GRINDVÍKINGAR stigu í gær stórt skref í átt að deildarmeistaratitilinum í úrvalsdeild karla í körfuknattleik þegar liðið lagði Breiðablik og náði þar með fjögurra stiga forskoti í deildinni. Í Borgarnesi unnu heimamenn í Skallagrími góðan sigur á Íslandsmeisturum Njarðvíkur og í Seljaskóla bar ÍR sigurorð af botnliði Vals.
ÍR tók á móti botnliði Vals í gærkvöldi í mjög sveiflukenndum leik og fór með sigur af hólmi 106:96.

Heimamenn byrjuðu leikinn af mikum krafti. Þeir skoruðu fyrstu körfu leiksins og juku forystuna jafnt og þétt út fyrsta leikhluta. Þeir Bjarki Gústafsson og Evaldas Priudokas héldu sínum mönnum á floti í leikhlutanum en heimamenn með Eirík Önundarson í broddi fylkingar nýttu breidd sína mun betur en gestirnir og voru komnir með verðskuldaða 11 stiga forystu eftir fyrsta leikhluta, 28:17. ÍR-ingar héldu áfram uppteknum hætti í öðrum leikhluta. Þeir röðuðu niður þriggja stiga körfum, náðu snemma 18 stiga forystu og virtust ætla að rúlla yfir gestina. Valsmenn neituðu hins vegar að gefast upp. Í stöðunni 42:24 tókst þeim með góðri vörn og mikilli baráttu að snúa leiknum sér í hag, skoruðu 19 stig gegn 4 stigum ÍR-inga og tókst að minnka muninn í 3 stig áður en flautað var til leikhlés. Jason Pryor var vaknaður til lífsins og bjuggust áhorfendur við spennandi seinni hálfleik.

ÍR-ingar gengu frá Valsmönnum og gerðu út um leikinn í þriðja leikhluta. Leikur Vals var hruninn eftir góðan annan leikhluta, þeir áttu engin svör við sóknarleik heimamanna og áttu í miklum erfiðleikum með að koma boltanum ofan í körfuna. Líkt og í fyrsta leikhluta var breiddin mun meiri í sóknarleik heimamanna á meðan sóknarleikurinn hvíldi aðallega á herðum Pryors í liði Vals. Gestirnir skoruðu aðeins 13 stig í þessum leikhluta á meðan ÍR-ingar fóru á kostum og skoruðu 36 stig. Munurinn var því orðinn 26 stig þegar kom að fjórða leikhluta og staða Vals næsta vonlaus. Gestirnir reyndu þó hvað þeir gátu til að laga stöðu sína. Þeir pressuðu ÍR-inga úti um allan völl og tóks með því að saxa verulega á forskot heimamanna. Valsmenn náðu að skora 40 stig í síðasta leihlutanum en bilið var of breitt og tókst þeim aðeins að minnka muninn niður í 10 stig.

Eiríkur Önundarson átti mjög góðan leik, ÍR-ingar spiluðu reyndar flestir vel og unnu leikinn sem heild. Jason Pryor var mjög atkvæðamikill fyrir Val, skoraði 40 stig, en þurfti til þess ansi margar skottilraunir.

Grindavík styrkti stöðu sína á toppnum

Það var frekar bragðdaufur leikur sem Grindvíkingar og Breiðablik buðu upp á í gærkveldi. Heimamenn höfðu betur 104:99.

Guðmundur Bragason átti fyrsta leikhluta þetta kvöldið og spilaði frábærlega í vörn og sókn. Guðmundur skoraði 12 stig í þessum leikhluta eða nærri helming stiga heimamanna. Kenneth Tate hjá Breiðablik var álíka kaldur og Guðmundur heitur því hann skoraði einungis eitt stig þrátt fyrir nokkrar tilraunir. Eftir góðan fyrsta leikhluta datt leikurinn niður og við tók töluvert áberandi kæruleysi í vörninni hjá heimamönnum en Breiðabliksmenn voru í humátt á eftir en beittu sér aldrei að mati undirritaðs. Í hálfleik var staðan 50:44 fyrir heimamenn og leikurinn í jafnvægi. Í þriðja leikhluta fóru gestirnir að bíta frá sér og jöfnuðu leikinn og var útlit fyrir spennandi fjórða leikhluta en heimamenn voru sterkari og munaði þar mest um Darrel Lewis sem var stórkostlegur þetta kvöldið og hélt heimamönnum á floti löngum stundum. Darrel tók 15 fráköst auk 39 stiga og tryggði heimamönnum stigin "Við spiluðum ekki góðan leik, þeir spiluðu vel og héldu uppi hraða og voru ákveðnir í því sem þeir voru að gera. Það komu að vísu góðir kaflar hjá okkur en mikilvægast er þó að fá þessi tvö stig. Við verðum að spila betur en þetta til að landa deildarmeistaratitlinum," sagði Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Grindvíkinga. Bestur í liði heimamanna var Darrel Lewis en Guðmundur Bragason átti fínan fyrsta leikhluta. Hjá gestunum átti Friðrik Hreinsson bestan leik ásamt Pálma Frey Sigurgeirssyni.

