Frá kynningu námsefnisins í Foldaskóla í gær. Frá vinstri: Ingibjörg Ásgeirsdóttir, forstjóri Námsgagnastofnunar, Aldís Yngvadóttir, ritstjóri hjá Námsgagnastofnun, Erna Sigfúsdóttir, lögreglufulltrúi hjá Ríkislögreglustjóra, Valgarður Valgarðsson, varðstj
Frá kynningu námsefnisins í Foldaskóla í gær. Frá vinstri: Ingibjörg Ásgeirsdóttir, forstjóri Námsgagnastofnunar, Aldís Yngvadóttir, ritstjóri hjá Námsgagnastofnun, Erna Sigfúsdóttir, lögreglufulltrúi hjá Ríkislögreglustjóra, Valgarður Valgarðsson, varðstj
EMBÆTTI ríkislögreglustjóra og Námsgagnastofnun hafa í samstarfi við lögreglustjóra landsins og Lögregluskóla ríkisins gefið út kennsluefni fyrir lögreglu til að nota við fræðslu í leikskólum og grunnskólum og fyrir foreldra í þeim tilgangi að samræma...
EMBÆTTI ríkislögreglustjóra og Námsgagnastofnun hafa í samstarfi við lögreglustjóra landsins og Lögregluskóla ríkisins gefið út kennsluefni fyrir lögreglu til að nota við fræðslu í leikskólum og grunnskólum og fyrir foreldra í þeim tilgangi að samræma forvarnarstarf lögreglu og gera það árangursríkara, en efnið var kynnt í Foldaskóla í gær.

Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri segir að ástæða hafi verið til að búa til samræmt kennsluefni í forvarnarmálum fyrir allt landið í þeim tilgangi að reyna að koma í veg fyrir að krakkar leiðist út í ógöngur, en með fræðsluefninu sé reynt að sporna við slæmri þróun í þjóðfélaginu, t.d. varðandi umferð, ofbeldi, þjófnaði, skemmdarverk, tóbak, áfengi eiturlyf og fleira. Undirbúningshópur hafi unnið að því að taka saman og útbúa kennsluefnið, færa það til nútímans, með það að leiðarljósi að taka á flestum þeim þáttum sem varða forvarnir og forvarnarstarf lögreglunnar í skólastarfinu, en fræðsluefni um forvarnir, sem norska dóms- og lögreglumálaráðuneytið hafi látið útbúa, hafi verið haft til hliðsjónar.

Samræmdur tónn mikilvægur

Undanfarna viku hefur staðið yfir námskeið í Lögregluskólanum, þar sem lögreglumönnum, sem vinna að forvörnum víða um land, hefur verið kennt að fara yfir þetta nýja námsefni, en fyrsta námskeiðinu lauk í gær. "Okkar markmið er að þetta kennsluefni verði notað í öllum skólum landsins, sem eitt samræmt heildstætt kennsluefni í forvarnarmálum," segir Haraldur. "Ég vona að þetta samstarf okkar allra verði til þess að auka forvarnir og fræðslu í þeim efnum, en það er mjög mikilvægt að það sé einn, ákveðinn, samræmdur tónn í fræðslunni og kennslunni."

Erna Sigfúsdóttir, lögreglufulltrúi hjá Ríkislögreglustjóra og verkefnisstjóri þessa verkefnis, segir að mikil undirbúningsvinna liggi að baki og margir hafi lagt hönd á plóg til að gera efnið sem aðgengilegast. Í því sambandi nefnir hún að Alda Baldursdóttir, rannsóknarlögreglumaður og kennari, hafi þýtt norska efnið og lagað það að íslensku umhverfi og Aldís Yngvadóttir hjá Námsgagnastofnun hafi farið í gegnum allt efnið, en það sé mismunandi eftir því hvort verið sé að ræða við leikskólabörn, grunnskólabörn eða foreldra. Þá gegni Lögregluskóli ríkisins veigamiklu hluverki enda þurfi að mennta lögreglumenn til að vera góðir í forvarnarstarfi.

Í námsefninu er komið víða við og má nefna umferðarfræðslu, öryggismál og afbrotavarnir í víðum skilningi. Erna bendir á að í fræðsluefninu fyrir foreldrana sé m.a. tekið á reykingum, áfengisneyslu, samstöðu foreldra og fíkniefnaneyslu.

Skólarnir panta heimsókn

Að sögn Ernu gengur framkvæmdin þannig fyrir sig að skólarnir hafa samband við lögreglustöðvarnar og óska eftir að lögreglan komi í heimsókn og ræði um þessi mál en þeim verður sérstaklega kynnt hvernig best sé að standa að þessum málum. Auk þess fái börnin bréf til að farra með heim og efnið verði aðgengilegt á slóðinni www.logreglan.is eða www.rls.is.

Ingibjörg Ásgeirsdóttir, forstjóri Námsgagnastofnunar, segir að það sé afar mikilvægt fyrir börnin í skólum landsins að fleiri en Námsgagnastofnun komi að því að gefa út námsefni. Samstarfið við lögregluna hafi verið mjög ánægjulegt og efnið, sem eigi að nota í öllum bekkjum grunnskólans, sé gott og örugglega mikill styrkur fyrir lögreglumennina sem sinni fræðslunni.

Aldís Yngvadóttir, ritstjóri hjá Námsgagnastofnun, segir að vinnan hafi gengið mjög vel og samstarfið hafi verið gott og gefandi. "Það er frábært framtak hjá lögreglunni að gera þetta svona," segir hún og leggur áherslu á að efnið sé viðbót við það starf sem fari þegar fram í skólunum á sviði forvarna og eigi að styðja við það. Þetta leysi því hvorki skóla né kennara undan neinum skyldum á þessu sviði heldur fléttist inn í það.

Kristinn Breiðfjörð, skólastjóri Foldaskóla, segir að efnið sé mjög vel unnið og vandað. Með kennslufræði í huga sé það mjög vel upp byggt og auðvelt sé að vinna eftir því. Hlynur Snorrason, lögreglufulltrúi á Ísafirði, tekur í sama streng. Hann segir að fólk sem sinni forvarnarfræðslu hafi gjarnan komið sér upp ákveðnum kennslugögnum en þetta nýja efni komi sér mjög vel í kennslunni.