15. febrúar 2003 | Leiklist | 934 orð | 1 mynd

LEIKLIST - Þjóðleikhúsið í samvinnu við Grínara hringsviðsins

Ærslaleikur á ofsahraða

ALLIR Á SVIÐ!

Leikstjórinn segir hópnum til syndanna á æfingu: Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Stefán Karl Stef´ánsson, Júlíus Brj´ánsson, Þröstur Leó Gunnarsson  og Edda Björgvinsdóttir í hlutverkum sínum.
Leikstjórinn segir hópnum til syndanna á æfingu: Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Stefán Karl Stef´ánsson, Júlíus Brj´ánsson, Þröstur Leó Gunnarsson og Edda Björgvinsdóttir í hlutverkum sínum.
Höfundur: Michael Frayn. Þýðing, staðfærsla og leikstjórn: Gísli Rúnar Jónsson. Leikmyndar- og búningahönnun: Hlín Gunnarsdóttir. Hönnun lýsingar: Páll Ragnarsson. Leikarar: Björgvin Franz Gíslason, Edda Björgvinsdóttir, Júlíus Brjánsson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Sigurður Sigurjónsson, Stefán Karl Stefánsson, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Þórunn Lárusdóttir og Þröstur Leó Gunnarsson. Föstudagur 14. febrúar.
GÍSLI Rúnar Jónsson hefur staðið fremst í grínlínunni hér á landi um áratuga skeið. Það er því ánægjulegt að tekist hefur samvinna með Þjóðleikhúsinu og kompaníi hans um að setja upp þennan fræga gamanleik Michaels Frayn. Það eru tuttugu ár frá því að leikritið var fyrst sýnt í Þjóðleikhúsinu undir nafninu Skvaldur - aðeins ári eftir að það var frumsýnt í London - en verkið hefur náð því marki að vera talið meðal sígildra farsa. Söguþráður farsans í farsanum er snilldarlega samansoðinn með ótal útúrsnúningum en á yfirborðinu hefðbundnu sniði. Hann er samt ekki áhugaverðasti punkturinn í verkinu heldur sú innsýn sem áhorfendum er gefin í æfingarferlið og lífið að tjaldabaki. Verkið fjallar þannig um leikhóp sem hefur tekið til æfinga flókinn gamanleik. Persónur hans endurspeglast í leikurum uppfærslunnar og starfsfólki sýningarinnar á afar skemmtilegan hátt.

Sýningin öðlast enn eina birtingarmynd í þeirri staðreynd að Stefán Karl Stefánsson notar ýmis persónueinkenni hins raunverulega leikstjóra, Gísla Rúnars, sem efnivið í túlkun sína á Erlingi Erlendssyni, leikstjóra leikritsins inni í leikritinu. Þetta gefur færi á enn einu sjónarhorni á verkið og minnir áhorfendur á grafalvarlega fjölmiðlaumfjöllun undanfarinna ára um ýmsa leikara verksins og samskipti þeirra í millum. Sjónarspilið sem birtist áhorfendum á sviðinu á sér þannig þrjár ólíkar hliðar sem allar eiga sinn þátt í hvað verkið er áhugavert. Taka má sem dæmi að þegar Budda Björgólfs ræðir í verkinu um farsælan feril sinn sem gamanleikkona er óhjákvæmilegt að áhorfendur finni ákveðna samsvörun með persónunni og leikaranum, Eddu Björgvinsdóttur.

Gísli Rúnar er ekki einungis leikstjóri verksins heldur hefur hann þýtt það og staðfært hreint snilldarlega. Það vill einstaka sinnum há erlendum gamanleikjum að efni þeirra og þau siðferðislegu viðmið sem höfundarnir leika sér að séu svo fjarri reynsluheimi hins íslenska meðaláhorfanda að hann geti ekki tileinkað sér húmorinn í verkinu. Hér fæst ákveðin fjarlægð með því að stílfæra leik hins hefðbundna enska farsa innan verksins en staðfæra eins og mögulegt er efni hins utanáliggjandi gleðileiks. Sem dæmi má nefna að tilvísanir sem í upphaflega verkinu vísuðu í alþekkt verk höfuðskálds leikbókmennta á enska tungu er snúið upp á verk Thorbjörns Egner, skáldjöfursins norska sem hefur veitt íslenskum börnum ómældar gleðistundir. Þessi staðfærsla er samræmd, úthugsuð og ákaflega vel unnin og gefur verkinu mun meira gildi en ella, auk þess sem Kardemommubærinn og Dýrin í Hálsaskógi eru nær einu leikritin sem hægt er að ganga út frá að nær allir Íslendingar kannist við.

