15. febrúar 2003 | Íþróttir | 337 orð

"Spurning um að standast spennuna"

LIÐ Grindavíkur og Keflavíkur buðu upp á mikla skemmtun þegar liðin mættust í úrvalsdeildinni í Röstinni í gærkveldi. Heimamenn voru sterkari í lokin og sigruðu 105:92 í leik þar sem bæði lið sýndu skemmtilegan körfubolta. Grindavík náði með sigrinum fjögurra stiga forystu í deildinni.
Heimamenn voru gríðarlega ákveðnir í byrjun leiks og ætluðu greinilega að slá gestina út af laginu í byrjun. Það tókst lungann af fyrsta leikhluta en þá tók Damon Johnson leikinn í sínar hendur og raðaði niður körfunum. Hann skoraði 14 stig í fyrsta leikhluta en hjá heimamönum var Páll Axel með stórleik í fyrsta leikhluta. Gestirnir skrúfuðu fyrir skotin hjá Páli Axeli og en þá tók Darrell Lewis til sinna ráða og hélt heimamönnum gangandi. Eftir skemmtilegan fyrri hálfleik, þar sem bæði lið sýndu ágæta sóknar- og varnartilburði, leiddu gestirnir 41:39. Keflvíkingar byrjuðu síðan seinni hálfleik með látum og eftir eina og hálfa mínútu tóku heimamenn leikhlé enda ekki komnir á blað á meðan gestirnir settu 7 stig. Þetta hafði áhrif og leikurinn jafnaðist en bæði lið spiluðu fínan sóknarbolta í þessum leikhluta eins og tölurnar segja til um en gestirnir leiddu með 73 stigum gegn 68 heimamanna. Heimamenn áttu hreinlega seinasta leikhlutann ekki síst fyrir þær sakir að Helgi Jónas hrökk í gang. Það voru sennilega kaflaskiptin í leiknum þegar Helgi Jónas varð illur þar sem hann taldi á sér brotið en fékk ekkert dæmt og svaraði því með 19 stigum í leikhlutanum. Keflvíkingar gáfust þó ekkert upp og þó að staðan væri orðin vonlítil í lokin héldu þeir áfram til síðustu sekúndu.

"Þetta var frábær sigur hjá okkur og hér áttust við tvö frábær lið. Leikir þessara liða í vetur eru svona skemmtilegir. Þarna í lokin var þetta spurningin um að standast spennuna. Keflvíkingar byrjuðu seinni hálfleik með látum og við urðum að taka leikhlé til að átta okkur á því að leikurinn væri byrjaður. Þeir réðu ekki við það að við breyttum í svæðisvörn og mér fannst allt liðið hjá mér lyfta sér upp á sama tíma. Þeir gáfu eftir þegar við komumst yfir í síðasta leikhluta", sagði Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Grindvíkinga, að leik loknum.

Bestur í liði heimamanna var Darrell Lewis en Guðlaugur Eyjólfsson og Helgi Jónas Guðfinnsson áttu einnig góðan dag. Hjá gestunum var Damon Johnson allt í öllu.

Garðar Vignisson skrifar

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.