Stór pítsa kostar í kringum þúsund krónur  á pítsustöðum um þessar mundir, það er ef maður kemur og sækir hana sjálfur.
Stór pítsa kostar í kringum þúsund krónur á pítsustöðum um þessar mundir, það er ef maður kemur og sækir hana sjálfur.
SVOKÖLLUÐ "megavika" hjá Dominos Pizza stendur nú sem hæst en fyrirtækið býður allar pítsur á matseðli á 1.000 krónur fyrir þá sem sækja sjálfir, fram til 23. febrúar. Þá er allt gos á 200 krónur hjá Dominos.
SVOKÖLLUÐ "megavika" hjá Dominos Pizza stendur nú sem hæst en fyrirtækið býður allar pítsur á matseðli á 1.000 krónur fyrir þá sem sækja sjálfir, fram til 23. febrúar. Þá er allt gos á 200 krónur hjá Dominos.

Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri Dominos, segir loksins "fjörugt" á pítsumarkaði. "Það var kominn tími til að eitthvað gerðist eftir ládeyðu undanfarinna ára. Slagurinn var talsverður á markaðinum 1993-1996 en eftir það virtist sem menn væru sáttir við sitt," segir hann.

Þórarinn segir að Dominos hafi byrjað á að efna til "megaviku" á um það bil þriggja mánaða fresti um mitt ár 2001 og að fimm slíkar tilboðsvikur hafi liðið áður en keppinautarnir byrjuðu að svara fyrir sig.

"Það gerðist í raun ekki mikið fyrr en síðasta haust en þá byrjuðu menn líka að svara hver um annan þveran," segir hann.

Þórarinn telur "hollt fyrir pítsugeirann" að samkeppni harðni og hreyfing komist á markaðinn.

"Að mínu mati eykur þessi hreyfing sölu á pítsum. Pítsan hefur liðið fyrir lækkun á svína- og kjúklingakjöti og segja má að við höfum verið í mikilli samkeppni við stórmarkaðina af þeim sökum. Lækkanir á kjötverði hafa ekki skilað sér til okkar."

Verð á mörgum grænmetistegundum hefur lækkað um tugi prósenta síðastliðið ár og segir Þórarinn aðspurður hvort sú lækkun eigi ekki að skila sér til neytenda, að aukinn launakostnaður vegi hana upp.

"Laun hafa hækkað umfram taxta hjá okkur. Síðasta hækkun var síðastliðin áramót en verð á okkar pítsum er enn það sama. Við höfum ekki velt þeim kostnaði út í verðlagið, svo þetta jafnar sig út," segir hann.

Aðspurður hvort aukinn fjöldi tilboða á pítsastöðum sé til marks um örvæntingu einhverra fyrirtækja segist Þórarinn telja að svo sé.

"Hún er talsverð og að mínu mati mun eitthvað skolast til á markaðinum á þessu ári," segir hann.

Þórarinn vill ekki meina að um undirboð á pítsum sé að ræða af hálfu stærri fyrirtækjanna. "Stærstu kostnaðarliðir fyrirtækjanna eru hráefni og laun og þegar viðskiptavinum fjölgar skyndilega lækkar launakostnaður hlutfallslega."

Kveðst hann verða var við að hluti viðskiptavina kaupi einvörðungu pítsur af fyrirtækinu þegar "megavika" stendur yfir, en leyfi sér ekki slík innkaup þar fyrir utan.

"Gaman fyrir neytendur"

Stutt er síðan Pizza Hut bauð hvaða stærð af pítsu sem er af matseðili á 1.100 krónur fyrir þá sem sækja sjálfir, á svokölluðum "dúndurdögum". Jón Garðar Ögmundsson, framkvæmdastjóri Pizza Hut, segir "gaman fyrir neytendur" hve hörð samkeppnin er um þessar mundir.

Jón Garðar segir kostnað við heimsendingar hafa aukist mikið og því sé eðlilegt að fleiri pítsustaðir reyni að fá viðskiptavini til þess að sækja sjálfa. Minnir hann á að kostnaður við rekstur bifreiða hefur aukist til muna undanfarin misseri, einkum vegna hækkana á bensínverði og tryggingum. "Heimsending á pítsu kostar 350-500 krónur og þá er launakostnaður undanskilinn. Þess vegna er það í raun glórulaust fyrir fyrirtækin að færa viðskiptavinum minni sendingar heim," segir hann.