Hvað leikinn varðar hefur sennilega aldrei valist hér jafnsterkur hópur gamanleikara saman í sýningu á einum farsa. Það kemur því töluvert á óvart hve áhrifin eru misjöfn. Það er erfitt að henda reiður á hvers vegna sýningin kitlaði hláturtaugarnar svo lítið framan af. Það er eins og ofhlæðið í textanum og hraðinn í sýningunni beri áhorfendur ofurliði. Það er áberandi að þegar leikararnir gefa sér góðan tíma til að koma sínu til skila svínvirkar grínið. Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir var t.d. óborganleg í sínu hlutverki enda heldur einföld persónan alltaf sínu striki og fer með sömu replikkurnar hvað sem á dynur. Þröstur Leó Gunnarsson er annað gott dæmi en honum tókst mjög vel upp í litlu þöglu atriði í byrjun lokaþáttarins sem Þórunn Lárusdóttir kláraði á einfaldan og smekklegan hátt. Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Júlíus Brjánsson ná að koma flestu sínu á framfæri en á stundum hefðu þau mátt gefa tilsvörunum betri tíma.

Það kemur án efa spánskt fyrir sjónir í farsa, en hraðinn verður hér Björgvini Franz Gíslasyni og Stefáni Karli Stefánssyni að falli. Hlutverk þeirra krefjast mikillar líkamlegrar fimi sem þeir skila fullkomlega. Þeir eru báðir með textann á hreinu en sá er munurinn að Björgvin Franz skilst mjög vel en Stefán Karl er oft svo óðamála að erfitt er að greina einstök orð. En sá er ljóður á ráði beggja að það gefst sjaldnast tækifæri til að doka við og upplifa hve vel þeim tekst til. Áhorfendum verður að gefast tækifæri til að melta fyndnina - þótt ekki væri nema eitt örstutt augnablik.

Leikur Sigurðar Sigurjónssonar og Eddu Björgvinsdóttur er svo allt annar handleggur. Áhorfendur gerþekkja leikstíl þeirra svo að það væri sennilega nóg að þau skytu einhvers staðar upp kollinum og brostu til að ná tilætluðum áhrifum á salinn. Þó að margt sem þau hefðu fram að færa drukknaði í látunum stóðu þau fyrir sínu - þó að oft bregði fyrir kunnuglegum töktum skiptir það engu máli í þessu sambandi. Fröken Frankenhæmer og Budda Björgólfs eru bara enn einn endurfæðing Eddu Björgvinsdóttur á svipuðum nótum - tilvist sem hefur löngu staðist tímans tönn og mun vonandi halda áfram um ókomin ár. Sigurður Sigurjónsson kann á salinn, hér er hann í essinu sínu og það bregður fyrir ýmsum leiftrum úr persónusafni hans er hann leikur drykkfellda gamla stjörnu að leika innbrotsþjóf.

Sýningin er vel lýst af hálfu Páls Ragnarssonar og ber hvergi skugga á. Leiktjöld Hlínar Gunnarsdóttur eru hefðbundin eins og sýningin krefst og vel af hendi leyst, búningarnir hreint framúrskarandi vel til fundnir. Það var sérstaklega gaman að fá að skyggnast að tjaldabaki þar sem gefur að líta sviðs- og tæknimenn sinna störfum sínum. Leikmunir eru gjarnan frábærlega vel heppnaðir.

Ef til vill lagast þeir hnökrar sem eru nú á sýningunni eftir því sem leikhópurinn öðlast meiri reynslu í að leika sem heild á móti áhorfendum og tekst að koma sem mestu af sýningunni skýrt til skila. Það væri sorglegt ef það tækist ekki því sjaldan hefur glæsilegri hópur gamanleikara lagt upp með betri efnivið í höndunum hér á landi. Það er hugsanlegt að ráðlegt hefði verið að efna til nokkurra forsýninga. Á móti kemur að hægja hefði þurft nokkuð á leikhraðanum en hér væri það bara til bóta.

Sveinn Haraldsson

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.