REIKNA má með að undirbúningur og umhverfismat vegna mislægra gatnamóta Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar taki um eitt ár áður en útboð gætu farið fram. Þetta er mat forstöðumanns verkfræðistofu umhverfis-og tæknisviðs borgarinnar.
REIKNA má með að undirbúningur og umhverfismat vegna mislægra gatnamóta Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar taki um eitt ár áður en útboð gætu farið fram. Þetta er mat forstöðumanns verkfræðistofu umhverfis-og tæknisviðs borgarinnar. Forsvarsmenn Kringlunnar óska eftir að vera hafðir með í ráðum um framkvæmdina og óttast að mislæg gatnamót með slaufum geti haft slæm áhrif á aðkomur og fráleiðir að verslunarmiðstöðinni.

Svar hans við fyrirspurn Reykjavíkurlistans um framkvæmdina var lagt fram á fundi skipulags- og bygginganefndar síðastliðinn miðvikudag. Í fyrirspurninni var innt eftir því hvað liði skipulagsvinnu vegna framkvæmdanna og hvort unnt væri að flýta þeirri vinnu.

Í svarinu kemur fram að um skeið hafi legið fyrir skipulagstillaga þar sem gert er ráð fyrir að Kringlumýrarbrautin liggi í fríu flæði undir Miklubrautinni en Vegagerðin hafi óskað eftir að þeim möguleika yrði haldið opnum að Miklabraut gæti verið niðurgrafin. Umhverfis- og tæknisvið borgarinnar hafi ekki sett sig á móti þeim möguleika.

Kringlan á móti mislægum gatnamótum með slaufum

Þá séu margir hagsmunaaðilar sem komi að málinu og t.a.m. hafi Kringlan sett sig upp á móti framkvæmdinni auk þess sem hugmyndir hafi komið fram um að staðsetja skiptistöð Strætó við gatnamótin sem hafi tafið skipulagsferlið.

Er gert ráð fyrir að á næstunni muni liggja fyrir tillaga um útfærslu gatnamótanna og eftir það muni undirbúningur, hönnun og umhverfismat taka rúmlega eitt ár áður en hægt verði að bjóða út verkið. Þá sé verkfræðistofa umhverfis- og tæknisviðs reiðubúin til að vinna málinu brautargengi og gefa því sérstakan forgang.

Að sögn Arnar Kjartanssonar, framkvæmdastjóra Kringlunnar, eru rekstraraðilar hennar ekki á móti breytingum sem stuðla að öryggi á umræddum gatnamótum. "Við höfum þvert á móti bent á leiðir sem kosta mun minna en þær tillögur sem lagðar hafa verið fram og auka öryggið til muna án þess að koma niður á flutningsgetunni."

Hann segir um að ræða aðrar lausnir en mislæg gatnamót, meðal annars svokölluð fjögurra fasa umferðarljós. "Við höfum sagt að við séum á móti mislægum gatnamótum ef þau eru með slaufum af því að við teljum það tímaskekkju að setja þau svo nálægt þessum nýja miðbæ sem þetta svæði er og miðbæ borgarinnar."

En óttast hann að aðkomur að verslunarmiðstöðinni versni með slíkum gatnamótum? "Við teljum að þetta geti haft slæm áhrif á aðkomu og fráleiðir ef ekki er rétt að farið. Reykjavík hlýtur að þurfa að hafa í huga að það athafnasvæði, sem Kringlusvæðið er, haldi sinni stöðu."

Hann bætir því við að fyrst og fremst óski Kringlan eftir því að vera höfð með í samráði um breytingar á gatnamótunum vegna nálægðarinnar við svæðið og forsvarsmenn hennar hafi því óskað eftir fundi með borgarstjóra um málið.