluleikari hún er og í lokaviðfangsefninu, Zigeunerweisen op. 20 nr. 1 eftir Sarasate, sýndi Una að henni er fær leiðin að því marki sem skilgreint er að vera "virtuós", því svo vel fórst henni úr hendi að leysa vandasamar leikþrautir Sarasates að vel má spá þessari ungu listakonu glæsilegri framtíð.

Jón Ásgeirsson

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.