15. febrúar 2003 | Fólk í fréttum | 345 orð | 1 mynd

Draumur um sól

Valdir leikarar túlka íslensku þjóðarsálina í Perlum og svínum.
Valdir leikarar túlka íslensku þjóðarsálina í Perlum og svínum.
NÚ má fara að hlakka til því hin bráðfyndna mynd Óskars Jónassonar Perlur og svín er á Skjá 1 í kvöld kl. 21, en um þessar mundir eru þar sýndar íslenskar bíómyndir hvert laugardagskvöld.
NÚ má fara að hlakka til því hin bráðfyndna mynd Óskars Jónassonar Perlur og svín er á Skjá 1 í kvöld kl. 21, en um þessar mundir eru þar sýndar íslenskar bíómyndir hvert laugardagskvöld.

Myndin sem er frá árinu 1998 er önnur bíómynd Óskars, eftir Sódómu Reykjavík. Þetta er að sjálfsögðu grín út í gegn, einsog Óskari einum er lagið.

"Myndin fjallar auðvitað um íslensku þjóðarsálina. Við Íslendingar erum svolítið að braska með fjöreggið og myndin er einmitt um fólk sem er í "matadorbisness" með ýmsa hluti, þau Lísa og Finnbogi kaupa hrörlegt bakarí sem er ansi hæpið að geti gengið," sagði leikstjórinn einhverju sinni um myndina.

En fyrir þá sem ekki muna segir myndin frá henni Lísu sem langar svo rosalega mikið í sólarlandarferð, svo að eiginmaðurinn Finnbogi leggur á ráðin um að útvega peninga til ferðarinnar og kaupir lítið bakarí. Þau detta aldeilis í lukkupottinn þegar Karólína, einstakur bakarameistari, vill vinna fyrir þau. Hún er móðir Mörtu, eiganda stærsta bakarísins í Reykjavík, og eiga þær mæðgur í útistöðum. Marta þolir ekki uppreisnina í mömmu sinni, hvað þá heldur samkeppnina, svo hún lokkar Finnboga til að kaupa farm af leikföngum ástarlífsins án þess að segja Lísu frá. En það er Bjartmar sonur hans sem reddar peningum fyrir þeim, en hann hefur lofað nokkrum rússneskum sjómönnum að útvega þeim tíu Lödur. Þegar Rússarnir koma síðan að ná í Lödurnar hefur Finnbogi ekki svo mikið sem selt eitt leikfang. Og ekki stendur á henni Mörtu að vera með fleiri fantabrögð. En ætli draumur Lísu um sól rætist?

Það er ekki spurning að hér er á ferð allflókinn farsi, sem togar og teygir á íslenskum raunveruleika. Okkar bestu grínleikarar fara þarna fremstir í flokki, en Ólafía Hrönn Jónsdóttir leikur Lísu, Edda Björgvinsdóttir leikur Mörtu, Jóhann Sigurðsson er Finnbogi, Ólafur Darri Ólafsson er Bjartmar og Ingvar E. Sigurðsson fer á kostum sem einbeittur og alvarlegur rússneskur sjómaður.

Um 22 þúsund manns sáu myndina á sínum tíma í bíói, en hún fékk yfirleitt ágætis viðtökur og fína aðsókn, en leikstjórinn þakkar það því að persónur myndarinnar séu manngerðir sem margir kannast við.

Fletta í greinum frá þessum degi

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.