Mikil spenna í Borgarnesi

Æsispennandi viðureign Skallagríms og Njarðvíkinga í Borgarnesi í gærkvöld endaði með naumum sigri heimamanna, 89:87. Sigurkarfan kom aðeins tveimur sekúndum fyrir leikslok. Njarðvíkingar hófu leikinn með heldur meiri baráttugleði. Þeir nýttu sóknirnar betur og boltinn gekk hratt manna á milli. Teitur Örlygsson var heitur og skoraði 18 stig í fyrri hálfleik þar 12 í þriggja stiga skotum. Hjá Skallagrími var JoVann allt í öllu í fyrri hálfleik með 20 stig en sóknarleikur heimamanna var þrátt fyrir það alls ekki markviss. Skallagrímsmenn beittu maður á mann í vörn og það gekk ekki nógu vel. Njarðvíkingar áttu of auðvelt með að komast í skotfæri sem þeir nýttu vel. Hjá Skallagrímsmönnum var greinilega mikið taugastríð í gangi. Njarðvíkingar pressuðu JoVann Johnsson grimmt og í hálfleik var hann kominn með þrjár villur sem hann fékk heldur klaufalega. Staðan í hálfleik var 44:48. Í seinni hálfleik komu Hafþór Gunnarsson og Pétur Sigurðsson sterkir inn og JoVann var látinn hvíla. Góður gangur komst í sóknarleik heimamanna og varnarleikurinn stórlagaðist. Þrátt fyrir þetta leiddu Njarðvíkingar með tveggja til fjögurra stiga forskoti. Njarðvíkingarnir Friðrik Stefánsson og Páll Kristinsson sáu alfarið um stigaskorun þeirra í þriðja leikhluta. Þegar fjórði leikhluti hófst var staðan 63:65 fyrir gestina. Spennan var óbærileg, áhorfendur voru vel með á nótunum. Ósigur hjá Skallagrími þýddi að fall yrði að öllum líkindum staðreynd. Baráttan var gífurleg. Bæði lið töpuðu boltum og mörg mistök voru gerð. Njarðvíkingurinn Páll Kristinsson sem hafði verið vaxandi í leik sínum fékk sína fimmtu villu sex mínútum fyrir leikslok og var það skarð fyrir skildi. Þegar ein mínúta var eftir varð atburðarásin dramatísk. JoVann Johnsson kom Skallagrími yfir 86:84. Teitur Örlygsson innsiglaði langa og góða sókn Njarðvíkinga með þriggja stiga körfu og var staðan þá 87:86. Skallagrímsmenn voru snöggir í næstu sókn. JoVann fékk tvö víti og skoraði aðeins úr öðru þeirra. Staðan þá 87:87. Njarðvíkingar hófu sína sókn 28 sekúndum fyrir leikslok. Eftir mikinn darraðardans undir körfunni náði Darko Ristic frákastinu og þá voru 8 sekúndur til leiksloka. JoVann óð upp völlinn og að þessu sinni smellhitti hann tryggði sínum mönnum sigur.

Njarðvíkingar spiluðu sem ein heild allan tímann. Þetta var fyrsti leikur þeirra eftir að Gary Hunter var látinn fara svo það kann að hafa skipt máli. Hjá Skallagrími var Darko Ristic bestur en JoVann var einnig atkvæðamikill með 33 stig. Valur Ingimundarson, þjálfari Skallagríms, undirstrikaði að mikilvægi leiksins hefði einkennt leik liðsins umfram allt annað sigur var það sem þurfti og það gekk eftir.

Benedikt Rafn Rafnsson skrifar