"Hrópa á gott verð" í janúar og febrúar

Jón Garðar segir að Pizza Hut hafi til skamms tíma aðallega einbeitt sér að rekstri veitingastaðanna sjálfra. "Undanfarið höfum við síðan fært okkur inn á markað fyrir sóttar pítsur og heimsendingar. Við erum ekki að breyta viðskiptaháttum með aukinni áherslu á þennan þátt, heldur að bæta við okkur."

Einnig segir hann viðskiptavini pítsustaða "hrópa á gott verð" í janúar og febrúar.

"Við erum líka að bregðast við þessum rólegu mánuðum. Hins vegar er ekki mögulegt að bjóða þetta verð nema stuttan tíma í einu. Við þurfum 20-25.000 manns á einni viku til þess að mæta kostnaði," segir hann.

Jón Garðar segir venju að efna til "dúndurdaga" hjá Pizza Hut fjórum sinnum á ári. Kveðst hann telja að mikið verði um nýjungar og góð verðtilboð á árinu. Einnig er hann þeirrar skoðunar að í framtíðinni muni pítsustaðir einungis bjóða heimsendingar fyrir stærri pantanir. "Það er ekkert vit í að senda heim pítsu sem kostar 1.500 krónur ef 600-900 krónur fara í kostnað," segir hann.

50% afsláttur til 1. apríl

Högni Jökull Gunnarsson, framkvæmdastjóri Hróa hattar, segir ekki óeðlilegt að mikið sé af tilboðum hjá pítsustöðum fyrstu mánuði ársins þegar almenningur sé enn að súpa seyðið af "visa-flippi" jólanna, eins og hann tekur til orða.

Hrói höttur býður nú 50% afslátt af sóttum pítsum til 1. apríl. Kostar 16 tomma pítsa með þremur áleggstegundum 1.075 krónur, tólf tomma pítsa með þremur áleggstegundum 825 krónur og níu tomma pítsa með sama fjölda áleggstegunda 573 krónur. Níu tomma Margaríta kostar 348 krónur og 16 tomma kostar 595 krónur, svo dæmi séu tekin.

Aukinn kostnaður við heimsendingar er ein ástæða þess að pítsustaðir vilja fá viðskiptavini til þess að sækja sjálfa, segir Högni eins og aðrir viðmælendur.

"Þetta er líka ein tegund markaðssetningar. Við viljum sporna við því að matvara sé dýr. Samkeppnin hefur ennfremur aukist nokkuð og litlum pítsustöðum hefur fækkað," segir hann.

Högni segir sölu á pítsum hafa staðið í stað frá því í fyrra og hægt sé að lækka verð stuttan tíma í senn með því að semja sérstaklega við birgja, eða "kreista þá" eins og hann segir sjálfur. "En þetta er ekki verð sem við getum lifað á," segir hann.

Harðnandi verðstríð

Pizzahöllin býður sextán tomma pítsur með fjórum áleggstegundum á 1.000 krónur fyrir þá sem sækja sjálfir fram á fimmtudag í næstu viku. Gunnar Guðjónsson framkvæmdastjóri segir verðstríð milli pítsustaða hafa "harðnað mjög mikið" að undanförnu.

"Pizza Hut byrjaði á tilboðum á sóttum pítsum og einnig hefur Dominos fjölgað "megavikum". Dominos hefur líka boðið pítsur á 1.000 krónur í tilteknum hverfum þar sem þeir eiga í samkeppni og auglýst með dreifimiðum í hús," segir hann.

Gunnar segir eðlilegt að barátta pítsustaða harðni þegar samdráttur verður í samfélaginu. "Hver og einn reynir að styrkja sig og litlu staðirnir hafa fundið nokkuð fyrir því."

Spurður hversu lengi hægt sé að selja 16 tomma pítsu með fjórum áleggstegundum á þúsundkall segir Gunnar markmiðið að vega lækkunina upp með aukinni sölu.

Halda viðskiptavinir ekki að sér höndum milli tilboða, eða flakka á milli staða í kjölfarið?

"Jú, við sjáum meiri sveiflu í sölu nú en áður," segir Gunnar Guðjónsson framkvæmdastjóri Pizzahallarinnar að síðustu.