EITT meginverkefni nútímastjórnmála er að vinna að gagnsærri og opinni stjórnsýslu, tryggja skilvirkni í opinberri þjónustu og greiða götur almennings að stefnumótun og ákvörðunum kjörinna stjórnvalda. Ástæðan er einföld.
EITT meginverkefni nútímastjórnmála er að vinna að gagnsærri og opinni stjórnsýslu, tryggja skilvirkni í opinberri þjónustu og greiða götur almennings að stefnumótun og ákvörðunum kjörinna stjórnvalda. Ástæðan er einföld. Æ fleiri setja spurningamerki við að stjórnvöld taki ákvarðanir í krafti almannavalds nema þær séu teknar fyrir opnum tjöldum, studdar traustum rökum og dragi ekki taum sérhagsmuna á kostnað almannahags. Ef stjórnmálum mistekst að ávarpa þessi vandamál mun áfram draga úr trausti á stjórnmálamönnum og stofnunum samfélagsins.

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti á fyrsta fundi sínum eftir kosningar síðastliðið vor að efna til lýðræðisverkefnisins Greiðar götur til að takast á við þessa nýju tíma. Hornsteinar þess er að vinna að breytingum í stjórnkerfi, við stefnumótun og stjórn borgarinnar til að taka mið af rétti almennings til upplýsinga, þátttöku og sanngjarnrar málsmeðferðar. Fjórða áherslusvið Greiðra gatna, hverfalýðræði, hefur komið til umræðu í vikunni í kjölfar prýðilegrar skýrslu Svanborgar Sigmarsdóttur stjórnmálafræðings um hverfaráð í Reykjavík. Hún var unnin á vettvangi Borgarfræðaseturs og aðgengileg á heimasíðu þess.

Samþykkt var í borgarstjórn Reykjavíkur haustið 2001 að stofna hverfisráð í öllum hverfum borgarinnar. Kosið var til þeirra í kjölfar kosninganna 2002 og hófu þau starfsemi á síðastliðnu hausti. Hverfaráðum er ætlað að vera samráðsvettvangur sem á að stuðla að hvers konar hverfisbundnu samráði, móta stefnu fyrir hverfin, og beita sér í málefnum þeirra eftir því sem tilefni gefast. Gera verður ráð fyrir því að áherslur og verkefni hverfaráða verði eins misjöfn og þau eru ólík. Sem dæmi má nefna að hverfisráð Árbæjar hóf starfsemi sína með heimsóknum í allar helstu stofnanir og skóla hverfisins og fundum með þeim fjölmörgu sem koma að forvarnarstarfi og málefnum barna og unglinga í hverfinu. Ábendingar sem þar komu fram var komið á framfæri við gerð fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar fyrir þetta ár. Í upphafi árs hélt hverfisráðið opinn fund um fjárhagsáætlun og framkvæmdir í hverfinu auk skipulags í Norðlingaholti. Þetta var gert í samvinnu við skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur. Á fundinum var tilkynnt um næsta samstarfsverkefni: að efna til íbúaþings og þátttökuskipulags um hönnun og skipulag Árbæjartorgs í hjarta hverfisins.

Svanborg Sigmarsdóttir vekur máls á því í skýrslu sinni að sú staðreynd að hverfisráðin eru samráðsvettvangur en hafi ekki vald til að taka endanlegar ákvarðanir í málefnum hverfanna geti unnið gegn lýðræðislegri þátttöku í vettvangi þeirra. Þetta eru réttmætar vangaveltur og urðu raunar til þess síðastliðinn áratug að hverfaráðum var víða breytt í hverfastjórnir með umtalsverð völd í borgum nágrannalandanna. Má nefna að í Ósló og Stokkhólmi eru allt að 70-80% borgarrekstrarins, skólar og félagsþjónusta, á ábyrgð hverfastjórna sem kosnar eru af borgarstjórn. Vel þykir hafa tekist til við að færa þjónustuna nær borgarbúum með samhliða stofnun þjónustumiðstöðva í hverfum þessara borga. Hið sama verður ekki sagt um þann þátt þessara breytinga sem átti að auka lýðræðislega þátttöku. Rannsóknir sýna að aukin völd hverfisstjórna hafa í litlu eða engu aukið lýðræðislega þátttöku íbúa þessara borga né ánægju þeirra með stjórn borgarinnar. Afleiðingarnar hafa hins vegar birst í tvöföldun hins pólitíska stjórnkerfis með tilheyrandi óhagræði, óljósari boðleiðum og auknum kostnaði. Í Kaupmannahöfn þar sem lengst hafði verið gengið í pólitískri hverfavæðingu með beinum kosningum til hverfastjórna felldu kjósendur að haldið yrði áfram á þeirri braut í almennri atkvæðagreiðslu.

Eftir að hafa kynnt sér reynslu þessara borga og annarra hefur stjórnkerfisnefnd Reykjavíkurborgar náð þverpólitískri samstöðu um hvert beri að stefna í hverfamálum Reykjavíkur. Í fyrsta lagi á að hefja undirbúning að stofnun þjónustumiðstöðva í borgarhlutum eða hverfum Reykjavíkur til að færa þjónustu Reykjavíkurborgar nær borgarbúum. Þarna er fetað í fótspor Norðurlanda í því sem vel hefur tekist. Í öðru lagi hefur verið ákveðið að greiða borgarbúum ekki aðeins leið að ákvörðunum og stefnumótun með stofnun hverfaráða heldur einig á vettvangi fagnefnda borgarinnar. Þetta felst í að greiða götur Reykvíkinga til þátttöku í stefnumótun og ákvörðunum hvort heldur í skipulagsmálum, skólum eða stofnunum og stefnumótun á öðrum fagsviðum borgarinnar, með því að skilgreina rétt til upplýsinga, samráðs og leita nýrra leiða til þátttöku íbúa.

Í stefnumörkun stjórnkerfisnefndar felst þó jafnframt að færa ekki aukin völd til hverfaráða frá því sem nú er. Þetta virðist ganga gegn einni meginforsendu Svanborgar Sigmarsdóttur, að aukin völd hverfaráða sé besta leiðin til að auka þátttöku Reykvíkinga við stjórn borgarinnar og um leið prófsteinn á pólitískan vilja í því efni. Reynsla fjölmargra borga gengur gegn þessari forsendu. Engin töfralausn felst í því að brjóta upp verkefni núverandi fagnefnda og færa þau út í hverfin til að ná því markmiði að virkja íbúa í ákvarðanatöku og stefnumótun. Heillavænlegra er að leita nýrra og spennandi leiða til að tryggja aðgang og áhrif borgaranna að ákvörðunum og stefnumótun á vettvangi allra nefnda og ráða borgarinnar.

Að þessu sögðu er þó mikilvægt að undirstrika að í mínum huga hafa hverfaráð engu að síður ótvíræð tækifæri til að efla borgarumræðuna og bæta stefumótun borgarinnar í málefnum hverfanna. Hverfaráð geta tvímælalaust haft mikil áhrif með því að beita sér í málefnum hverfanna eins og dæmi frá þessum fyrsta vetri þeirra sanna raunar. Lykilatriðið í þeim efnum er náin samvinna við íbúa, samtök og stofnanir í viðkomandi hverfi ásamt samráði við fagnefndir á hverju sviði. Sjálfsagt má þó einnig til sanns vegar færa einsog fram kemur í skýrslu Borgarfræðaseturs að það ræður miklu hvernig til tekst með hverfaráðin hversu virkir hverfaráðsfulltrúar verða að þróa samráð í hverfinu. Þar kemur þó ekki síður til kasta íbúa sjálfra. Til þess er leikurinn gerður.

Eftir Dag B. Eggertsson

Höfundur er læknir og borgarfulltrúi.